Rannsóknarráð Íslands

111. fundur
Fimmtudaginn 17. mars 1994, kl. 12:05:57 (5234)


[12:05]
     Jóhannes Geir Sigurgeirsson :
    Virðulegur forseti. Ég hlýt að fagna því að þetta mál er komið fram. Ég held að þarna sé hreyft mjög tímabærum hlutum. Það er hins vegar umhugsunarefni að svona stór mál skuli vera að koma fram nánast á síðustu dögum þingsins því að samkvæmt starfsáætlun eru ekki margir dagar eftir hér til vinnu.
    Ég mundi hins vegar þrátt fyrir það hversu málið kemur seint fram styðja að það yrði gert allt sem hægt væri til að ná að afgreiða það fyrir vorið og ég vildi beina því til menntmn. sem minni skoðun að hún reyndi að setja þetta mál í forgangsröð. Af þeim málum sem hafa verið að koma inn frá menntmrh. núna síðustu dagana þá tel ég að þetta sé það sem í raun liggur mest á að afgreiða, ekki síst til þess að hægt sé að fylgja eftir þeirri vinnu sem nú hefur staðið yfir, ekki bara í tíð þessarar stjórnar heldur fyrri stjórnar líka og ég tel reyndar að hljóti að vera nokkur samfella í að það verði hægt að fylgja eftir því starfi strax á þessu ári.
    Svona í upphafi máls míns ætla ég að benda á nafnið á frv., þ.e. Vísinda- og tækniráð Íslands. Mér finnst þetta alveg afleitt nafn. Hið eðlilega nafn á þessu væri náttúrlega Rannsóknaráð en e.t.v. er það hluti

af ,,dílnum``, hluti af samkomulaginu milli aðila í þessu mál að það hefði þurft að leggja niður bæði gömlu nöfnin. En þá sting ég því nú að menntmn. sem vinnur að þessu, ef hún hefði hug á að gera brtt. um þetta, að þegar að því kemur, sem ég tel víst að gerist áður en langt um líður, að sjóðirnir tveir verði sameinaðir, sem heita hér Vísindasjóður og Tæknisjóður, þá heiti sá sjóður Vísindasjóður og hvort menn geta ekki fundið einhverja málamiðlun í þessu. Mönnum finnst þetta kannski ekki stórt atriði en mér finnst það skipta máli að nöfn á svona stofnun séu einföld og hljómi í samræmi við það sem menn ætla sér að gera. Mér skilst að ef það héti Rannsóknaráð væri það mjög í stíl við þau nöfn sem eru á hliðstæðum stofnunum í nágrannalöndum okkar.
    Ef ég byrja á því að fara ofan í hina einstöku þætti frv. og enda kannski svolítið almennt þá hafa menn rætt nokkuð um 3. gr. og um stjórnina. Þetta er ekki árennilegt eins og þetta stendur í greininni og e.t.v. kann að reynast nauðsynlegt að breyta því á einhvern hátt en mér finnst hins vegar hugmyndin eða hugsunin á bak við þetta bæði frumleg og skemmtileg, því að hugsunin á bak við þetta, eins og ég hef skynjað þetta og fengið upplýsingar um, er sú að reyna að skapa pressu á að þeir sem tilnefndir verða verði þeir sem hafi besta yfirsýn og hæstan vísindalegan ,,standard`` en ekki endilega þeir aðilar sem viðkomandi stofnanir mundu telja að yrðu duglegastir að skaffa fyrir sig. Ég held að þessi hugsun sé allrar virðingar verð og nefndinni beri að kanna hvort þetta sé ekki fær leið. Og eins og ég skynja þetta þá er hugsunin sú að ráðið verði á sem hæstum menntalegum og vísindalegum ,,standard`` frekar en það að þeir sem fái rétt til að tilnefna tilnefni þá aðila sem þeir teldu að væru duglegastir að skaffa styrki og fjármagn fyrir sig. Ég vil að menn hugsi það rækilega áður en þeir henda þessari hugmynd út.
