Rannsóknarráð Íslands

111. fundur
Fimmtudaginn 17. mars 1994, kl. 12:23:12 (5235)


[12:23]
     Svavar Gestsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Eins og fram kom í minni ræðu fyrr í dag, þá tel ég að þetta sé eitt af allra stærstu málum þingsins og þetta er svona framtíðar-,,attest`` fyrir þessa þjóð hvað hún leggur af fjármunum til vísinda- og rannsóknastarfsemi. Ég tek undir það með hv. þm. að þetta er mikilvægt mál, en hv. þm. nefndi þann möguleika að þetta yrði gert að forgangsmáli á þeim dögum sem eftir eru af þinginu.
    Ég bendi á að það eru að ég held þrjú mál önnur frá menntmrn. nokkuð stór, eða tvö þeirra alla vega nokkuð stór, sem hér eru til meðferðar og ég held að það sé mikilvægt einmitt að fá það nokkuð fljótt upp frá ráðuneytinu hvaða forgangsröð það vill hafa á málum. Ég fyrir mitt leyti tek undir það að ég er alveg tilbúinn til þess að taka þetta mál út úr og helga því mikla vinnu. En mér sýnist t.d. að frv. um þjóðarbókhlöðu sé í raun algerlega óhjákvæmilegt til afgreiðslu hvað sem öllu öðru líður með fullri virðingu fyrir þessu máli.