Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

111. fundur
Fimmtudaginn 17. mars 1994, kl. 14:37:06 (5253)


[14:37]
     Steingrímur Hermannsson :
     Virðulegi forseti. Í ræðu hæstv. utanrrh. og ekki síður í þeirri sem dreift var til þingmanna fyrr í vikunni kennir margra grasa og fjölmargt þess eðlis að nauðsynlegt er í raun að ræða þau mál ítarlega á Alþingi. Ég vil strax í upphafi lýsa efasemdum mínum um það form sem nú er upp tekið að takmarka svo mjög ræðutíma og umræður um skýrslu utanrrh. og skil það mætavel að hæstv. utanrrh. gat alls ekki gert Alþingi grein fyrir þessum mörgu og mikilvægu málum eins og hann hafði ætlað sér og kosið.
    Ég verð sömuleiðis að takmarka mjög mál mitt. Ég hefði mjög gjarnan vilja ræða hluti eins og t.d. framtíð varnarliðsins hér á landi, framtíð Atlantshafsbandalagsins, þróun mála í fyrrverandi Sovétríkjum, fyrrverandi Júgóslavíu, þátttöku okkar Íslendinga í umhverfismálum, þróunaraðstoð og fjöldamargt fleira gæti ég nefnt.
    Staðreyndin er vitanlega sú að þátttaka okkar Íslendinga í alþjóðlegu samstarfi er mjög hratt vaxandi. Við erum í miðdepli þess og hefur þar orðið afar mikil breyting og það er ákaflega mikilvægt fyrir smáþjóð að fóta sig vel og rétt í þessu mjög svo breytta umhverfi og umhverfi sem breytist stöðugt með meiri hraða.
    Hér er einnig afar nauðsynlegt að ræða um málefni GATT sem hæstv. utanrrh. kom inn á. Ég vil aðeins í örfáum orðum lýsa þeirri skoðun minni að við Íslendingar hljótum að taka mjög virkan þátt í því starfi öllu og ég er þeirrar skoðunar að með stöðugt vaxandi mikilvægi innflutnings og útflutnings fyrir okkur Íslendinga hljóti frelsi í viðskiptum að vera ákaflega mikilvægt. En það þýðir hins vegar ekki að við eigum að taka við öllu sem þaðan kemur óskoðuðu. Þvert á móti hygg ég að við þurfum að fara mjög vandlega í allt það sem þar er rætt og allt sem þar er samþykkt og við þurfum að beita öllum þeim ráðum sem við Íslendingar höfum til þess að sporna við slysum sem af slíku frelsi geta vissulega orðið.
    Ég tek undir það sem kom fram hjá hæstv. utanrrh. að vissulega var þátttaka okkar Íslendinga í EFTA nauðsynleg en ég held því miður að við höfum alls ekki haldið vel á okkar innri málum í framhaldi af því, langt frá því. Okkur var gefinn ágætur tími til þess að aðlagast breyttu umhverfi fyrir íslenskan iðnað. Við nýttum það illa satt að segja og ég óttast að við séum ekki síst að uppskera nú hvernig við unnum að þessum málum þegar enn er aukið frelsi til samskipta á öllum sviðum atvinnulífs. Og sannarlega er það afar mikið áhyggjuefni hvert stefnir með íslenskan iðnað, íslenskan skipaiðnað, íslenskan húsgagnaiðnað, íslenskan byggingariðnað sem verið hefur í fréttum upp á síðkastið. Ég nefni þetta vegna þess að þrátt fyrir þessa samninga leggja allar þjóðir á það mjög mikla áherslu að vernda í raun sínar innlendu atvinnugreinar með öllum þeim ráðum sem leyft er í þessum samningum og reyndar hygg ég að margir gangi þar töluvert lengra. Ég vona að aðgerðir sem nú eru boðaðar fyrir íslenskan skipaiðnað beri árangur. Ég óttast að þær komi nokkuð seint og ég óttast að þær þurfi að vera töluvert víðtækari en enn er til boðað. Ég vona að sama megi segja um íslenska framleiðslu t.d. á húsgögnum og innréttingum. Ég heyrði nýlega að auglýst er eftir tilboðum bæði innan lands og erlendis í húsgögn og innréttingar í Þjóðarbókhlöðuna. Ég ætla að leyfa mér að láta þá skoðun koma hér fram að ég teldi það hina mestu skömm fyrir okkur Íslendinga að fylla þá þjóðargjöf af erlendri framleiðslu á þessum sviðum svo góða iðnaðarmenn sem við höfum. Staðreyndin er vitanlega sú að með því að haga útboðum rétt, ég nefni þetta sem dæmi, getum við Íslendingar ráðið því að slíkt verði framleitt innan lands. Um allt slíkt væri þörf að ræða hér en því miður leyfir tíminn það ekki eins og ég hefði kosið og ég kýs því að koma fyrst og fremst að því máli sem hvað efst er á baugi núna, þ.e. breytingar sem orðið hafa í Evrópu.
