Atkvæðagreiðsla um búvörulagafrumvarp

110. fundur
Miðvikudaginn 16. mars 1994, kl. 14:48:28 (5216)

[14:48]
     Jóhannes Geir Sigurgeirsson :
    Virðulegur forseti. Ég hlýt að vekja athygli á því að í atkvæðaskýringu hér áðan frá hæstv. landbrh. notaði hann ekki tímann til þess að gera grein fyrir sínu atkvæði og er það út af fyrir sig í stíl við annan málflutning hæstv. ráðherra í þessu máli. Hann notaði hins vegar tímann til að snúa út úr afstöðu og málflutningi þess sem hér stendur í þessu máli og ég hlýt, virðulegur forseti, að benda á það að sá tími sem er ætlaður til þess að gera grein fyrir atkvæði sínu er ekki ætlaður til árása á aðra þingmenn.
    Hæstv. ráðherra veit mætavel og það staðfesti ræða hv. 5. þm. Suðurl. hér áðan að hefðu tillögur 3. minni hluta verið samþykktar, þá væri engin óvissa um þau tvö atriði sem hæstv. landbrh. og hæstv. utanrrh. hnakkrifust um hér í gærkvöldi og spöruðu ekki fúkyrðin hvor við annan. Ef hæstv. landbrh. telur að sú málsmeðferð sé að eyða óvissu, þá held ég að hann hljóti að vera einn um þá skoðun. Og ég get upplýst hæstv. ráðherra um það til viðbótar að við þingmenn Framsfl. munum flytja hér tillögu fyrir 3. umr. sem getur eytt óvissunni og sem yrði í þá veru að þá verður Alþingi að taka afstöðu til þess hver túlkunin á brtt. stjórnarmeirihlutans er gild. Þá skulum við taka eftir hvernig hæstv. landbrh. greiðir atkvæði og hvort hann vill í raun og hefur getu til þess að eyða einhverri óvissu í þessu máli.