Vátryggingastarfsemi

110. fundur
Miðvikudaginn 16. mars 1994, kl. 14:58:23 (5217)


[14:58]
     Heilbrigðisráðherra (Guðmundur Árni Stefánsson) :
    Virðulegi forseti. Frv. það sem hér um ræðir, frv. til laga um vátryggingastarfsemi er að grunni til það frv. til laga sem lagt var fram fyrir Alþingi á 116. löggjafarþinginu og samið var af nefnd sem þáv. trmrh. skipaði til að endurskoða í heild gildandi löggjöf á því sviði, þ.e. lög nr. 50/1978, en löggjöfin er mjög komin til ára sinna og orðið tímabært að heildarendurskoðun fari fram. Gildandi lög eru í raun að meginstofni til fyrsta heildarlöggöfin hér á landi um vátryggingastarfsemi sem sett var 1973. Þau voru endurskoðuð 1978 í fáeinum atriðum, en heildarendurskoðun hefur ekki átt sér stað fyrr en núna.
    Frv. var ekki útrætt á 116. löggjafarþinginu. Það var lagt fram lítið breytt nú á haustþingi en hlaut ekki afgreiðslu fyrir síðustu áramót. Afleiðingar þess voru að Ísland hafði ekki uppfyllt ákvæði samningsins um Evrópska efnahagssvæðið á þessu mikilvæga þjónustusviði við gildistöku samningsins 1. jan. sl. Hafa þegar borist athugasemdir frá eftirlitsstofnun EFTA vegna þessa enda litið alvarlegum augum þegar ekki hefur verið staðið við skuldbindingar samkvæmt alþjóðasamningum á þjónustusviði í heild sinni þegar heildarlöggjöf samrýmist ekki ákvæðum slíkra samninga í grundvallaratriðum.
    Það frv. sem hér er lagt fram er hins vegar í veigamiklum atriðum breytt frá eldra frv. Myndun eins sameiginlegs vátryggingamarkaðar á Evrópska efnahagssvæðinu var tiltölulega skammt á veg komin samkvæmt EES-samningnum eins og hann lá fyrir 1. jan. sl. Hann nær aðeins lagareglur sem samþykktar voru fram að 1. ágúst 1991. Veigamiklar breytingar hafa orðið á Evrópulöggjöfinni síðan og EFTA-ríkin sem eru aðilar að EES-samningnum verða að lögbinda þessar breytingar efnislega á fyrri helmingi þessa árs og hrinda þeim í framkvæmd eigi síðar en 1. júlí nk. Skortir mikið á að það frv. sem lagt var fram á seinasta þingi sé í samræmi við þá löggjöf sem nú hefur verið samþykkt og gildir á Evrópska efnahagssvæðinu. Frv. hefur því verið endurskoðað af starfshópi á vegum ráðuneytisins þar sem áttu sæti fulltrúar frá Tryggingaeftirlitinu, vátryggingafélögunum og samtökum þeirra. Er það lagt fram hér sem nýtt frv. með þeim breytingum sem nauðsynlegar eru til samræmis við þá löggjöf sem samþykkt hefur verið hjá Evrópusambandinu og verður hluti EES-samningsins í svonefndum viðbótarpakka lagareglna sem taka munu gildi nú í marsmánuði.
    Heildarendurskoðun laganna er í raun tvíþætt. Miklar breytingar hafa orðið á ýmsum sviðum frá því að lögin voru sett fyrir 20 árum og aðlögun að Evrópulöggjöfinni er nauðsynleg til að staðið verði við gerða alþjóðasamninga og ákvæði samningsins um Evrópska efnahagssvæðið. Sérstök löggjöf er hvarvetna í gildi um vátryggingastarfsemi undir eftirliti stjórnvalda. Löggjöf Norðurlandaþjóða stendur á gömlum merg og var hún að verulegu leyti höfð til hliðsjónar við lagasetningu hér á landi á sínum tíma. Einnig er tekið mið af sambærilegri löggjöf nágrannaþjóða og einkum Norðurlanda. Sér í lagi hefur verið litið til dönsku laganna og lagasmíðar sem þar á sér nú stað vegna breytinga á Evrópulöggjöfinni. Hér er þó um sjálfstætt frumvarp að ræða sem á sér ekki nákvæma fyrirmynd neins staðar annars staðar en tekur mið af íslenskum veruleika.