    Ég las í einu dagblaðinu í dag að meiri hluti þjóðarinnar telur að við Íslendingar eigum að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Satt að segja kemur þetta mér ekki á óvart miðað við þann málflutning sem hefur verið upp á síðkastið. Þessum samningum var t.d. alls ekki lokið þegar hæstv. menntmrh. lýsti því yfir að við Íslendingar hefðum átt að sækja um aðild að Evrópusambandinu og ættum reyndar að drífa í því sem allra fyrst. Ég heyrði ekki betur en hæstv. fjmrh. lýsti yfir einhverju svipuðu og mér þótti satt að segja afar ótrúlegt þegar opinber talsmaður okkar Íslendinga erlendis, sendiherra okkar í Genf, lýsti því yfir fyrir alheim að nú hefðum við Íslendingar aðeins örfá daga til að gera upp hug okkar um að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Ég ætla ekki að gera að umræðuefni hér þá glýju sem hefur verið í augum manna eins og framkvæmdastjóra Verslunarráðsins eða framkvæmdastjóra VSÍ, sem reyndar hafa lengi boðað það að við ættum að sækja þarna um aðild. En ég fagna því sem kom fram hjá hæstv. utanrrh. í upphafi þessa máls þegar samningar virtust vera í höfn og hann var held ég einn þeirra örfáu sem minntist þess að Alþingi hefði mótað stefnu á sl. ári um tvíhliða samning. Ég verð hins vegar að lýsa mikilli undrun með þá breytingu sem er orðin í málflutningi hæstv. utanrrh.
    Nú dregur hann upp einhverja glansmynd af framtíð Evrópu, vissulega byggða á skemmtilegum hugmyndum sem forseti Tékka setti fram á Evrópuþinginu, en eiga áreiðanlega ákaflega langt í land og telur nú vel koma til greina að við Íslendingar hugleiðum aðild að Evrópusambandinu. Ég vil hins vegar fagna því sem ég hef heyrt koma fram bæði hjá hæstv. forsrh. og hv. formanni utanrmn. að í raun og veru hafa þessir samningar ekki breytt neinu gagnvart okkur Íslendingum. Hver er þá skýringin á þeirri skoðun sem kemur fram hjá Íslendingum sem spurðir eru? Ástæðan fyrir þessari skoðun er tvímælalaust sá málflutningur sem hefur verið hafður í frammi. Þeir samningar sem Norðmenn hafa gert hafa t.d. verið rómaðir svo að það er afar eðlilegt að menn hugsi sem svo: Fyrst Norðmenn hafa náð svona gífurlega góðum samningum í sjávarútvegi, getum við ekki náð þeim sömu samningum og er ekki rétt fyrir okkur Íslendinga að sækja um aðild?
