Framleiðsla og sala á búvörum

110. fundur
Miðvikudaginn 16. mars 1994, kl. 14:34:06 (5208)


[14:34]
     Jóhannes Geir Sigurgeirsson :
    Virðulegur forseti. Það er afstaða þingmanna Framsfl. að eins og þetta mál er lagt fyrir, þá getum við engan veginn tekið þátt í afgreiðslu þess. Með þeirri brtt. sem hér er lögð til eru tvö nefndarálit sem ganga í sitt hvora áttina. Til viðbótar gerðist það hér í gærkvöldi og nótt að tveir hæstv. utanríkisráðherrar, afsakið ráðherrar, þ.e. hæstv. utanrrh. og hæstv. landbrh., komu með túlkanir á þessari grein sem gengu algjörlega misvísandi. Það er skoðun okkar að þingmenn geti ekki tekið ábyrgð á vinnubrögðum sem þessum og í raun séu þingmenn að bregðast þinglegri skyldu sinni með því að samþykkja með opnum augum lagatexta sem er vitað áður en hann kemur til atkvæðagreiðslu að er túlkaður í allar áttir.
    Virðulegur forseti. Ég biðst afsökunar á að hafa nefnt hér áðan að hér væru tveir utanríkisráðherrar. (Forseti hringir.) Það væri miklu nær að segja að hér væru tveir landbúnaðarráðherrar sem virðast vera jafnréttháir innan ríkisstjórnarinnar en koma sér ekki saman um nokkurt mál.