    Sérstök löggjöf er sett um vátryggingastarfsemi og opinbert eftirlit með henni vegna hins félagslega hlutverks vátrygginga. Þeim er ætlað að veita vernd og fjárhagslegt öryggi gegn ófyrirsjáanlegum áföllum og tjónum sem eiga sér stað í mannlegu samfélagi. Nauðsynlegt er að starfsemi vátryggingafélaga sé rekin á heilbrigðum og traustum grundvelli og gætt sé hagsmuna þeirra sem sækja til þeirra þjónustu og rétt eiga á bótum úr þeirra hendi. Vátryggingafélög hafa með höndum vörslu fjár vátryggingataka sem lagt er í sameiginlegan sjóð og til greiðslu bóta til þeirra sem verða fyrir tjóni. Þau bera mikla áhættu. Starfsemin lýtur flóknum lögmálum og hinir vátryggðu hafa yfirleitt ekki aðstöðu til að meta fjárhagsstöðu þeirra er þeir skipta við og oft og tíðum getur verið erfiðleikum bundið að átta sig á því sem í boði er og samið er um. Af þessum ástæðum er hvarvetna talið nauðsynlegt að opinbert eftirlit sé með starfsemi vátryggingafélaga og ríkar lagaheimildir fyrir hendi til að taka í taumana ef eitthvað fer úrskeiðis.
    Áherslumunur er á milli ríkja hversu langt skuli ganga í opinberum afskiptum af starfseminni en almennt má líta á löggjöf um vátryggingastarfsemi löggjöf í þágu neytenda.
    Þróunin í Evrópu í átt til eins sameiginlegs markaðar á sviði vátrygginga hefur verið hægari en á öðrum sviðum fjármála- og þjónustustarfsemi sem hefur verið komin lengra í þá átt að aflétta ýmsum hömlum og rýmka og samræma reglur milli ríkja og opna landamærin þannig að heimilt verði að veita þjónustu í öðrum ríkjum og sækja sér slíka þjónustu. Breytingar í þessa veru hafa þegar orðið hér á landi á bankasviði í samræmi við Evrópulöggjöfina, m.a. með lögum um viðskiptabanka og sparisjóði sem tóku gildi 1. júlí 1993. Segja má að vátryggingastarfsemin hafi ekki fylgt annarri þjónustustarfsemi vegna andstæðra sjónarmiða sem togast á í þessum efnum meðal aðildarríkja sambandsins. Annars vegar er það sjónarmið að aukið frelsi og samkeppni, fleiri valmöguleikar og dregið sé úr afskiptum hins opinbera af starfseminni sé vátryggingartökum til einna mestra hagsbóta, þ.e. að lögmál markaðarins sjái til þess að hagstæðustu kjör verði í boði og að hæfustu og best reknu vátryggingafélögin og þau sem geta boðið lægstu iðgjöldin lifi og dafni.
    Á hinn bóginn er haldið á lofti sjónarmiðum um nauðsyn þess að hið opinbera hafi hönd í bagga. Hér sé um svo flókið svið að ræða sem erfitt er fyrir almenning að hafa yfirlit yfir. Nauðsyn sé neytendaverndar í ríkum mæli og að opinbert eftirlit sé haft á vátryggingaskilmálum og iðgjöldum, svo og með fjárhag og viðskiptaháttum, markaðslögmálin ein ráði ekki við að skipa málum svo að viðhlítandi sé. Yfirgnæfandi hluti iðgjaldatekna vátryggingafélaga fer til greiðslu bóta vegna tjónstilvika sem ráðast af ytri aðstæðum og vátryggingafélög geta ekki ráðið við nema að takmörkuðu leyti þannig að samkeppnislögmálin gildi ekki með sama hætti á þessu sviði og mörgum öðrum. Beggja sjónarmiða gætir í lagareglum Evrópusambandsins en segja má að til þessa hafi meiri áhersla verið lögð á markaðssjónarmiðin en neytendahliðina. Neytendalöggjöf og lög um vátryggingasamninga hafa ekki verið samræmd í Evrópu og hafa aðildarríkin því að verulegu leyti frjálst val um að setja ákvæði í lög heima fyrir til eflingar neytendavernd.
