Stjórnarfrumvarp um Héraðsskóga

110. fundur
Miðvikudaginn 16. mars 1994, kl. 13:57:55 (5192)


[13:57]
     Valgerður Sverrisdóttir :
    Hæstv. forseti. Það kom fram á hv. Alþingi fyrir um það bil hálfum mánuði hjá hæstv. landbrh. að frv. sem hann hefur verið með í sinni umsjón og hefur ætlað að reyna að leggja fyrir hv. Alþingi og snertir Héraðsskóga hefur tvívegis strandað í þingflokki Alþfl. Þá kom hæstv. umhvrh. í pontu með þá yfirlýsingu að þetta frv. kæmi fram einhvern næstu daga, hann skyldi sjá til þess að það strandaði ekki lengur í þingflokki Alþfl. Nú langar mig til að spyrja hæstv. landbrh. þar sem hæstv. umhvrh. er ekki mættur hvað sé að frétta af þessu máli. Ég veit að hann hefur unnið mjög náið með þingflokki Alþfl. upp á síðkastið og ætti því að geta svarað því hvað sé þaðan að frétta.