Framleiðsla og sala á búvörum

110. fundur
Miðvikudaginn 16. mars 1994, kl. 14:28:07 (5205)

[14:28]
     Kristín Ástgeirsdóttir :
    Virðulegi forseti. Hér er þannig að verki staðið að þingið veit í raun ekkert hvað á að fara að samþykkja hér. Fyrir liggja tvær greinargerðir, tvö nefndarálit með afar misvísandi túlkunum stjórnarsinna á því hvað þessar lagagreinar þýða. Svona er ekki hægt að standa að málum og sæmir ekki Alþingi Íslendinga.
    Við kvennalistakonur teljum rétt að ríkisstjórnarflokkarnir beri ábyrgð á afgreiðslu þessa máls ef svona verður að verki staðið, en í trausti þess að málið verði skoðað nánar á milli 2. og 3. umr. munum við styðja tvo fyrstu liði þeirra tillagna sem hér verða greidd atkvæði um, enda eru þær í samræmi við þær tillögur sem landbn. taldi sig geta fallist á meðan málið var til meðferðar í nefndinni. Við viljum hins vegar breyta 72. gr. en takist það ekki verður meiri hlutinn að bera ábyrgð á henni, svo og þeim viðaukum sem á eftir fylgja.