Vátryggingastarfsemi

110. fundur
Miðvikudaginn 16. mars 1994, kl. 15:49:50 (5219)

[15:49]
     Finnur Ingólfsson :
    Virðulegi forseti. Það frv. sem hér er til umfjöllunar um vátryggingastarfsemi má segja að sé afleiðing af samningnum um hið Evrópska efnahagssvæði og með því er verið að lögfesta þriðju kynslóðina í tryggingamálum á evrópska markaðinum. Þess vegna kom það mér örlítið á óvart þegar hæstv. heilbr.- og trmrh. lýsti því áðan í sinni framsöguræðu að eftirlitsstofnunin hafði gert athugasemdir við það að

við skyldum ekki hafa gert breytingar á okkar tryggingalöggjöf vegna þess að ef ég veit rétt þá á þessi þriðja kynslóð trygginganna ekki að taka gildi fyrr en 1. júlí á þessu ári. Við erum því í sjálfu sér ekki eftir á í þessum efnum hvað það snertir. Hins vegar eru nokkur atriði sem menn hefðu þurft að lögfesta fyrr er snúa að samningnum um Evrópskt efnahagssvæði en ég stóð í þeirri trú að það hefði verið frágengið að þetta mætti bíða.
    Verði frv. að lögum hefur það alveg gríðarlegar breytingar í för með sér á vátryggingamarkaðnum á Íslandi. Mér finnst margt í frv. vera þess eðlis að það gefi mönnum möguleika, ágæta kosti og margar mjög jákvæðar breytingar að mínu viti alveg burt séð frá því hvort þetta frv. hefði nokkuð með samninginn um Evrópskt efnahagssvæði að gera eða ekki. Mikið af því sem þarna er verið að taka upp hefði verið nauðsynlegt að taka upp í íslenskri löggjöf um vátryggingastarfsemi, bara það er snýr að eftirliti og upplýsingaskyldu til almennings og eftirliti með tryggingafélögunum. Ég tek því undir margt sem í þessu frv. er.
    Varðandi þær ábendingar sem hv. þm. Svavar Gestsson var með áðan varðandi síkjabáta og járnbrautir --- hæstv. heilbrrh. benti á að það sé ein afleiðing af því að menn þurfi að lögfesta slíka hluti hér á landi. Það þarf, held ég, engum að koma á óvart að slíkt þurfi vegna þess að með frv. er að opnast möguleiki fyrir íslensk tryggingafélög til þess að taka þátt í að tryggja á evrópska markaðnum. Það er einnig verið að gefa íslenskum tryggingafélögum kost á því að færa út kvíarnar.
    Þær breytingar sem hér eru lagðar til snúa þó fyrst og fremst að mínu viti að kröfum þeim sem gerðar eru í samningnum um hið Evrópska efnahagssvæði og eru í raun og veru eftir á miðað við margt annað, eins og hér hefur verið komið inn á, varðandi fjórfrelsið í viðskiptum, fjármálum og þjónustusviði. En það sem er dálítið merkilegt þegar maður les frv. er að það koma glöggt fram örlítil átök á þessum markaði milli landa um það hvernig þessari vátryggingastarfsemi skuli fyrir komið. Hvort frelsið og samkeppnin skuli ríkja eða ríkisafskiptin vera allsráðandi, þ.e. eftirlit opinberu aðilanna.
    Ég skynja það svo að í þessu frv., sem er auðvitað afleiðingin af samningnum, hafi sú niðurstaða orðið að það sé frelsið og samkeppnin sem eigi að ríkja yfir landamæri. Þar eru gefnir auknir valmöguleikar. Fólk og fyrirtæki hafa möguleika á því að leita hagstæðustu kjara, leita til best reknu fyrirtækjanna og lifa í þeirri trú að verið sé að tryggja hjá sterkum aðila.
    Aftur á móti finnst mér líka vera að mörgu leyti í frv. nálgun við þá kröfu að það sé tryggt að neytandinn, hvort sem það eru fyrirtæki eða einstaklingar, hafi aðgang að upplýsingum um stöðu fyrirtækjanna, um tryggingaskilmálana og hver iðgjöldin í raun og veru eru. Mér finnst því hafa tekist þarna ágætis samspil á milli. Auðvitað skipta vátryggingar í nútímasamfélagi mjög miklu máli, bæði vátryggingatakana og þann vátryggingarétt er þeir hafa keypt sér.