    Mér sýnist sömuleiðis það módel sem hér er sett upp varðandi styrkveitingar, að hugmyndin þar á bak við sé sú að auka og skerpa faglegu kröfurnar og það verðum við að gera í öllu vísinda- og rannsóknastarfi. Þetta eru þeir efnislegu þættir sem ég hef viljað koma hér fram.
    Menn hafa rætt hér svolítið um íslenska vísindasamfélagið. Það er náttúrlega eingöngu hugtak og er allrar virðingar vert en það er mín skoðun að í okkar hraða og flókna samfélagi séu hlutirnir ekkert lengur þannig að það sé eitthvert vísindasamfélag sem sé sér út af fyrir sig, síðan sé atvinnulífið einhvers staðar annars staðar. Þessir þættir eru orðnir svo samverkandi að það er orðið miklu erfiðara heldur en kannski var að skipta þessu upp á þennan hátt.
    Almennt um þennan þátt er það náttúrlega svo að um langt árabil hefur í raun stærsti hluti þess fjármagns sem varið er til vísindastarfa og rannsóknastarfa verið tilkominn í gegnum rannsóknaskyldu og vísindaskyldu kennara við Háskóla Íslands. Ég varpaði þeirri spurningu til hæstv. menntmrh. hvaða eftirlit hafi verið í gegnum tíðina með því hvernig það mikla fjármagn, sem í raun er varið til vísinda- og rannsóknastarfa, hefur skilað sér.
    Ég hef svolítið þá tilfinningu, þó að það sé vissulega að breytast núna á síðustu árum, að kröftunum í Háskóla Íslands hafi verið of mikið dreift og starfsemi þar ekki alltaf verið mjög markviss. Ég nefni í því sambandi að þar hafa stór svið til skamms tíma orðið nánast útundan. Allar rannsóknir á sviðum okkar grunnatvinnuvegs, sjávarútvegsins, hafa verið hornreka í Háskóla Íslands þangað til núna á allra síðustu missirum og það vekur athygli að menn skuli ekki hafa haft metnað til þess að skapa sér nafn sem akademísk stofnun á því sviði þar sem að mínu mati menn hafa langsamlega mestu möguleikana. Í þessu sambandi er ekki hægt annað en nefna það að þangað til fyrir örfáum árum var nánast ekkert samstarf á milli líffræðideildar háskólans og síðan stofnana sjávarútvegsins, Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins og Hafrannsóknastofnunar. Þetta er því betur að breytast og við sáum það nokkrir þingmenn sem heimsóttum Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins í vetur að þetta er að aukast, en þetta var svona. Og á þeim tíma þegar íslenskur sjávarútvegur og íslenskir sjómenn voru að sigla hraðbyr í allri þróun fram úr stéttarbræðrum sínum í nágrannalöndunum, þá sat hið akademíska umhverfi eftir og tók nánast ekki eftir því hvað þarna var að gerast.
    Ég vil hins vegar að það komi alveg skýrt fram svo að það misskiljist ekki að eftir því sem ég hef fylgst með þessu þá eru þessir hlutir að breytast mjög til betri vegar nú á allra síðustu missirum og á mörgum sviðum í Háskóla Íslands er unnið mjög gott starf og hann stendur þar fyllilega jafnfætis öðrum skólum. Ég nefni bara í því sambandi mat sem var gert af erlendum aðilum á verkfræðideild Háskóla Íslands á síðasta ári.
    Það er nokkuð rætt hér í frv. um faglegar kröfur og það er mín skoðun að við verðum að gera hér sömu faglegu kröfur til vísinda- og rannsóknastarfs og gerðar eru í okkar nágrannalöndum. Það er einfaldlega ekki hægt annað því að þetta umhverfi, hvort sem okkur líkar betur eða verr, er alltaf að verða alþjóðlegra og það er alltaf að verða algengara, sérstaklega í framhaldsnámi til meistaraprófs, að þó að námsmenn séu vistaðir í einu landi þá vinni þeir sitt starf meira og minna í samvinnu og undir handleiðslu prófessora annars staðar þar sem menn finna að hin faglega þekking á sviðinu er best. Og ef við Íslendingar ætlum að eiga okkur framtíð á þessu sviði, þá gerist það ekki nema við náum að byggja þetta upp á þann hátt að það standist þær kröfur þar sem best er gert annars staðar.