    Ég hef ekki tekið eftir því að þess hafi verið getið í fréttum fyrr en í gær að samningar Norðmanna í sjávarútvegsmálum eða því sem Norðmenn ná fram í sjávarútvegsmálum er allt saman tímabundið. Ég er með þennan samning hérna fyrir framan mig og tími minn leyfir ekki að ég fari í mörg atriði hans, en ég ætla aðeins að fara yfir eins konar lokaorð þessa samnings, sem felst í því sem kallast sameiginleg yfirlýsing um sjávarútveg norðan 62. breiddargráðu og ég legg á það áherslu að það er náttúrlega töluvert svæði þar sunnar. Þar segir í lélegri þýðingu minni skulum við segja, með leyfi forseta:
    ,,Norðmönnum er heimilað að halda þeim samningum við Rússa um veiðar sem gerðir hafa verið fram til 1. júlí 1998. Eftir það verða þeir samningar í höndum Evrópusambandsins.`` Þá segir jafnframt: ,,Norðmönnum er heimilað að hafa þær tæknilegu takmarkanir á veiðum sem í gildi eru í eitt ár.`` Ég skil það svo að þarna séu hlutir eins og t.d. möskvastærð og fleira þess háttar. Þarna segir einnig: ,, Norðmönnum er heimilt að hafa reglur sem núna gilda um að kasta úrgangi í hafið og þess háttar hluti í þrjú ár.`` Þarna segir jafnframt að stjórnunarleiðir sem Norðmenn nýta nú til verndar á viðkvæmum svæðum, þ.e. lokun og opnun viðkvæmra svæða, eru leyfilegar í þrjú ár. Ég spyr: Eru þrjú ár eitthvað sem við Íslendingar kaupum fyrir íslenskan sjávarútveg? Eru þrjú ár eitthvað sem er einhvers virði fyrir okkur Íslendinga? Hér hefur verið sagt að eftir þennan tíma verði teknar upp norskar aðferðir við stjórnun fiskveiða. Það segir hér að framvegis verði tekið tillit til norskra aðferða og þær skoðaðar, en allt saman í ljósi hinnar sameiginlegu stefnu Evrópusambandsins í sjávarútvegsmálum, þ.e. allt þetta fellur undir Rómarsáttmálann, það er bara svo einfalt. Það fellur undir Rómarsáttmálann og það er ekki verið að breyta honum. Án þess að ég geti farið ítarlegar í þetta, þó að það væri þess virði, er niðurstaða mín sú eftir að hafa lesið það sem ég fékk hér í hendur í gær, að Norðmenn hafi gert ákaflega lélegan samning fyrir norskan sjávarútveg, ákaflega lélegan samning. Í Noregi er norskur sjávarútvegur um það bil 2% af þjóðarframleiðslu Norðmanna ef ekki minna, því að þetta eru nokkuð gamlar tölur, en á Íslandi vegur íslenskur sjávarútvegur 20% af íslenskri þjóðarframleiðslu. Í raun og veru lít ég svo á að Norðmenn séu að fórna því sem þeir telja minni hagsmuni fyrir meiri.
    Það hefur einnig verið sagt að Norðmenn hafi náð góðum samningum í landbúnaði. Ég hef þá að vísu ekki í upphaflegri mynd en ég hef nokkrar upplýsingar um þá hér og ég fæ ekki séð það, þó þeir séu að öllum líkindum eitthvað skárri heldur en í sjávarútvegi. Norðmenn fá í raun fimm ára aðlögunartíma í landbúnaði. Verð á landbúnaðarafurðum verður strax hið sama í Noregi og annars staðar í Evrópu. Hins vegar fá Norðmenn aðstoð frá Evrópusambandinu í fimm ár í sambandi við fjárhagsaðstoð til landbúnaðarins á norðlægari svæðum til að bæta upp þann verðmismun sem verður á norskri landbúnaðarframleiðslu og þeirri sem kemur erlendis frá. Og aðeins til að geta þess hvað þarna er mikill munur á, þá er t.d. mjólkurlítri í Noregi nú talinn vera 4,80 kr. norskar á lítrann eða bændur í Noregi fá 4,80 kr. á lítrann, en bændur í Danmörku 2,50. Þannig að þarna er afar mikill verðmunur sem leitast er við að brúa með aðstoð sem kemur annars vegar frá norska ríkinu og hins vegar frá Evrópusambandinu. Aðstoð Evrópusambandsins hverfur að fimm árum liðnum og stuðningsaðgerðir sem nú tíðkast í Noregi en tíðkast ekki hjá Evrópusambandinu eiga allar að hverfa á fimm til sjö árum. Þannig að þó ég hafi ekki um þetta eins ítarlegar upplýsingar, eins og ég sagði, þá þykir mér satt að segja sá samningur vera einnig mjög svo til skamms tíma.
