Rannsóknarráð Íslands

111. fundur
Fimmtudaginn 17. mars 1994, kl. 11:34:45 (5232)


[11:34]
     Valgerður Sverrisdóttir :
    Hæstv. forseti. Ég sé ástæðu til þess að fagna því að þetta frv. er fram komið og komið til umræðu á hv. Alþingi, frv. til laga um Vísinda- og tækniráð Íslands. Ég tel að hér sé í sjálfu sér ekki um flokkspólitískt mál að ræða. Það eru á því eitthvað mismunandi skoðanir í þjóðfélaginu og einnig á meðal vísindamanna. Hér eru lagðar til breytingar sem þarf auðvitað að velta vel fyrir sér og skoða gaumgæfilega í hv. menntmn. og það vona ég að við fáum tíma til að gera þó að ég taki undir það með hv. síðasta ræðumanni að frv. er seint fram komið. En ég met það mikils að haft hafi verið samráð við vísindamenn sem málið varðar og ég þakka hæstv. menntmrh. fyrir það en hann hefur ekki endilega verið þekktastur fyrir það að hafa mikið samráð við hagsmunaaðila og nefni ég þá t.d. málefni skólanna í því sambandi en unnið er að breytingum á lögum bæði hvað varðar framhaldsskóla og grunnskóla, ekki fleiri orð um það.
    Við tölum oft um það á hátíðarstundum að stærsta auðlindin sem við eigum sé fólkið sjálft í landinu og auðvitað er það rétt. Það verður líka að vera rétt en þannig háttar til með okkar náttúruauðlindir að það verður ekki eins auðsótt hér eftir sem hingað til í þær og þegar við horfum fram í tímann og ég tala nú ekki um fram á næstu öld þá sjáum við það að þjóðin verður að leggja nýjar áherslur og það er raunar dapurlegt að hugsa til þess hvað það hefur gengið ótrúlega illa að fjölga störfum sem eru á sviði hátækni hér í landinu, að það skuli vera svo þrátt fyrir þann samdrátt sem hefur verið í fiskveiðum að hlutfall sjávarfangs í okkar verðmætasköpun hefur ekki lækkað. Þá sér maður nú hvernig ástandið er á öðrum sviðum.
    Þessar nýju áherslur, sem ég nefndi hérna áðan, verða að vera þjóðin sjálf og þekking hennar. Við verðum að hasla okkur völl á sviði vísinda frekar en orðið hefur og þá er ég ekki síður að tala um vísindi sem búa til störf. Það hefur eitthvað mistekist hvað þetta snertir á síðustu árum. Ég vil alveg leyfa mér að halda því fram þó að ég hafi í sjálfu sér stutt flestallar þær ríkisstjórnir sem hér hafa verið síðustu 20 árin þá hefur okkur ekki tekist að móta þarna stefnu sem hefur leitt nógu mikið jákvætt af sér og kannski gæti það að einhverju leyti hafa verið vegna þess að við höfum ekki verið með rétt fyrirkomulag hvað varðar stjórnun þessara mála. En í úttekt OECD er því haldið fram að Íslendinga skorti sýn um sína efnahagslegu framtíð og þá skorti líka forsendur til að samhæfa verk sín, láta samvinnu stofnana og fyrirtækja, ríkisvalds og einkageira, leysa úr læðingi þann kraft sem þarf til þess að móta nýtt og efla vísindin. Þetta er áminning sem við verðum að taka alvarlega og reyna að bæta úr. En e.t.v. er samt sem áður skortur á fjármagni ein ástæða þess að ekki hefur gengið betur en raun ber vitni og ég tek undir það að ég get ekki séð að með þessu frv. sé endilega verið að tala um meira fjármagn til þessa málaflokks. Það er að vísu talað um samráðsnefnd sem eigi að móta stefnu til nokkurra ára um fjárveitingar og ég efast ekki um að hún muni leggja til að meira fjármagn fari í þennan geira, en síðan er það þegar til kastanna kemur alltaf ákvörðun stjórnvalda hvernig málum er raðað í forgangsröð. Eins og hér hefur komið fram hefur fjármagnið verið nokkuð dreift hvað varðar vísindarannsóknir og ábyrgðin líka.
    Eitt af því sem er athyglisvert og kom m.a. fram í ræðu hæstv. ráðherra er það að atvinnulífið hefur ekki lagt það fjármagn til rannsókna- og vísindastarfs sem tíðkast hjá öðrum þjóðum sem við berum okkur gjarnan saman við og að um 75% af því fjármagni sem er varið til þessara verkefna sé á vegum opinberra aðila en aðeins 25% frá atvinnulífinu, frá einkageiranum. Það er náttúrlega lítið og eftir því sem ég best veit þá er þetta algjörlega á hinn veginn hjá öðrum þjóðum. Þarna koma náttúrlega til m.a. erfiðleikar sem hafa verið í okkar atvinnulífi núna, alla vega síðustu árin og kannski fleiri ástæður. En ég hef trú á því að með þessu frv. sé verið að reyna að búa til skilvirkara stjórnkerfi og fyrirkomulag með því