    Með frv. er verið að opna fyrir þá möguleika sem í þessu felast en auðvitað skapast hættur um leið, menn mega ekkert horfa fram hjá þeim. Um leið og menn hafa, bæði einstaklingar og fyrirtæki, þá möguleika sem þarna er opnað fyrir, þá felast í því hættur. Eins og hv. 9. þm. Reykv. kom inn á áðan er tryggingafélögunum ekki lengur skylt að bera iðgjöldin og vátryggingaskilmálana undir Tryggingaeftirlitið eins og nú er. Aftur á móti geta menn boðið þessa þjónustu og þetta verð á markaðinum en þá er sú skylda lögð á fyrirtækin í frv. að þau hafi upplýsingar um stöðu fyrirtækjanna og sú deild við vátryggingaeftirlitið verði efld. Mér finnst VI. kafli frv. um eftirlitið hjá vátryggingafélögunum einmitt vera mjög sterkur og ég fagna því að hann skuli vera settur fram með þessum hætti. Ég trúi því að um leið og verið er að tryggja fólki möguleika á lægri iðgjöldum en það býr við í dag sé hægt að skapa íslensku tryggingafélögunum samkeppnisstöðu erlendis, skapa fyrirtækjum nýja möguleika til þess að leita sér lægri iðgjalda á tímum taprekstra og mér finnst um leið að eftirlitsskyldunni sé að mörgu leyti ágætlega sinnt.
    Það er eitt atriði í þessu frv. sem er algert nýmæli og hv. þm. Svavar Gestsson spurði um áðan. Það eru vátryggingamiðlarnir sem gert er ráð fyrir að geti starfað hér. Nú hafa vátryggingamiðlar starfað í mjög litlum mæli á undanförnum árum. Þeim hafa verið settar mjög þröngar skorður í íslenskri löggjöf. Ég spyr hæstv. ráðherra, án þess að ég ætli að úttala mig um að það sé alveg sjálfsagt að það sé allt opið fyrir þessa miðlara á markaðinum, vegna þess að aðalatriðið er það að tryggingatakinn hafi allar upplýsingar og sem réttastar upplýsingar um stöðu þeirra fyrirtækja sem hann er að tryggja hjá í gegnum þessa miðlara. En það er gert ráð fyrir því að vátryggingamiðlunin verði háð starfsleyfi ráðherra og að eftirlit með henni verði í höndum vátryggingaeftirlitsins og því spyr ég hæstv. heilbr.- og trmrh.: Hafa vátryggingamiðlarar á íslenska markaðinum ekki sama rétt og miðlarar annars staðar á Evrópska efnahagssvæðinu? Það er á engan hátt hægt, er það, hæstv. ráðherra, að þrengja þá kosti eða þau starfsskilyrði sem miðlararnir þurfa að búa við í því starfsleyfi sem á að gefa út af hæstv. heilbr.- og trmrh.?
    Það er gert ráð fyrir því að frv. þetta verði að lögum 1. apríl 1994, eftir tæpan hálfan mánuð. Hér er um gríðarlega flókið mál að ræða, ekki bara torskilið heldur líka tæknilega flókið að fara í gegnum í nefnd og í gegnum þingið. Krafan er sú að fyrir 1. júlí 1994 skulum við hafa lögfest þetta, það er krafa samningsins um hið Evrópska efnahagssvæði, en það er líka krafa um það, ef ég veit rétt og nú spyr ég hæstv. ráðherra, að fyrir 1. júlí séum við búin að gera hreint fyrir okkar dyrum í því hvernig við ætlum að hátta brunatryggingum íbúðarhúsnæðis, bæði utan og innan höfuðborgarinnar. Ég ber því fram sömu spurningu og hv. 9. þm. Reykv. gerði áðan: Hvenær er það frv. væntanlegt inn í þingið og af hverju er það ekki hluti af því frv. sem núna liggur fyrir?

    Ég geri mér grein fyrir því að það er ekki möguleiki á að tilgreina í þessu frv. eignarhald og réttarstöðu Brunabótafélags Íslands, það er örlítið annað mál. En ef við ætlum okkur að standa við samninginn og vera búin að lögfesta vátryggingaskilmálana og brunatryggingaskilmálana fyrir 1. júlí þá er ekki vanþörf á að við förum að fá þau mál til meðferðar í þinginu. Eftir því sem ég heyrði í sjónvarpi haft eftir hæstv. forsrh. fyrir fáum dögum, þá er ekki nema hálfur mánuður eftir af þinginu þegar páskarnir eru dregnir frá. Ég sé ekki hvernig menn ætla að komast í gegnum þetta á svo skömmum tíma með svo flókin mál sem hér eru á ferðinni.