    En hvers vegna allt þetta upphlaup núna þegar Alþingi samþykkti 5. maí á sl. ári þingsályktun, sem flutt var af þeim sem hér stendur ásamt Halldóri Ásgrímssyni í upphaflegri mynd, síðan yfirfarin í utanrmn. og gerðar á henni þar nokkar breytingar, flutt af nefndinni og samþykkt hér á Alþingi með öllum greiddum atkvæðum. Í þessari þáltill. um tvíhliða samskipti við Evrópubandalagið segir, með leyfi virðulegs forseta:
    ,,Alþingi ályktar að í framhaldi af gerð samnings um Evrópska efnahagssvæðið skuli teknar upp viðræður við Evrópubandalagið um tvíhliða samskipti þess og Íslands, einkum með hliðsjón af því að Austurríki, Finnland, Noregur og Svíþjóð hafa sótt um aðild að bandalaginu. Því felur Alþingi ríkisstjórninni að undirbúa slíkar viðræður um hugsanlegan tvíhliða samning og tilkynna framkvæmdastjórn Evrópubandalagsins um þennan vilja Alþingis.``
    Þetta eru afar skýr orð. Mér þykir að vísu að ekki hafi verið nægilega mikið gert til að kynna þessa ályktun Alþingis. Þó má geta þess að á fundum sem utanrmn. og EFTA-nefnd hafa átt með þingmönnum frá Evrópusambandinu hefur að ég hygg í báðum þeim tilfellum þessi tillaga verið vandlega kynnt. Ég hlýt að spyrja: Hafa talsmenn Íslands erlendis ekki séð þessa tillögu? Sá t.d. fyrrnefndur sendiherra, sem ég nefndi áðan, ekki þessa tillögu? Hefur hann ekki séð hana? Ég vildi gjarnan fá að vita það frá hæstv. utanrrh. hvort hún hafi ekki verið vandlega kynnt þeim mönnum sem gæta okkar hagsmuna, ekki síst á svæði hins Evrópska efnahagssvæðis. Þetta er stefna Alþingis og henni verður ekki breytt nema með samþykkt Alþingis. Því vil ég taka undir það með hæstv. forsrh. að það á þegar að snúa sér að því að framkvæma þessa

stefnu Alþingis og hætta þeim skollaleik sem hér hefur viðgengist því miður hjá ýmsum mönnum sem hlustað er á um æskilegheit þess að Íslendingar sæki nú um aðild að Evrópusambandinu.
    Hvað er það í raun og veru sem felst í því að sækja um aðild að Evrópusambandinu? Ég greip með mér afar gott yfirlit sem birtist í Evrópa á döfinni frá nóvember 1991 þar sem rakið er á mjög skilmerkilegan hátt hvað felst, eins og þá var talið, í aðild að EES og hvað til viðbótar fælist í aðild að EB eða ES eins og það heitir nú. Ég ætla að leyfa mér, með leyfi forseta, að hlaupa aðeins yfir það.
    Með því að ganga inn í ES þá mundum við til viðbótar því sem við höfum fengið nú í samningum afnema eftirlit með vörum á landamærum, við mundum gangast undir sameiginlega viðskiptastefnu, sameiginlega orkustefnu, sameiginlega þróunaraðstoð, sameiginlega byggðastefnu, sameiginlega landbúnaðarstefnu, sameiginlega sjávarútvegsstefnu, samræmingu í skattamálum, sameiginlega tollskrá, sameiginlega utanríksstefnu og ef Maastricht nær fram, einn gjaldmiðil fyrr eða síðar.
