Rannsóknarráð Íslands

111. fundur
Fimmtudaginn 17. mars 1994, kl. 11:29:11 (5228)


[11:29]
     Svavar Gestsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég vil að gefnu tilefni taka fram að ég hef enga forustu fyrir stjórnarandstöðunni í þessu máli og örugglega ekki hv. 3. þm. Norðurl. e., sem kvartaði sérstaklega undan þessu ávarpi
    Það sem ég vil segja í sambandi við mál hæstv. ráðherra er auðvitað fyrst og fremst það að ég fór yfir þessi grundvallaratriði sem ráðherrann lýsti eftir. Ég tel að sú stefnumótun almennt séð að færa saman eins og kostur er grunnrannsóknir og hagnýtar rannsóknir, sé skynsamleg stefnumótun. Það sagði ég. Hins vegar sagði ég að ég teldi að það væri kannski ekki nægilega vel búið um grunnrannsóknirnar sem slíkar inn í frv. eins og það lítur út. aðalgagnrýni mín laut þó að því, hæstv. ráðherra, að ég sé ekki að í frv. séu tryggðir auknir fjármunir til rannsókna- og þróunarverkefna miðað við það sem verið hefur. Og loks það sem ráðherrann nefndi í sambandi við meistaranám og doktorsnám við Háskóla Íslands sem er opnað fyrir út af fyrir sig en það er búið að því fyrir löngu. Það var gert í tíð síðustu ríkisstjórnar með breytingu á lögum um Háskóla Íslands og þar er auðvitað rétt að byrja. Ég skil hins vegar hæstv. umhvrh. vel. Honum hefur leiðst í þessari ríkisstjórn. Hún hefur verið vond við menntun og menningu þannig að hann er öllu feginn, líka þessu litla frv.