    Ég er þeirrar skoðunar að með því að gera þessar kröfur þá gerist það í raun sjálfkrafa að rannsókna- og vísindastarf hér fari meira inn á þær brautir sem við höfum sérstöðu á, bæði í atvinnulegu og náttúrulegu tilliti, þessar kröfur muni beina þessu starfi inn á þau svið atvinnulífsins þar sem við höfum mesta möguleikana og inn á þau svið þar sem okkar náttúrufarslega sérstaða skapar okkur möguleika. Í

þessu nýja umhverfi geta menn ekkert leyft sér lengur, eins og því miður staðreyndin hefur verið á sumum sviðum, að vera að dútla á einhverjum sviðum þar sem við stöndum langt að baki því sem best er gert annars staðar og menn koma aldrei til með að vera að gera neitt sem eftir verður tekið.
    Þetta tengist líka því sem hér hefur komið fram um það að grunnrannsóknirnar og hagnýtu rannsóknirnar eru meira og minna að renna saman í eitt. Og við sjáum þetta m.a. á því að öflug fyrirtæki --- við eigum því miður ekki mörg dæmi þess enn þá hérlendis --- sem eru í fararbroddi á sínum sviðum eru farin að verja glettilega háu hlutfalli af sínum ráðstöfunartekjum í rannsókna- og þróunarstarf og oft og tíðum rannsóknastarf sem eru hreinar grunnrannsóknir. Það líður ekki lengur sá langi tími sem oft var áður frá því að gerðar eru grundvallaruppgötvanir á vísindasviði og þar til atvinnulífið fer hagnýta sér þær og tileinka. Þetta er allt saman meira og minna að renna saman í dag.
    Menn hafa rætt hér út frá þessu um það að það sé kannski hætta á því að í þessu nýja umhverfi gleymist grunnrannsóknirnar. Ég óttast það kannski ekki svo mikið út frá því sem ég var að segja rétt áðan, hvernig þetta hefur runnið meira og minna saman, en vissulega er það svo að þar eru ákveðin svið sem menn verða að halda utan um og sjá til þess að haldi sínum hlut.
    Ég er þeirrar skoðunar að á sínum tíma hafi verið ákveðin rök fyrir því að taka upp þessa skiptingu hér á landi milli annars vegar Vísindaráðs og Rannsóknaráðs. Rannsóknaráð var þá meira á hinum hagnýta vettvangi. En það var hins vegar á þeim tíma eins og ég sé það gert á þeim rökum að það þyrfti sérstaklega að styðja við hagnýtu rannsóknirnar. En í dag, eins og kom fram í ræðu hv. þm. Svavars Gestssonar, eru menn kannski farnir að velta þessu fyrir sér akkúrat þá á hinn veginn, að það þurfi að verja ákveðin svið í grunnrannsóknum. Og þó ég sjái ekki á þessu stóra hættu, þá get ég tekið undir það að þetta þurfi menn að skoða, að að þessu verði staðið á þann hátt að báðir þættirnir geti unað við sitt, þó, eins og ég hef verið að reyna að færa rök fyrir, að þetta sé meira og minna að renna saman í dag.
    Virðulegi forseti. Þetta er svið sem ég hef vissulega haft og hef áhuga á og hef reynt að fylgjast með og stuðla að þar sem ég hef getað komið því við. Þess vegna ítreka ég það sem ég sagði í upphafi minnar ræðu, þau tilmæli til hv. menntmn. að menn skoði nú hvort ekki sé hægt að setja þetta mál í forgangsröð og að menn noti þann tíma sem er til vorsins til þess að fullvinna málið, því vissulega er rétt að það kemur seint fram. Og það sýnir kannski hvernig vinnubrögð eru, kannski ekkert endilega hjá þessari ríkisstjórn, að bara á meðan hæstv. menntmrh. flutti sína framsögu þá komu tvö stjórnarfrumvörp inn á borð til okkar því nú er akkúrat kominn sá tími undir þinglok sem stjórnarfrumvörpunum fer að rigna inn og það er alveg ljóst að það verður ekki afgreiddur nú nema lítill hluti af þeim.