    Mér er ljóst að á þessu kunna að hafa orðið einhverjar breytingar þannig að menn eru í vafa um það að sumt af því nái sem hér er gert ráð fyrir. En grundvallaratriði Rómarsáttmálans eru a.m.k. skýr og hefur réttilega verið bent á t.d. af hæstv. utanrrh. í viðtali að til viðbótar þeim viðskiptasamningum sem við höfum nú gengist undir, þá yrðum við að gangast undir auðlindastefnu Rómarsáttmálans. Það getur vel verið að við getum fengið þriggja ára aðlögunartíma, tíu ára aðlögunartíma, jafnvel fimmtán, en ég segi fyrir mitt leyti, það skiptir mig ekki nokkru máli hvort aðlögunartíminn er þrjú eða fimmtán ár eða jafnvel lengri. Og það er náttúrlega ljóst að með því að gangast undir þá stefnu, þá missum við fyrr eða síðar gersamlega yfirráð yfir þeim auðlindum sem við byggjum okkar efnahagslega sjálfstæði á.
    Ég gat þess ekki áðan að Norðmenn fengju þriggja ára aðlögunartíma í sambandi við svokallað kvótahopp þar sem Spánverjar og Portúgalar og fleiri þjóðir hafa komist inn fyrir fiskveiðilögsögu Noregs með því að kaupa skip í Noregi og nota rétt sem þeir hafa haft til veiða. Þeir fá þrjú ár. Eftir þrjú ár í Noregi hafa Norðmenn engar reglur og enga möguleika til að koma í veg fyrir það að fjármagnssterk útgerðarfélög á meginlandi Evrópu eða sunnar í Evrópu kaupi sig inn í norskan sjávarútveg. Við höfum verið fullkomlega sammála um það á Alþingi að koma í veg fyrir slíkt. Og mér þykir satt að segja undarlegt ef málin eru lögð fyrir þjóðina á þennan máta að við mundum alls ekki geta stöðvað slíka innrás erlendra aðila í íslenskan sjávarútveg, íslenskan landbúnað, íslenskar auðlindir almennt, að íslensk þjóð samþykki það að meiri hluta að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Mín niðurstaða er því sú að hér sé um að ræða fljótfærnislegt upphlaup því miður nokkra ágætra einstaklinga og fréttamanna, sem hafa ekki kynnt þessi mál á þann máta sem vitanlega á að gera áður en leitað er álits þjóðarinnar. En álit Alþingis liggur fyrir, enda sitja hér menn sem eiga að þekkja þetta í kjölinn og álit Alþingis birtist í þeirri þáltill. sem ég hef þegar rakið og farið yfir og hún er það sem við eigum að fara eftir.
    En það er fleira sem vert er að minnast á ef menn eru virkilega að hugleiða það að sækja um aðild að Evrópusambandinu, m.a. sem kemur fram í ræðu hæstv. utanrrh., a.m.k. þeirri sem hann dreifði hér á borð alþingismanna. Þar segir að áður en gengið yrði af hálfu Evrópusambandsins til viðræðna um fulla aðild, þá gengur Evrópusambandið úr skugga um það hvort alvara fylgi umsókninni og hvort umsækjandi geti axlað þær byrðar sem á hans herðar yrðu lagðar. Þar segir meira að segja líka að það séu mörg dæmi um það að Evrópusambandið hafi bókstaflega ýtt til hliðar slíkum aðilum sem það treystir ekki til þess að taka á sig fullar byrðar af aðild að Evrópusambandinu. Þetta er alveg hárrétt. Það má nefna t.d. Möltu sem hefur lengi verið með umsókn og hefur ekki fengið hana tekna fyrir. Og telja menn einhverjar líkur til þess að Evrópusambandið vilji Ísland sem aðila? Ég segi náttúrlega: Ég vona ekki miðað við þær umræður sem hér hafa orðið og kannski --- ég vil hins vegar segja það að mér þykir illt að þurfa að treysta á Evrópusambandið í því að við álpumst ekki þarna inn. En hvernig mundum við Íslendingar taka á okkur þessar skyldur? Ætli það sé ekki töluvert til í því sem skólameistari Menntaskólans á Akureyri sagði nýlega í fjölmiðlum að eina leiðin fyrir okkur Íslendinga til að taka á okkur þær skyldur sem fylgja t.d. formennsku í hinum ýmsu stofnunum Evrópusambandins væri að leita aftur á náðir Dana og gangast undir þeirra utanríkisþjónustu. Ég trúi því varla að nokkur aðili ætlist til þess. Ég trúi því ekki að nokkur aðili ætlist til þess.