    Í því frv. sem hér liggur fyrir gætir þessara sjónarmiða beggja. Vátryggingamarkaðurinn hér á landi er af eðlilegum ástæðum mjög lítill og hefur verið mjög einangraður vegna legu landsins. Hann er allsérstæður vegna þess hvernig hann er uppbyggður á ýmsum sviðum. Af 25 aðilum sem nú hafa starfsleyfi hér á landi eru 12 starfandi samkvæmt sérstökum lögum á sviði brunatrygginga og sjótrygginga þar sem opinberir og hálfopinberir aðilar hafa haft einkaréttaraðstöðu á sumum sviðum og notið forréttinda svo sem skattfríðinda. Vátryggingaskilmálar voru löngum staðlaðir og iðgjaldataxtar samræmdir í flestum greinum vátrygginga með beinum eða óbeinum afskiptum og ákvörðunum hins opinbera fyrir fram, samkeppni takmörkuð og samstarf og samráð náið milli félaga í markaðsmálum. Starfsemin bjó lengi vel við ýmis þröng ytri skilyrði, t.d. varðandi fjárfestingar, ávöxtunarmöguleika og skattlagningu. Þetta hefur verið að breytast á undanförnum árum. Samkeppnislög hafa komið til. Vátryggingastarfsemi tengist nú æ meira öðrum sviðum viðskipta, fjármála- og þjónustustarfsemi í kjölfar rýmkunar reglna og þess að hömlum hefur verið aflétt innan lands og milli landa á fjármálasviðinu. Samkeppni eykst og fjölbreyttari tegundir vátrygginga eru á boðstólum. Þrátt fyrir þann mikla fjölda félaga sem hér hefur starfsleyfi er starfsemin að yfirgnæfandi hluta á hendi fárra félaga. Tvö stærstu félögin hafa um 2 / 3 hluta markaðarins og fjögur félög tæplega 90% hluta markaðarins. Engin erlend félög eru starfandi hér nú en þrjú lítil félög eru í eigu útlendinga, þar af tvö að öllu leyti.
    Meginbreytingin með tilkomu EES-samningsins varðandi markaðsaðstæður og starfsskilyrði vátryggingafélaga er að Evrópska efnahagssvæðið verði nú einn sameiginlegur vátryggingamarkaður í öllum greinum vátrygginga. Starfsleyfi er gefið út í einu aðildarríki og gildir alls staðar á svæðinu og það veitir vátryggingafélögum heimild til að stofna útibú hvar sem er innan þess eða veita þjónustu án þess að hafa starfsleyfi í því aðildarríki þar sem þjónustan er veitt. Að uppfylltum einföldum formskilyrðum geta íslensk vátryggingafélög veitt þjónustu í öðrum aðildarríkjum og erlend vátryggingafélög á sama hátt sótt á hinn smáa íslenska vátryggingamarkað. Einstaklingar og fyrirtæki geta einnig haft frumkvæði um að leita eftir þjónustu í öðrum aðildarríkjum og það gildir um allar tegundir vátrygginga.
    Samkvæmt eldra frv. og eldri gerðum EES-samningsins náði starfsleyfi af þessu tagi fyrst og fremst til vátrygginga sem tengjast stærri atvinnurekstri og greinum eins og flug-, farm- og sjótryggingum.
    Samkvæmt frv. eru felld niður ákvæði gildandi laga um kerfisbundna fyrirframskoðun vátryggingaskilmála og iðgjaldataxta og staðfestingu eftirlitsstjórnvalda á þeim. Þó er gert ráð fyrir því í samræmi við reglur EES-samningsins að skilmálar lögboðinna vátrygginga verði ávallt lagðir fram sem og tæknilegur grundvöllur líftrygginga. Er hér um mikla breytingu að ræða frá gildandi lögum, en nú er skylt að senda Tryggingaeftirlitinu alla vátryggingaskilmála fyrir fram til staðfestingar og það hefur heimild til að krefjast þeirra breytinga sem það telur nauðsynlegar. Hliðstætt er í lögum um iðgjöld og iðgjaldaákvarðanir. Hugsunin er sú að frelsi skuli ríkja á markaðnum um það sem í boði er og verðsamkeppni. Opinbert eftirlit er þó ekki alfarið fellt niður. Í stað eftirlits fyrir fram kemur eftir á eftirlit með því sem í boði er og eftirlitsaðilar munu áfram hafa ríkar heimildir til eftirlits með skilmálum og til afskipta standist þeir ekki lög og reglur eða samrýmist ekki góðum viðskiptaháttum.
    Samkvæmt gildandi lögum geta einstaklingar og fyrirtæki ekki vátryggt erlendis eignir og hagsmuni nema sérstakt leyfi trmrh. komi til og óheimilt er að miðla vátryggingum til félaga hafi starfsleyfi ekki verið gefið út hér á landi. Þessum ákvæðum er breytt í frv. til samræmis við þær reglur sem gilda eiga á Evrópska efahagssvæðinu. Þá verður að afnema einkarétt félaga og ójafna aðstöðu á markaðnum samkvæmt gerðum EES-samningum og samkeppnisreglum hans. Aðilar verða að starfa á þessu sviði við sömu rekstrarskilyrði og á jafnréttisgrundvelli við önnur vátryggingafélög á markaðnum. Ákvæði þess efnis eru

ekki í þessu frv. en taka verður á þeim málum í sérlögum sem gilda á hinum ýmsu sviðum vátryggingastarfsemi. Hins vegar er sú breyting samkvæmt frv. saman borið við gildandi lög að kveðið er á um að vátryggingafélög skuli vera í hlutafélagsformi, gagnkvæmu formi eða öðru lögmæltu félagsformi. Er því gert ráð fyrir að í framtíðinni verði ekki stofnuð félög á óskilgreindu félagsformi til að reka vátryggingastarfsemi eins og tíðkast hefur. Gert er ráð fyrir að opinberir aðilar sem reka vátryggingastarfsemi verði, svo sem verið hefur, háðir eftirliti eins og aðrir sem reka þessa starfsemi.
