Rannsóknarráð Íslands

111. fundur
Fimmtudaginn 17. mars 1994, kl. 11:48:34 (5233)


[11:48]
     Kristín Ástgeirsdóttir :
     Virðulegi forseti. Ég vil taka undir þau orð sem hér hafa komið fram varðandi þetta merkilega mál sem við erum að ræða hér að það er býsna seint fram komið og ég get ekki leynt þeim ótta mínum að okkur muni ekki takast að afgreiða þetta mál fyrir þinglok vegna þess hve stuttur tími er orðinn til stefnu. Ég

harma það að málið skyldi ekki koma fyrr fram vegna þess að að mínum dómi er hér um ákaflega brýnt mál að ræða. Það er ákaflega brýnt að við tökum á okkar vísindamálum og hér sé mörkuð vísindastefna og unnið að því að styðja og styrkja stöðu vísindanna í landinu, en eins og ég segi, það verður auðvitað að koma í ljós hvað okkur tekst að komast yfir hér á þessum tæplega 5 vikum sem eftir eru af þinginu.
    Það verður að segjast eins og er að þó að margt gott sé að finna í þessu frv. þá er þetta svolítið sérkennilegt að vera með annarri hendinni að vinna að því að skipuleggja vísindin á hinn betri veg en með hinni að skera niður sjálfa undirstöðuna sem er menntunin í landinu, framlög til menntaskólanna, framhaldsskólanna og að maður talin nú ekki um fjárframlag til Háskóla Íslands sem auðvitað er meginstoðin undir þeirri vísindastarfsemi sem á að skipuleggja samkvæmt þessu frv. Í því samhengi get ég ekki látið hjá líða að minnast á alla þá íslensku vísindamenn sem búsettir eru erlendis, hafa ýmist neyðst til eða finnst að miklu betur sé að þeim búið erlendis en hér og það tengist auðvitað stórmáli í þessu samhengi sem eru launakjör vísindamanna. Það verður að horfa á þetta allt í samhengi. Ef við ætlum að efla rannsóknir og vísindi í landinu, þá er ekki nóg að endurskipuleggja starfsemina og þá sem eiga að úthluta peningum, heldur verður að huga að því hvernig búið er almennt að vísindamönnum í landinu. Ég vil vekja sérstaka athygli hæstv. menntmrh. á þessu atriði. Það er áhyggjuefni hversu margir íslenskir vísindamenn búa erlendis og hafa flust þangað á síðustu árum eða skila sér ekki heim. Ekki það að þeir gera merkilega hluti og leggja heiminum lið með sínum störfum en okkur veitir ekkert af því fólki sem hefur eitthvað til málanna að leggja hér.
    Ef ég á að fara nokkuð frekari almennum orðum um þessa stefnu sem hér er verið að marka þá er ég sammála því að við þurfum að gera mikið átak í hagnýtum rannsóknum, rannsóknum sem skila sér í atvinnusköpun, en við megum ekki gleyma undirstöðunni sem eru grunnrannsóknir og mér finnst þegar ég les þetta frv. í gegn að áherslan á hið hagnýta, á það hvernig fyrirtæki geti komið inn í sé gegnum gangandi á kostnað þess að byggja upp grunninn. Einnig vil ég lýsa áhyggjum yfir því hver áherslan er hér á tækni og raunvísindi og menn gæti þess að hugvísindin beri ekki skarðan hlut frá borði. Ég hef vissar áhyggjur af því. Það er ákaflega lítið minnst á þau í þessu frv. og ég vildi gjarnan að í þeirri framhaldsvinnu sem fram mun fara í hv. menntmn. yrði hugað betur að því hvort það er hægt að treysta hlut hugvísindanna í sjálfu frv.
    Þetta frv. gengur út á það að hér er verið að sameina og færa í einn farveg þau ráð og þá sjóði sem hingað til hafa annast styrki til vísinda og móta hér vísinda- og tæknistefnu og þetta held ég að sé af hinu góða. Eins og hlutverk Vísinda- og tækniráðs er skilgreint hérna í frv. þá er það mjög víðtækt, ákaflega víðtækt, og við getum auðvitað velt þeirri spurningu fyrir okkur hvort e.t.v. sé skynsamlegra að hafa hlutverkið þrengra, hvort við séum að dreifa kröftunum um of. Þetta er svona huglæg spurning. Er betra að dreifa sér yfir víðan völl eða ætlum við fyrst og fremst að beina okkur að ákveðnum sviðum? Við erum ákaflega lítið samfélag og höfum takmarkað fjármagn og við hljótum að þurfa að hafa ákveðna forgangsröð. Það eru ákveðin svið sem liggja betur við okkur en önnur, þar á meðal er það sem snýr að sjávarútvegi svo að dæmi sé nefnt, það er það sem snýr að jarðfræði og jarðfræðirannsóknum og síðast en ekki síst liggur okkar sérstaða ef við horfum til hugvísindanna í íslenskum fornbókmenntum sem eru auðvitað einstakar í veraldarsögunni. Þessi þrjú svið eru okkar sérsvið og ég bara velti því upp hérna hvort eðlilegra sé að þrengja sviðið þó að ég í sjálfu sér hafi ekki gert upp minn hug í því.
