Fjárskortur sjúkrastofnana 1994

110. fundur
Miðvikudaginn 16. mars 1994, kl. 13:52:14 (5186)


[13:52]
     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Ég vil beina orðum mínum til hæstv. heilbr.- og trmrh. Þannig háttar til að þegar gengið var frá fjárlögum fyrir árið 1994 vantaði bersýnilega verulega fjármuni til rekstrar sjúkrastofnana hér í landinu. Í fyrsta lagi var það alveg ljóst að samkvæmt greinargerð fjárlagafrv., eins og hún kom frá fjmrn., vantaði 100 millj. kr. upp á það að Landakotsspítali gæti náð saman endum á þessu ári. Það var einnig ljóst að það voru verulegir erfiðleikar fram undan í rekstri Borgarspítalans. Í þriðja lagi var það ljóst að ekki höfðu verið teknar ákvarðanir um barnaspítalann og barnadeildina, sem hafði verið á Landakoti, hvert hún ætti að fara og það hefur ekki verið tekin endanlega ákvörðun enn.
    Nú liggur það einnig fyrir að Ríkisspítalarnir standa frammi fyrir halla á þessu ári upp á 200--400 millj. kr. Ég vil beina þeirri fyrirspurn til hæstv. heilbr.- og trmrh. hvort hann hefur hugsað sér að gera tillögu í fjáraukalögum áður en þinginu lýkur um nokkur hundruð millj. kr. sem bersýnilega vantar upp á það að unnt sé að reka heilbrigðisstofnanir með eðlilegum hætti á þessu ári.