    Sú veigamikla breyting á sér stað í kjölfar útgáfu starfsleyfa í heimaríki, sem gilda alls staðar á Evrópska efnahagssvæðinu, að eftirlitsstjórnvöld heimaríkis bera ábyrgð á eftirliti með allri starfsemi félagsins alls staðar á svæðinu. Eru það nýmæli að erlend vátryggingafélög sem hér fá að starfa í útibúi eða án starfsstöðvar verði að miklu leyti undir eftirliti erlendra eftirlitsstjórnvalda. Tryggingaeftirlitið hér á landi ber hins vegar ábyrgð á eftirliti með allri starfsemi félaga sem það hefur veitt starfsleyfi.
    Gert er ráð fyrir nánu samstarfi eftirlitsstjórnvalda vegna ýmissa formskilyrða sem þurfa að vera uppfyllt og vegna upplýsingaskyldu og aðgerða sem nauðsynlegt kann að vera að grípa til gagnvart erlendum aðilum í landinu. Skilyrði starfsleyfis, fjárhagsskilyrði og ýmsar eftirlitsreglur, hafa verið samræmdar að miklu leyti og kemur þar til með að auðvelda alla framkvæmd eftirlits á Evrópska efnahagssvæðinu. Tekið skal fram að útgefið starfsleyfi veitir ekki sjálfkrafa rétt til starfsemi annars staðar á svæðinu. Viðkomandi félag verður ávallt að tilkynna eftirliti heimaríkis að það hyggist veita þjónustu í gistiríki og eftirlit heimaríkis á að tilkynna eftirliti gistiríkis og leggja fram tiltekin gögn og upplýsingar um félagið.
    Sérstakir kaflar í frv. fjalla um málefni sem varða Evrópska efnahagssvæðið, starfsemi erlendra félaga hér á landi og starfsemi félaga erlendis, sem hér hafa fengið starfsleyfi, og um samskiptareglur eftirlitsstjórnvalda á svæðinu.
    Önnur breyting samkvæmt frv. miðað við gildandi lög sem hefur áhrif á markaðsaðstæður vátryggingafélaganna eru heimildir þeirra til að reka hliðarstarfsemi við vátryggingastarfsemi. Þær eru auknar verulega. Vátryggingafélög mega samkvæmt því eiga meiri hluta eða hafa yfirráð í félagi sem rekur skylda starfsemi, sem hingað til hefur verið óheimilt, og reka ýmiss konar umsýslu sem er í eðlilegum tengslum við vátryggingastarfsemi. M.a. er gert ráð fyrir að þau geti stundað fjármálastarfsemi í sérstökum félögum, þar með talið að reka bankastarfsemi. Þetta er í samræmi við þróunina víða annars staðar og styrkir samkeppnisaðstöðu íslenskra vátryggingafélaga á markaðnum. Einkum er samkeppnin mikil víða milli lánastofnana og fjárfestingarfélaga annars vegar og vátryggingafélaga hins vegar um sparifé þegar líftryggingar og ýmis sparnaður og fjárfestingarform er annars vegar. Bankar hafa heimild til að reka vátryggingastarfsemi í dótturfélögum samkvæmt lögum um viðskiptabanka og sparisjóði og þróunin hefur víða orðið sú að félagasamstæður hafa verið myndaðar um að reka margháttaða fjármálastarfsemi. Þessi ákvæði um rýmkun á starfssviði vátryggingafélaga var einnig að finna í eldra frv.
    Neytendaþættinum eru gerð skil með ýmsum hætti í frv. Í gildandi lögum um vátryggingasamninga, sem eru frá 1954, eru engar sérreglur um samninga sem gerðir eru við erlenda vátryggingaaðila. Réttarstaða vátryggingataka getur því orðið óviss geri hann slíkan samning og ef til þess kemur að hið erlenda félag á að greiða honum bætur vegna tjóns eða ágreiningur kemur upp af einhverju tagi.