    Eins og ég skil þá skipan sem hér er lögð til, þá er það í fyrsta lagi að þarna verði yfir þessu sviði stefnumótandi Vísinda- og tækniráð. Síðan verða skipaðar fagnefndir, einhver ótiltekinn fjöldi fagnefnda, sem eiga að fylgjast með því sem gerist á hverju sviði og síðan verða sérstakar óháðar úthlutunarnefndir sem eiga að annast úthlutun á styrkjum. Þetta er töluvert kerfi sem þarna er verið að koma upp og í mínum huga er býsna óljóst hversu margt fólk er verið að tala um, það verður á verkefnasviði ráðsins að ákveða það hversu mörg þessi fagráð verða.
    Það sem er ákaflega mikilvægt í þessu sambandi er hvernig staðið verður að því að skipa fólk í þessi ráð og þessar úthlutunarnefndir og að tryggja það að þar komi að fólk úr ýmsum áttum frá hinum ýmsu sviðum vísindanna og einmitt að raunvísindi verði ekki alls ráðandi. Þau munu auðvitað ráða miklu en hitt sviðið má ekki gleymast. Og ég tek undir það sem hér hefur komi fram í umræðunni varðandi 3. gr. að þetta er svolítið sérstök framsetning á lagatexta, þetta sem áður hefur verið vitnað til að það skuli tilnefna tilekinn fjölda einstaklinga. Þarna væri auðvitað betra að setja einhverja fasta tölu og við þurfum sérstaklega að athuga þessa grein í hv. menntmn.
    Sama gildir um þessa stofnun. Þarna er verið að sameina stofnanir og ef maður lítur í umsögn fjmrn., þá telja þeir að það verði ákaflega lítil breyting á fjárframlögum til þessarar stofnunar, hún verði álíka dýr í rekstri og þau ráð sem nú eru starfandi, þ.e. Vísindaráð og Rannsóknaráð og það er í rauninni ekki um það að ræða að þarna verði einhver fjárhagsleg hagræðing, heldur er fyrst og fremst um að ræða samræmingu á stefnumörkun. Ég skil þetta þannig að það sé ekki um að ræða það sem við nefnum í daglegu tali hagræðingu heldur sé fyrst og fremst um samræmingu að ræða.
    Ef við víkjum svo aðeins að fjármögnun þessara tveggja sjóða þá vakna spurningar í því sambandi, ekki síst þegar maður horfir til stefnumörkunar ríkisstjórnarinnar í þeim efnum. Hún ætlaði sér að efla vísindin. ,,Vísindin efla alla dáð`` eins og þar stendur og það var meiningin að afla fjár til vísindarannsókna með einkavæðingu ríkisstjórnarinnar. Einkavæðingin átti að skila tugum milljóna til vísindanna

en eins og menn minnast runnu þau áform meira og minna út í sandinn. Það er auðvitað svo að fjárveitingar til vísindarannsókna verða að vera tryggar. Þær verða að vera öruggar þannig að starfið haldi áfram og mér sýnist að það sé að mestu leyti gert í þessu frv. en þeir liðir sem hér eru nefndir, gjafir frá einstaklingum eða fyrirtækjum, eru óráðin stærð og sérstök verkefni að reyna að sjá til þess að íslensk fyrirtæki veiti meira fjármagn bæði inn í þessa sjóði og líka til rannsókna sem þau sjálf stunda. Það er allt of lítið um það að íslensk fyrirtæki standi fyrir rannsóknum enda eru þau mörg hver afar illa stödd fjárhagslega. En þarna er mjög mikilvægt að fjármagnið til vísindastarfsemi sé tryggt.
