Tillögur landlæknis um niðurskurð í heilbrigðismálum

110. fundur
Miðvikudaginn 16. mars 1994, kl. 14:06:34 (5201)


[14:06]
     Guðrún Helgadóttir :
    Hæstv. forseti. Það er nú slaklegum þingskapalögum að kenna að liðurinn heitir þetta. Ég ætla ekki að finna neitt að fundarstjórn forseta. En vegna þess að hv. 9. þm. Reykv. gerði hér að umtalsefni áðan plagg, sem okkur hv. þm. hefur borist frá landlæknisembættinu þar sem okkur er gert að krossa við ýmsa þá möguleika á sjúkdómum sem mætti draga úr að lækna og hæstv. heilbr.- og trmrh. kvaðst ekki kannast við þetta plagg og segir að það sé honum óviðkomandi, þá hlýt ég að upplýsa hinn unga og nýja hæstv. heilbrrh. um lög nr. 59/1983, um heilbrigðisþjónustu, en þar segir, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Landlæknir er ráðunautur ráðherra og ríkisstjórnar um allt er varðar heilbrigðismál og annast framkvæmd tiltekinna málaflokka fyrir hönd ráðherra samkvæmt lögum, reglum og venjum er þar um gilda. Hann hefur eftirlit með starfi og starfsaðstöðu heilbrigðisstétta. Aðstoðarlandlæknir skal vera landlækni til aðstoðar og staðgengill hans.`` Þetta er 3. gr., 1. liður.
    Þetta held ég að sé nauðsynlegt að hæstv. heilbrrh. viti áður en hann þvær af sér tillögur landlæknis um þessa dæmalausu kosti sem okkur eru settir að velja úr svo sem hvort við viljum heldur að dregið verði úr lækningum geðsjúkra eða hjartasjúklinga.
    Þetta minnir mig á gamla sögu frá bæjarfélagi okkar hæstv. heilbrrh. Þar var einu sinni maður sem þótti heldur klaufalegur í umgengni við konur. Einu sinni herti hann sig þó upp og bauð konu upp í dans og velti lengi fyrir sér hvað hann gæti nú sagt við hana svo henni leiddist ekki. Á endanum datt honum það snjallræði í hug að hvísla í eyrað á henni: Hvort viltu heldur deyja úr krabbameini eða berklum?