Vátryggingastarfsemi

110. fundur
Miðvikudaginn 16. mars 1994, kl. 16:00:32 (5221)


[16:00]
     Heilbrigðisráðherra (Guðmundur Árni Stefánsson) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. almennt góðar undirtektir við það frv. sem hér liggur frammi og ég gerði allítarlega grein fyrir í inngangi. Það er að sönnu rétt hjá báðum hv. þm. að hér er um umtalsverðar breytingar á löggjöf um vátryggingastarfsemi að ræða frá því sem við höfum búið við og hárrétt líka að í raun og sanni er ekki nema rúmlega 20 ár síðan við fengum heildarlöggjöf um vátryggingastarfsemi hér á landi, eða árið 1973 og lítils háttar breytingar síðan gerðar 1978. Að öðru leyti búum við að þessari löggjöf sem áður var nefnd.
    Eins og fram kom í mínum inngangi þá eru nokkur höfuðatriði sem taka hér breytingum. Í fyrsta lagi er óhætt að segja að þetta frv. beri það með sér að við séum að sigla inn í fyrirkomulag sem hafi í för með sér frelsi sem vonandi og væntanlega leiðir til þess að samkeppnin lækki iðgjöld og bæti þar með hag neytenda. En á sama tíma er þess vandlega gætt að öflugt og tryggt eftirlit með fjárreiðum viðkomandi félaga og starfsemi þeirra yfirleitt verði haft með höndum.
    Á sama hátt er ráð fyrir því gert sem raunar er í gildandi lögum um banka og sparisjóði að vátryggingafélög geti á sama hátt víkkað út sína starfsemi, farið út í fjármálastarfsemi ýmiss konar. Þótt menn kunni að greina á um það í hve miklum mæli það eigi að vera og hversu æskilegt það sé þá hygg ég að þar skuli jafnræðisreglan gilda. Á sama hátt og bankar hafi heimildir til þess að ráðast í vátryggingastarfsemi, þá hljóti eðlilega vátryggingafélögum á sama hátt að vera heimilt að hafa fjármálastarfsemi og lánastarfsemi ýmiss konar á hendi.
    Raunar finnst mér á stundum að vátryggingafélögin hér á landi, svo öflug sem mörg þeirra eru, hafi í of litlum mæli tekið þátt í ýmiss konar atvinnustarfsemi, þ.e. með ábyrgðarveitingu og öðru slíku. Mér er auðvitað fullkunnugt að mörg þeirra hafa komið til skjalanna og veitt verktakafélögum mörgum hverjum ábyrgðir en í kannski allt of litlum mæli og verið of íhaldssöm að leggja til fjármagn til fjárfestinga til styrktar atvinnulífi en þörf hefur verið á nýju fjármagni í landi okkar.
    En allt um það. Þetta hygg ég vera til bóta. Hér hafa menn staldrað örlítið við vátryggingamiðlara og það er að sönnu rétt að að mörgu leyti er þar um að ræða nýja stétt manna og kvenna og þó ekki alveg nýja því auðvitað þekkja Íslendingar tryggingasölumenn, nánast eins og húsasala sem fara á milli og bjóða gull og græna skóga, eru yfirleitt gerðir út af tilteknum tryggingarfélögum en þó ekki alltaf, sumir hafa jafnvel umboð fyrir fleiri en eitt. Þeir eru því ekki alveg nýir fyrir íslenskum vátryggingatökum. Hins vegar eru þeir betur þekktir víða erlendis og í þessari löggjöf er reynt að búa þannig um hnúta að vettvangur þeirra verði ekki takmarkaður heldur að þröngir skilmálar og hæfisskilyrði séu lögð til grundvallar rétti þeirra til að starfa hér. Ég hygg að þar sé um að ræða gagnkvæmni milli aðildarþjóðanna.
    Hv. þm. Svavar Gestsson og raunar hv. þm. Finnur Ingólfsson líka stöldruðu við þá setningu ræðu minnar að hér snjóaði eða rigndi inn athugasemdum frá eftirlitsstofnun EFTA vegna þess að hér hafa ekki tekið gildi lög sem við höfum gengist undir að ættu að hafa lagastoð frá og með síðustu áramótum. Það voru ekki mín orð að hér rigndi eða snjóaði inn athugasemdum. Hitt er ljóst að íslensk yfirvöld, eins og önnur sem undirgengust EES-samninginn, gerðu auðvitað grein fyrir stöðu mála um síðustu áramót hvað varðaði hin fjölmörgu atriði, m.a. þetta, og það lá ljóst fyrir um síðustu áramót að við gátum ekki að fullu og öllu fullgilt þau ákvæði EES-samningsins sem lutu að vátryggingum. Við þessu fengum við almennt svar og á það var bent að það þyrfti að bæta úr þessu. Annað var það ekki. Þessi var öll rigningin og öll snjókoman hvað lýtur að afskiptum eftirlitsstofnunar EFTA.
    Hv. þm. Svavar Gestsson ræddi örlítið um þennan alþjóðlega blæ sem á frv. er og í raun og veru hefur hv. þm. Finnur Ingólfsson svarað því og ég tel óþarfa að orðlengja það frekar.
    Varðandi iðgjaldamálin og iðgjaldaþróun þá er það að sönnu rétt að það léttir mjög af afskiptum

opinberra aðila í þeim efnum. Ég hef þá trú, þó að menn geti verið mér ósammála um það, að sú samkeppni og sú víkkun starfsemi sem í frv. felst muni leiða til lækkunar iðgjalda. En vissulega er á sama hátt brýn nauðsyn á því að gera íslenskum tryggingatökum það mjög rækilega ljóst að tryggingataka er lífsins alvörumál, ekki síst nú þegar tilboðunum fjölgar, málin verða kannski að sumu leyti flóknari en áður var og þar af leiðandi er mjög mikilvægt að upplýsingamiðlun til handa íslenskum tryggingatökum verði mjög í heiðri höfð og á lofti haldið.
    Í frv. er tekið á neytendamálum og þau færð til mun betri vegar þó vafalaust megi þar enn úr bæta og ég vænti þess að gagnlegar ábendingar í þá veru komi fram í nefndinni og raunar einnig um önnur atriði sem þörf er á að taka.
    Ég hygg að ekki sé efni til þess, virðulegi forseti, að orðlengja þetta. Ég vil hins vegar segja það að ég tel þetta frv. til mjög mikilla bóta að öllu leyti fyrir íslenska tryggingataka, fyrir íslenskt launafólk, sem þarf nauðsynlega að kunna skil á mikilvægum tryggingum sér til handa. Vonir standa til þess að með auknu framboði og auknum valmöguleikum lækki iðgjöld. Auðvitað mun reynslan skera úr um það. En á sama hátt minni ég á að í frv. eru einnig stigin framfaraskref til aukinnar neytendaverndar, til aukinnar upplýsingamiðlunar og það er einnig að minni hyggju til verulegra bóta.
    Í bláendann vil ég upplýsa það að spurningar viðvíkjandi frv. til brunatrygginga í og utan Reykjavíkur eru nú til umfjöllunar í þingflokkum stjórnarflokkanna og það sama gildir um frv. um eignarhaldsfélagið Brunabótafélag Íslands.