    Ég ætla aðeins að víkja að þessu atriði sem fram kemur í 22. gr. um tímabundnar stöður prófessora. Það vakna spurningar hjá mér varðandi þessa grein hver sé hugsunin á bak við þetta. Þetta hefur verið svolítið reynt. Bæði hafa verið stöður hjá Háskóla Íslands og eins t.d. rannsóknastaða á Þjóðminjasafninu í fornleifafræði. Þetta hafa sannast að segja verið svolítið dularfullar stöður og verið veittar með dularfullum hætti og ýmsir góðkunningjar menntmrh. verið þar fremstir í flokki eða fyrrv. menntmrh., ég ætla nú ekki að nefna nein nöfn, en það eru þessir sem gagnrýna nú ríkiskerfið mest en koma sér svo á ríkisspenann um leið og þeir geta. Í sjálfu sér er þetta góð hugmynd en maður spyr sig auðvitað til hvers. Hver er tilgangurinn með þessu? Hvar á að koma þessu fólki fyrir? Hvar á það að fá aðstöðu og er það eðlilegt að þessar stöður séu veittar með þessum hætti? Væri ekki nær t.d. að Háskóli Íslands eða Háskólinn á Akureyri, Kennaraháskólinn, hefði slíkar stöður, skólinn sjálfur hefði slíkar stöður og þær væru veittar með ákveðnum hætti? Ég velti þessu upp hér.
    Hér var aðeins komið inn á námssjóðinn sem er ætlaður til þess að styrkja fólk til framhaldsnáms. Það atriði beinir sjónum að þeim breytingum sem gerðar hafa verið á Lánasjóði ísl. námsmanna. Þegar frv. um breytingar á Lánasjóði ísl. námsmanna kom fram höfðu stjórnarliðar uppi mikil áform um það að efla styrkjakerfi en sannast að segja hefur ákaflega lítið verið um efndir í þeim efnum og það hefur gerst að fólki hefur einfaldlega verið gert erfiðara fyrir að stunda framhaldsnám en áður var. Ég tek undir það að mér finnst mikilvægt að hér sé til styrkjakerfi þannig að fólk geti sótt eitthvert eftir styrkjum til að stunda ákveðið nám. Ég held að Ísland sé eitt af örfáum löndum ef ekki eina ríki Evrópu sem ekki hefur slíkt styrkjakerfi. Það er nauðsynlegt og gott að hafa almennt námslánakerfi, en það á líka að vera til styrkjakerfi sem ýtir undir fólk og ýtir undir það að góðir vísindamenn geti haldið áfram sínum rannsóknum.
    Ég get ekki látið hjá líða að nefna aðeins Evrópusamstarfið sem menntmrh. kom inn á í sinni ræðu en þar er það að nefna að það er vaxandi samstarf og í ýmsar áttir að sækja í þeim efnum og margt merkilegt að gerast á því sviði. En það er ekki nóg að við sækjum út. Við þurfum að hafa upp á eitthvað að bjóða líka. Eftir því sem ég hef heyrt þá eru vandræðin m.a. þau að Háskóli Íslands, sem er öflugasta stofnunin á þessu sviði, er svo fjársvelt að skólinn á afar erfitt að bjóða á móti. Við erum að tala um gagnkvæm nemendaskipti, gagnkvæmt samstarf og við verðum að geta boðið eitthvað á móti og við eigum ekki að vera í þeirri stöðu að vera einungis þiggjendur. Þetta tengist því sem ég sagði áðan að við getum sett upp bæði fögur og glæsileg áform um að efla vísindi og rannsóknir en ef undirstaðan er ekki góð, ef ekki er staðið nægilega vel að því að byggja upp grunnmenntun og framhaldsmenntun hér og að sjá til þess að Háskóli Íslands og aðrir háskólar geti sinnt sínu starfi þá er til lítils unnið. Þetta er allt saman samhangandi og þetta er spurning um hugarfar, þetta er spurning um forgangsröð og ef við ætlum að efla hér vísindin og vísindarannsóknirnar, ekki síst til að stuðla að atvinnusköpun í okkar landi --- það er eitt brýnasta verkefni sem við stöndum frammi fyrir að skapa vinnu hér og að sjá til þess að hér verði ekki viðvarandi og mikið atvinnuleysi á komandi árum og áratugum --- þá verðum við að setja upp forgangsröð, við verðum að veita fjármagn til menntunar vegna þess að það ber öllum saman um það að þróun og framtíðin og það að standa sig í heimi framtíðarinnar byggist á því að hafa gott menntakerfið. Menntakerfið er algert grundvallaratriði í þessum efnum og við verðum að veita fjármagn til þess. Þetta verður að hanga saman.