    Ég get ómögulega séð í hreinskilni sagt hvernig við Íslendingar ættum að taka að okkur þátttöku í þessu mikla bákni í Brussel. Ég get ekki séð það. Og ég vildi mjög gjarnan spyrja hæstv. utanrrh. hvort hann hefur hugleitt þetta nánar. Getur hann t.d. sagt okkur hve margir starfa þar frá hinum ýmsu löndum í hinum fjölmörgu nefndum? Og getur hann sagt okkur hvernig við Íslendingar mundum axla þá miklu ábyrgð að taka á okkur formennsku í æðstu stofnunum Evrópusambandsins? Ég held að það yrði satt að segja ákaflega erfitt.
    Ég nefndi áðan að Norðmenn hefðu fórnað því sem þeir telja minni hagsmuni fyrir meiri. Þeir hagsmunir sem forsrh. Noregs hefur einkum nefnt hefur verið þátttaka Norðmanna í mótun Evrópu, þ.e. þátttaka inni í þessari stofnun í Brussel og geta þar haft áhrif á það sem fram undan er. Og ég ætla út af fyrir sig ekki að gera lítið úr því. En vita menn hve mörg atkvæði Norðmenn fá í ráðherraráðinu? Samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef fengið fá þeir þrjú atkvæði af 90. Það er að vísu deilt um það núna hve mörg atkvæði þurfi til að beita neitunarvaldi, en jafnvel Norðurlöndin öll saman hafa hvergi nærri þann þunga sem þau þurfa til að stöðva almenn málefni í Evrópuráðinu. Danir hafa, ef ég veit rétt, fjögur atkvæði, Svíar eiga að fá fimm og Finnar hygg ég að eigi að fá þrjú, Lúxemborg er með tvö og hvað ætli við Íslendingar fengjum mörg? Ég trúi varla að við fengjum meira en eitt. Hver yrðu áhrif okkar Íslendinga t.d. í slíku samstarfi? Þau eru náttúrlega engin. Svo ég hygg að það sé á fleiri sviðum heldur en aðeins í þátttöku í þessu bákni þarna úti sem við Íslendingar yrðum að ganga á mála hjá Dönum eða einhverjum slíkum til að geta almennt látið okkur verða gildandi í þessu sambandi.
    Að lokum vil ég aðeins segja fáein orð um það sem ég tel að við Íslendingar eigum að gera núna. Ég sagði áðan að við Íslendingar ættum vitanlega að skoða mjög vandlega þær miklu breytingar sem eru í heiminum í dag og við verðum að átta okkur vel á því hvar við stöndum best í þessum nýja heimi sem við búum í í dag. Ég hef út af fyrir sig ekkert á móti því að biðja háskólann um að kanna hvaða kostir og gallir fylgi aðild. Það er sjálfsagt að skoða slíka hluti vandlega. Ég hef að vísu ekki mikla trú á því að háskólinn geti í raun og veru leyst það verkefni, það eru það miklar breytingar á öllu fram undan. Og ekki veit ég hvort hann á að taka þar inn í bollaleggingar hæstv. utanrrh. um framtíðarsýn forseta Tékka í þessu sambandi. En ég held að það sé allra mikilvægast að gera okkur grein fyrir því hvernig eigum við að standa að þeim tvíhliða samningum sem fram undan eru samkvæmt ákvörðun Alþingis. Hvað viljum við í því sambandi? Hér eru menn að velta upp þeim möguleika að Evrópusambandið komi til okkar og segi: Við skulum taka þetta að okkur, við höfum allan mannskapinn til þess. Ekki trúi ég því að Íslendingar sætti sig við það að fela öðrum samningsaðilanum að taka að sér allt eftirlitið. Vitanlega eru þarna margar fleiri hugmyndir, margar fleiri leiðir eins og umboðsmenn á báðum stöðunum fyrir hvort ríki eins og ég sá einhvers staðar nefnt af einum manni sem um þetta fjallaði. En það mikilvægasta núna er, og hefði reyndar þurft að gerast áður en hæstv. forsrh. fer til Brussel hvort sem hann fer með eða án hæstv. utanrrh., að gera sér grein fyrir því . . .  (Gripið fram í.) Mér datt ekki í hug að fara til Brussel án hæstv. utanrrh. og ræddi þetta við hann áður og ræddi það meira að segja í ríkisstjórninni en þar eru aðrir starfshættir.