    Sérstakur kafli er í þessu frv. og nýr miðað við eldra frv. um upplýsingaskyldu vátryggingafélaga og um val á þeirri löggjöf sem getur gilt um vátryggingasamninga sem gerðir eru um að það skuli koma fram í samningnum hvaða löggjöf gildir um hann og heiti og aðsetur þess félags sem ber vátryggingaáhættuna og fleira. Ekki síst er þörf slíkra ákvæða um líftryggingar þar sem samningar eru oft gerðir til mjög langs tíma og skal veita mjög ítarlegar upplýsingar um samning um líftryggingu áður en frá honum er gengið, svo og á samningstímanum. Skilmálar skulu vera á íslensku eða á máli sem sá sem vátryggingu kaupir skilur og samþykkir og á það ekki eingöngu við um vátryggingasamninga sem gerðir eru í aðildarríkjum EES. Víkja má frá þeirri skyldu ef um er að ræða vátryggingar sem teljast til stóráhættu, þ.e. vátryggingar í stærri atvinnurekstri og í greinum eins og flug-, sjótryggingum og fleiri greinum.
    Erfitt er að spá um hvort miklar breytingar verði hér á landi á þessu sviði þegar landamæri opnast og miklu meiri fjölbreytni býðst í vali á vátryggingum. Búast má við að margt verði í boði á markaðnum sem ef til vill verður ekki einfalt fyrir neytandann að átta sig á þegar boðin er þjónusta á svo flóknu sviði sem vátryggingar eru. Töluverður munur mun t.d. vera á milli ríkja á vátryggingaverndinni samkvæmt skilmálum í hinum ýmsu greinum vátrygginga. Iðgjöld geta verið mismunandi af því einu að gildissvið vátrygginganna eru mismunandi. Þegar boðin eru lægri iðgjöld í harðri samkeppni kann skýringin að vera sú að vátryggingaverndin sé lakari og vátryggingataka verði það fyrst ljóst ef til tjóns kemur og krefjast þarf bóta. Undantekningar í skilmálum kunna að vera fleiri en búist er við eða skyldur vátryggingataka ríkari og iðgjöld lág af þeim sökum.
    Þau ákvæði sem er að finna í frv. um upplýsingaskyldu félags og um val á löggjöf um vátryggingasamninga eru í samræmi við lágmarksákvæði gerða EES-samningsins. Sérstök neytendalöggjöf hefur víða verið sett upp er snertir vátryggingasviðið sérstaklega sem gengur lengra í átt til neytendaverndar og upplýsinga- og kvörtunarþjónusta starfar víða sem fjallar um ágreining sem upp kunni að koma. Einnig starfa úrskurðaraðilar utan dómstóla á þessu sviði. Nefna má Norðurlöndin sérstaklega í þessu sambandi, en hér á landi hefur mjög skort úrræði í þessum efnum. Eini aðilinn sem hefur rekið sérstaka upplýsinga- og kvörtunarþjónustu á þessu sviði er Tryggingaeftirlitið þar sem frá árinu 1981 hefur verið að finna ráðgjafar- og kvörtunarþjónustu fyrir aðila sem skipta við vátryggingafélögin. Hafa ekki verið bein ákvæði í lögum um þennan þátt í starfsemi eftirlitsins en hún hefur verið rekin á grundvelli almennra markmiða laganna.
    Í þessu frv. er kveðið á um að við Tryggingaeftirlitið skuli starfa sérstök neytendamáladeild og að eftirlit skuli haft með viðskiptaháttum, sölumennsku og tjónsuppgjöri vátryggingafélaga. Gert er ráð fyrir að ráðherra setji reglugerð um starfsemi deildarinnar. Hliðstæð ákvæði voru í eldra frv.
    Sérstakur kafli er í frv. um vátryggingamiðlun sem sjálfstæða atvinnustarfsemi en engin ákvæði eru í gildandi lögum um þá starfsemi. Ljóst er talið að miðlun vátrygginga mun gegna æ mikilvægara hlutverki á vátryggingamarkaði í náinni framtíð í framhaldi af myndun sameiginlegs innri vátryggingamarkaðar. Neytendur munu í auknum mæli þurfa á upplýsingum og aðstoð að halda um kjör og innihald við kaup vátrygginga og við tjónsuppgjör. Er því mikilvægt að settar verði regur um þessa starfsemi og eftirlit með henni og að sett verði hæfisskilyrði og kröfur gerðar, m.a. til faglegrar þekkingar.
    Reglur aðildarríkja Evrópska efnahagssvæðisins í þessum efnum eru mjög mismunandi. Sums staðar eru mjög vægar kröfur gerðar og starfsemin ekki háð sérstöku starfsleyfi, annars staðar hafa verið sett sérstök lög. Hér á landi hefur miðlunin, a.m.k. hin síðari ár, verið rekin í mjög litlum mæli sem sjálfstæð atvinnustarfsemi en engar reglur hafa verið til á þessu sviði eða eftirlit með slíkri starfsemi. Gerður er greinarmunur á miðlurum sem starfa algerlega óháðir vátryggingafélögum að því undanskildu að þeir geta þegið þóknun fyrir samninga sem þeir koma á og aftur miðlurum sem starfa í tengslum við einstök félög án þess að vera umboðsmenn þeirra eða starfsmenn. Hér er lagt til að vátryggingamiðlun verði háð starfsleyfi ráðherra og eftirlit með henni verði í höndum Tryggingaeftirlitsins. Sett eru hæfisskilyrði og kröfur gerðar um fagþekkingu.