að sameina Vísindaráð og Rannsóknaráð ríkisins undir nafninu Vísinda- og tækniráð Íslands. Nafnið er kannski atriði út af fyrir sig sem þyrfti að velta fyrir sér í hv. nefnd hvort er rétt nafn á frv. en það er kannski ekkert aðalatriði. Með þessu er verið að leggja það til að öll sjónarhorn verði með, allar greinar vísindanna sitji við sama borð og það verður sjálfsagt tíminn að leiða í ljós hvort sá árangur næst ef þetta frv. verður að lögum, en ég get ekki séð annað en það sé alla vega það sem lagt er til. Og að það sé ekki lengur rétt að skipta rannsóknum í grunnrannsóknir og hagnýtar rannsóknir er í sjálfu sér athyglisvert og ekkert í sjálfu sér um það að segja nema ég held að það sé af hinu góða.
    Hæstv. menntmrh. talaði um fjárlagagerðina, að nú sé hugmyndin að koma upp samstarfi ráðuneyta hvað það varðar til þess að sameina áherslur og ég endurtek þá bara það sem ég sagði áðan að þetta er fyrst og síðast spurning um fjármagn, en ég tel þó að það fyrirkomulag sem verið hefur hafi þó kannski ekki verið nógu skilvirkt hvað það snertir að við séum vel á varðbergi gagnvart öllum þeim möguleikum sem við eigum hvað varðar erlenda sjóði og þar aukast möguleikar einmitt nú um þessar mundir og snertir það aðild okkar að Evrópsku efnahagssvæði en eins og komið hefur fram þá hefur fram að þessu það norræna samstarf sem við höfum tekið þátt í og átt möguleika á að fá fjárveitingar í gegnum verið okkur ákaflega mikils virði.
    Það kom fram hjá hæstv. ráðherra að það væru yfir 900 milljarðar sem væri varið til þessa starfs innan Evrópubandalagsins og við leggjum fram 90 millj. Nú eru það náttúrlega dálitlir fjármunir, 90 millj., þannig að það reynir mikið á að við verðum þarna virk og skoðum alla möguleika sem eru til staðar og nýtum okkur þá eins og mögulegt er. En þar sem hér er verið að sameina ráðin, ef svo má að orði komast, þá veltir maður því fyrir sér hvort það væri ekki ástæða til þess að stíga skrefið til fulls og sameina sjóðina. Kannski hefur það verið of stór biti að kyngja en ég hefði gjarnan viljað fá upplýsingar um það hjá hæstv. ráðherra hvað veldur því að það skref er ekki stigið.
    Ég get tekið undir það með hv. 9. þm. Reykv. að mér finnst 3. gr. vera dálítið sérkennileg og þarfnast nákvæmrar yfirferðar í hv. menntmn. þó ég ætli ekki í sjálfu sér að kveða upp úr um það hér og nú að það sé ekki hægt að hugsa sér það fyrirkomulag sem þar er lagt til. Eins langar mig að spyrja hæstv. menntmrh. hvað varðar úthlutunarnefndir, bæði Vísindasjóðs og Tæknisjóðs. Þar er kveðið á um að það sé sérstakt fagráð sem leggi faglegt mat en síðan aðrir einstaklingar sem séu í úthlutunarnefnd sem fá hæfar umsóknir til úrvinnslu. Ég geri mér ekki alveg grein fyrir hvaða sjónarmið eiga fyrst og fremst að ríkja hjá þessari úthlutunarnefnd umfram það sem gerist í fagráðum. Nú eru náttúrlega fagráðin mörg en ég geri mér ekki alveg grein fyrir því hvort þau hefðu ekki getað gengið frá málum endanlega, en það er ekki það sem lagt er til heldur séu það aðrir einstaklingar, aðrir aðilar sem taka þessa lokaákvörðun. Og hverjar eru þá fyrst og fremst áherslur úthlutunarnefndar? Á hún að vera með einhverja pólitíska stefnu um að einhver tiltekinn málaflokkur eigi að fá einhverja sérstaka áherslu umfram annan þetta eða hitt árið eða hvað? Hvað hefur hæstv. menntmrh. að segja um þetta fyrirkomulag frekar en kom fram í hans framsöguræðu?
    Það er mikil tilhneiging í þjóðfélaginu að sameina og reyna á þann hátt að búa til skilvirkara stjórnkerfi og e.t.v. spara. Þetta er það sem verið er að gera innan bændasamtakanna t.d. eða a.m.k. eru tillögur uppi um það þó að ekki hafi verið tekin endanleg ákvörðun. Fyrst málefni bænda eru okkur svo ofarlega huga hér á hv. Alþingi og ekki að tilefnislausu, þá er þetta ákveðin tilhneiging sem á sér stað og í sjálfu sér er hún af hinu góða.
    Ég vil að síðustu segja það, hæstv. forseti, að ég tel að við Íslendingar þurfum að taka okkur á á þessu sviði og ég trúi því ekki að hér sé skortur á góðu vísindafólki heldur sé eitthvað annað fyrst og fremst sem hafi verið að og ég tel að með þessu frv. sé ætlað að reyna að taka á því máli þó að ég taki undir það með hv. 9. þm. Reykv. að okkur gafst ekki langur tími til að fara yfir öll þau frumvörp sem sett voru á dagskrá hér í dag og komast kannski ekki öll að en þar sem ég sitt í hv. menntmn. þá hef ég tækifæri þar til að skoða málið miklu betur. Ég álít þó og vil hafa það mín lokaorð að hér sé stigið skref í rétta átt.