Rannsóknarráð Íslands

111. fundur
Fimmtudaginn 17. mars 1994, kl. 12:38:22 (5237)


[12:38]
     Menntamálaráðherra (Ólafur G. Einarsson) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Hv. þm. spurði hvort ætlunin væri að vinna þetta mál í þinginu eða hvort samið hefði verið milli stjórnarflokkanna um að málið yrði afgreitt svona og ekki öðruvísi. Það er auðvelt fyrir mig að svara því. Að sjálfsögðu verður þetta mál unnið í þinginu í hv. menntmn. Mér er alveg ljóst að tíminn er naumur og það er til mikils mælst þegar ég óska eftir því að þetta mál hljóti afgreiðslu fyrir þinglok. Mér er það alveg ljóst. En ég bendi á að það fer að sjálfsögðu eftir undirbúningi flókinna mála, eins og þetta verður sjálfsagt að teljast, þetta verður sjálfsagt að teljast flókið mál þó að frv. sé ekki margar greinar í sjálfu sér. Það fer eftir undirbúningnum hversu mikla vinnu þingnefnd telur sig þurfa að leggja í málið. Eins og kom fram í minni ræðu áðan, þá hefur verið haft mjög náið samstarf við alla þá sem að vísindum og rannsóknum vinna í landinu þannig að það mun ekki taka langan tíma fyrir menntmn. að fá álit allra þessara aðila. Einhver liggja þegar fyrir og t.d. er mér kunnugt að þetta mál verður rætt sérstaklega á fundi háskólaráðs nú í dag. Ég læt því í ljós þá von að það megi takast að ljúka, ég vil segja, eðlilegri meðferð málsins í þinginu þrátt fyrir þennan nauma tíma vegna þess hvernig unnið hefur verið að undirbúningi.