    Mörg nýmæli eru í frv. varðandi hina fjárhagslegu hlið starfseminnar, um eignarhald á vátryggingafélögum, um stjórnendur þeirra og endurskoðun og ítarleg ákvæði eru sett um það hvernig staðið skuli að stofnun vátryggingafélags. Felld eru niður skilyrði um íslenskan ríkisborgararétt stofnenda og búsetu hér á landi þegar aðilar búa á Evrópska efnahagssvæðinu. Kveðið er á um hæfisskilyrði stofnenda og stjórnarmanna og framkvæmdastjóra, að viðkomandi hafi óflekkað mannorð og hafi aldrei misst forræði á búi sínu. Auk þess eru gerðar kröfur til framkvæmdastjóra um menntun, starfsreynslu og starfsferil þannig að tryggt sé talið að hann geti gegnt stöðu sinni á viðhlítandi hátt. Endurskoðandi má samkvæmt frv. ekki starfa í þágu félags að öðru en endurskoðun. Þessi ákvæði eru öll í samræmi við reglur EES-samningsins.
    Nýmæli er einnig miðað við eldra frv. að tilkynnt skal fyrir fram til Tryggingaeftirlitsins þegar einstaklingur eða lögaðili hyggst eignast virkan eignarhlut í vátryggingafélagi, þ.e. yfir 10% hlut, eða vill breyta virkum eignarhlut sínum yfir viss mörk og getur eftirlitið synjað beiðni hlutaðeigandi um að eignast hlutinn og jafnvel ógilt ákvarðanir sem gerðar hafa verið á grundvelli slíks eignarhlutar telji eftirlitið viðkomandi ekki hæfan til að fara með þennan hlut með tilliti til þess að tryggja heilbrigðan og traustan rekstur félagsins. Tryggingaeftirlitið getur einnig gripið til ráðstafana fari hluthafi þannig með hlut sinn að það teljist skaða félagið. Þessar reglur eru samhljóða reglum í gerðum EES-samningsins og er að finna í lögum nr. 43/1993, um viðskiptabanka og sparisjóði.
    Sú stefna er mörkuð með þessu að efla stórlega eftirlit með eignaraðild að vátryggingafélögum. Í frv. eru alfarið tekin upp þau skilyrði starfsleyfis sem verða að gilda alls staðar á Evrópska efnahagssvæðinu um lágmarksfjárhagsstyrk vátryggingafélaga. Eru kröfurnar auknar miðað við núgildandi reglur hér á landi, einkum á sviði líftrygginga. Níu félög sem nú hafa starfsleyfi hér á landi, líftrygginga- og bátaábyrgðafélög, munu ekki uppfylla þessi skilyrði og hafa þau fengið sérstakan aðlögunartíma til loka þessa árs til að uppfylla þau. Ákvæðin miða að því að tryggja enn frekar en nú er að vátryggingafélög geti staðið við skuldbindingar sínar, bæði gagnvart hinum vátryggðu og öðrum.
    Mikilvæg breyting samkvæmt frv. og einnig nýmæli miðað við eldra frv. eru fólgin í því að vátryggingafélag skal á hverjum tíma tilgreina sérstakar eignir sem samsvara vátryggingaskuldinni, þ.e. óuppgerðum skuldbindingum vátryggingafélags vegna gerðra vátryggingasamninga. Settar eru mjög ítarlegar reglur í gerðum EES-samningsins um þær tegundir eigna sem hér koma til greina, hlutdeild þeirra í vátryggingaskuldinni í heild og samsetningu með tillliti til áhættu, dreifingar og greiðsluhæfis. Í tilskipunum um þetta efni eru sett fram lágmarksskilyrði og er lagt til í frv. að nánari útfærsla þessara tæknilegu atriða verði í reglugerð. Vátryggingafélög skulu halda sérstaka skrá yfir þær eignir sem eru til jöfnunar vátryggingaskuldinni. Ekki eru á hinn bóginn settar sérstakar reglur um aðrar eignir nema almennar varúðarreglur. Markmiðið með þessum reglum er að tryggja að ávallt séu fyrir hendi eins öruggar eignir og unnt er til að mæta skuldbindingum vegna gerðra vátryggingasamninga. Og á hinn bóginn að aflétta að vissu marki hömlum á ávöxtun eigna sem ekki þarf til að mæta vátryggingaskuldbindingum.