    En sem sagt, ég tel mikilvægast að vinda nú bráðan bug að því að gera sér grein fyrir því hvernig við ætlum að standa að þessum tvíhliða samningi. Ég hef af því sáralitlar áhyggjur og ég tel að við Íslendingar höfum margsinnis leyst miklu, miklu erfiðari mál en þau hvernig við ætlum að standa að eftirliti. Fyrirtækin sjálf standa út af fyrir sig að eftirliti en það er aðallega að finna stað þar sem fyrirtækin geta leitað til ef þau telja að á þeim sé brotinn samningur. Það ætti að gera það á miklu aðgengilegri hátt en að fela Evrópusambandinu að annast slíkt eftirlit. Þetta á vitanlega að leggja hina stóru áherslu á í dag.
    Ég vil einnig að lokum leggja mikla áherslu á það að til þess að við getum staðið okkur í þessari samkeppni sem þarna er vitanlega orðin með inngöngu þá verðum við Íslendingar að skoða miklu betur þann grundvöll sem við byggjum á sjálf í okkar landi og ég get alls ekki neitað því að ég hef hvað mestar áhyggjur af því hvað mér þykir það hafa verið látið reka á reiðanum. Ég tel að við Íslendingar verðum að leggja miklu meira fjármagn þó að við höfum það af skornum skammti til að treysta grundvöll nýsköpunar í okkar atvinnulífi, ráðast gegn atvinnuleysinu sem hér fer nú vaxandi þó að það hafi minnkað þennan mánuð, stuðla að því að fjárfesting í atvinnulífinu fari vaxandi. Fjárfesting í íslensku atvinnulífi í dag er orðin minni en afskriftir í íslensku atvinnulífi í dag. Og heildarfjárfestingin í landinu eins og komið hefur fram hjá Þjóðhagsstofnun er komin niður undir 15% sem er langt fyrir neðan öll hættumörk.
    Ég tel að í þessum gerbreytta heimi sem ég er búinn að nefna svo oft sé það mikilvægasta verkefnið fyrir okkur Íslendinga nú að skoða sjálf hvar við stöndum, styrkja þær stoðir sem við þurfum að hafa því að þetta er óvæginn heimur og það verða engum veitt grið í þessum heimi. Það er enginn annars vinur í þessum heimi. Og fyrst og fremst verðum við að byggja á okkur sjálfum, hvort við stöndumst þessa samkeppni, hvort við getum staðist það að vera sumir segja einangraðir, ég blæs á það, við erum ekkert einangraðir, ég tel að við verðum meira einangraðir ef við flækjumst inn fyrir tollmúra ES, en engu að síður þurfum við að vera sterkir til þess að geta samið við Bandaríkjamenn, við Japani, við fjölmargar aðrar þjóðir sem hæstv. utanrrh. hefur reyndar verið að ýja að. Og ég veit ekki betur en bæði hann og hæstv. forsrh. ætli nú til Japans og Kína og ég veit ekki hvert og hvert, líklega vonandi til að opna dyrnar þar. En við gerum það ekki með því að láta draga okkur inn í ES.
    Virðulegi forseti. Ég skal ekki hafa þessi orð fleiri. Eins og ég sagði áðan er fjölmargt annað í skýrslunni sem ég hefði viljað minnast á en ég vil ljúka þessu með því að leggja ríka áherslu á það að menn snúi sér nú að því að framkvæma þá þingsályktun sem hér var samþykkt og menn verði ekkert með hangandi hendur í því og engan uppgjafartón. Það er algerlega óþarfi. Ég er sannfærður um að engin þjóð í Evrópu á sér betri framtíð en sú íslenska ef við tökum rétt á þeim miklu kostum og þeim manndómi sem hér er til.