    Í gildandi lögum eru gerðar kröfur í þessu efni á sviði líftrygginga með fyrirkomulagi sem er mjög þungt í vöfum en á sviði skaðatrygginga hafa engar slíkar reglur verði í gildi nema að því er starfsemi erlendra félaga varðar hér á landi. Hinar nýju reglur þjóna betur þeim tilgangi að tryggja öryggi og hagsmuni vátryggingataka og vátryggðra og að til staðar séu á hverjum tíma tryggðar eignir til að mæta skuldbindingum vegna væntanlegra bótagreiðslna.
    Vegna EES-samningsins er nauðsynlegt að setja nokkur ný ákvæði um flutning vátryggingastofna

frá einu félagi til annars og um samruna félaga og ítarlegri ákvæði er að finna í frv. um þetta efni en nú er að finna í lögum. Veita má erlendum félögum, sem aðsetur hafa á Evrópska efnahagssvæðinu, heimildir til flutnings vátryggingastofna vegna starfsemi hér á landi. Meginreglan er að eftirlitsstjórnvöld heimaríkis félags, sem tekur við stofninum, skulu staðfesta að gjaldþol þess félags sé fullnægjandi að teknu tilliti til hins nýja stofns. Samþykki Tryggingaeftirlitsins þarf ávallt að liggja fyrir um flutning stofns vegna vátrygginga hér á landi. Auglýsa skal flutning stofns í Lögbirtingablaði og tilkynna vátryggingatökum eftir reglum sem hér gilda. Tryggingaeftirliti ber að gæta þess að réttarstaða vátryggingataka og vátryggðra verði eigi lakari eftir flutning stofnsins. Vátryggingasamningar halda sjálfkrafa gildi sínu og vátryggingatakar eru ekki sjálfkrafa lausir frá samningi sínum við flutning stofns en þeir hafa hins vegar heimild til að segja upp samningi sínum skriflega innan eins mánaðar frá flutningsdegi vilji þeir eigi vera hjá því félagi sem stofninn er fluttur til.
    Nánast engin ákvæði eru í gildandi lögum nema á sviði líftrygginga um þátt Tryggingaeftirlitsins og afskipta ef grípa þarf til sérstakra ráðstafana, t.d. vegna þess að félag uppfyllir ekki fjárhagsskilyrði og getur ekki rétt við hag sinn og eftir að starfsleyfi er fellt niður. Í frv. er nánar skilgreint hvað skuli gera við hinar ýmsu aðstæður, hvenær eftirlitið skuli setja félagi fresti eða grípa skuli til ráðstafana þegar í stað og hvenær lagt skuli til við ráðherra að starfsleyfi verði afturkallað. Í frv. er kveðið á um að Tryggingaeftirlitið skuli í öllum tilvikum þegar starfsleyfi er afturkallað gegna því hlutverki að ráðstafa vátryggingastofni og meta vátryggingaskuldbindingar í því skyni að gæta hagsmuna vátryggingataka og vátryggðra. Sérstök ákvæði eru um meðferð líftryggingastofns og í nokkrum atriðum eru þau ákvæði einnig ítarlegri en í gildandi lögum.
    Nýmæli er að þegar frjáls slit vátryggingafélags eru fyrirhuguð skuli Tryggingaeftirlitið einnig hafa hönd í bagga með uppgjöri vátryggingaskuldbindinga og er félaginu gert að leggja fyrir eftirlitið greinargerð um þær og hvernig þeim skuli lokið. Þá eru nýmæli að Tryggingaeftirlitinu eru fengnar heimildir til að gera ráðstafanir gagnvart félagi, stjórnendum eða þeim sem yfirráð í félaginu hafa þegar grípa þarf í taumana vegna þess sem úrskeiðis hefur farið.
    Í frv. er sérstakt ákvæði um hvernig brugðist skuli við þegar erlent félag með staðfestu á Evrópsku efnahagssvæði og sem hér starfar uppfyllir ekki tilskyldar fjárhagskröfur og eru ráðstafanir þá gerðar í samráði við eftirlitsstjórnvöld heimaríkis. Getur Tryggingaeftirlitið gripið til ráðstafana gagnvart slíku félagi sé það talið nauðsynlegt vegna hagsmuna hinna vátryggðu.
    Sérstök ákvæði eru í frv. um þagnarskyldu og upplýsingaskyldu eftirlitsaðila með tilliti til aukinna samskipta og upplýsingamiðlunar til eftirlitsstjórnvalda annarra ríkja eða frá þeim og eru ákvæði þess efnis í gerðum EES-samningsins.
    Þegar um er að ræða starfsemi erlendra félaga hér á landi með staðfestu utan Evrópska efnahagssvæðisins eru Tryggingaeftirlitinu fengnar mjög víðtækar heimildir til afskipta og til að grípa til ráðstafana fari eitthvað úrskeiðis. Útibú slíkra félaga hér verða alfarið undir eftirliti hérlendra stjórnvalda og m.a. eru settar sérstakar reglur um geymslufé sem skal lagt fram hér á landi. Meðal nýmæla er að Tryggingaeftirlitið getur útnefnt nýjan aðalumboðsmann til að ljúka viðskiptum og uppgjöri vegna starfseminnar hér og heimilað honum að ráðstafa eignum félagsins sé þannig komið málum að hagsmunum hinna vátryggðu sé talið stefnt í hættu og tilskyldar ráðstafanir hafa ekki verið gerðar. Nýmæli er einnig að Tryggingaeftirlitinu eru veittar heimildir til að takmarka eða jafnvel banna ráðstöfun félags yfir fjármunum sínum þegar það er liður í nauðsynlegum aðgerðum til að koma fjárhag félags á réttan kjöl og á það jafnt við um innlend sem erlend félög sem fengið hafa starfsleyfi hér á landi. Þá getur Tryggingaeftirlitið ákveðið ráðstöfun vátryggingastofnana til innlendra félaga við aðstæður þegar starfsemi er hætt eða starfsleyfi er afturkallað.
    Áður en útibúum erlendra félaga með aðsetur utan Evrópska efnahagssvæðisins er veitt starfsleyfi hér á landi er skylt að hafa samráð við önnur aðildarríki þar eð starfsleyfið veitir aðgang að öllu svæðinu. Sama gildir ef aðilar utan EES eignast hlut í vátryggingafélagi sem hér hefur starfsleyfi þannig að félagið verði dótturfélag. Aðildarríkin geta sett eigin reglur um heimildir slíkra vátryggingafélaga til vátryggingastarfsemi á markaðnum heima og jafnvel takmarkað aðgang að eigin markaði, t.d. ef réttindi til vátryggingastarfsemi eru ekki gagnkvæm og því er nauðsyn samráðs milli eftirlitsstjórnvalda aðildarríkja þegar umsóknir aðila utan svæðisins um starfsleyfi eru til skoðunar. Eru því ákvæði í frv. sem eru í samræmi við sérstök ákvæði EES-samningsins um þetta efni.
    Í eldra frv. var gert ráð fyrir sérstakri yfirstjórn Tryggingaeftirlitsins. Hér er sú leið ekki farin, en gert er ráð fyrir óbreyttu fyrirkomulagi þannig að starfsemi eftirlitsins heyri beint undir ráðuneytið og yfirstjórn þess. Hins vegar er gert ráð fyrir að forstöðumaður verði ráðinn til sex ára í senn í stað ótímabundinnar ráðningar eins og í gildandi lögum. Þá er lagt til að ábyrgð ríkissjóðs á útgjöldum eftirlitsins umfram álagðar sértekjur verði felld niður þannig að rekstur stofnunarinnar verði alfarið reistur á sértekjum. Rætt hefur verið um að eðlilegt sé nú á tímum að vátryggingastarfsemin heyri undir sama ráðuneyti og önnur fjármálaþjónustustarfsemi og samkeppnis- og neytendamálum sé þar með almennt komið fyrir og hafa komið fram tillögur þessa efnis. Hér er ekki gert ráð fyrir slíkum tilflutning og ekki tillögur uppi í þá veru.
    Virðulegi forseti. Eins og fram hefur komið er þörf mikilla breytinga á gildandi löggjöf um vátryggingastarfsemi vegna gerbreyttra aðstæðna og vegna aðlögunar á ákvæðum samningsins um Evrópska

efnahagssvæðið. Nánast allir þættir gildandi laga þurfa gagngerðrar endurskoðunar við og ný ákvæði í frv. eru fjölmörg, m.a. á sviðum sem ekki hafa verið nein ákvæði um í lögum hér á landi. Samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið, sem gerir ráð fyrir einu markaðssvæði aðildarríkja, gerbreytir öllum aðstæðum á vátryggingamarkaðnum, bæði vátryggingafélaga og þeirra sem vátryggingar kaupa. Sú stefna er mörkuð í frv., virðulegi forseti, að á sama tíma og svigrúm vátryggingafélaga er aukið og heimildir þeirra til starfsemi á sviðum er tengjast vátryggingastarfsemi eru rýmkaðar og ýmsum hömlum og takmörkunum er aflétt og þar með stuðlað að aukinni samkeppni, þá sé um leið nauðsynlegt að efla eftirlit með fjárhagslegri hlið starfseminnar og öllum rekstri hennar.
    Virðulegi forseti. Ég legg svo til að að lokinni þessari umræðu verði frv. vísað til 2. umr. og hv. heilbr.- og trn.