Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

111. fundur
Fimmtudaginn 17. mars 1994, kl. 15:05:25 (5254)


[15:05]
     Ólafur Ragnar Grímsson :
    Virðulegi forseti. Í upphafi aðeins örfá orð um form þessara umræðna. Það er rétt hjá hæstv. utanrrh. að ráðuneytisstjórinn í utanrrn. sendi bréf í septembermánuði í fyrra til þingsins þar sem hann kynnti hugmyndir um nýtt form á umræðum um utanríkismál. Vandinn er hins vegar sá, hæstv. ráðherra, að sú ræða sem þingmönnum var afhent fyrir nokkrum dögum síðan liggur hvergi fyrir í skjölum þingsins. Hún mun ekki verða í þingtíðindum, hún er ekki lögð fram sem þingskjal. Hún er þess vegna engum ljós nema okkur hér 63 þingmönnum sem fengum hana í ljósriti svo að okkur sem hér tölum er sá vandi á höndum, eigum við að leggja út af þeim texta sem við fengum í hendur fyrir nokkrum dögum síðan eða þeim texta sem hæstv. ráðherra flutti hér og skiljanlega vegna tímatakmarkana gat ekki lesið allan hinn textann? Þetta er tæknilegt vandamál sem verður að leysa, virðulegi ráðherra, ef þessar umræður eiga að geta verið með eðlilegum hætti. Ég ætla hins vegar að kjósa að halda mér við þann texta sem ráðherrann dreifði í þinginu til þingmanna og vona þá að það verði séð til þess að þessi ræða komi fram sem þingskjal með einhverjum hætti svo að hún liggi fyrir á opinberum vettvangi. Í sjálfu sér er ég fylgjandi því að utanrrh. flytji Alþingi oftar skýrslur en gert hefur verið á undanförnum árum en það verður þá að vera í því formi að bæði þing og þjóð hafi þann texta sem lagt er út af.
    Síðustu daga hafa ýmsir rætt þá atburði sem orðið hafa þegar EFTA-ríkin fjögur, Svíþjóð, Finnland, Austurríki og Noregur, hafa náð niðurstöðu í samningum við Evrópusambandið eins og þar væru að koma fram ný tíðindi, sérstakir atburðir sem kölluðu á nýjar ályktanir af hálfu Íslands. Þetta er grundvallarmisskilningur. Það er búið að vera ljóst í rúm tvö ár að Evrópusambandið og þorri EFTA-ríkjanna stefndu að því að leggja Evrópska efnahagssvæðið niður með því að þorri EFTA-ríkjanna gengi í Evrópusambandið. Þegar Alþb. mótaði afstöðu sína í júnímánuði 1992 til samningsins um Evrópskt efnahagssvæði þá var þar grundvallarþáttur í afstöðu okkar eins og segir í hinni sérstöku samþykkt sem þingflokkur og framkvæmdastjórn og miðstjórn Alþb. gerðu í júnímánuði 1992, að EES-samningurinn væri ekki lausn á framtíðarskipan samskipta Íslands og Evrópubandalagsins eins og segir orðrétt í þessari samþykkt. Þar sagði síðan, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Það er rétti tíminn nú að hefja samninga við EB um varanlegt form þeirra samskipta. Í raun eru valkostirnir um framtíðarskipan samskipta Íslands og Evrópubandalagsins aðeins tveir: Aðild að EB eða sjálfstæður viðskiptasamningur milli Íslands og EB. Alþb. hafnar fyrri kostninum, aðild Íslands að EB. Sjálfstæður tvíhliða viðskiptasamningur er því hin raunhæfa leið og eina úrlausnin sem dugað getur Íslandi í framtíðinni.``
    Þessi stefnumótun sem Alþb. lagði fram í júnímánuði 1992 hefur reynst mjög raunsæ. Hún felur í sér afdráttarlaust og rétt mat á því hver staðan var í samskiptum Íslands við Evrópusambandið. Það var síðan mjög ánægjulegt að tæpu ári síðar sameinuðust þingflokkar hér á Alþingi um að samþykkja ályktun sem fól það í sér að sú stefna Íslands var mörkuð að vegna viðræðna Austurríkis, Finnlands, Noregs og Svíþjóðar um aðild að Evrópubandalaginu ályktaði Alþingi að teknar skyldu upp viðræður við Evrópubandalagið um tvíhliða samskipti þess og Íslands og fól ríkisstjórninni að undirbúa slíkar viðræður. Ég vil hér í dag þakka þeim mönnum sem í maí 1993 og í apríl 1993 höfðu forgöngu um það að þessi ályktun var gerð. Það var mjög mikilvægt vegna þess mikla ágreinings sem var meðal þings og þjóðar um samninginn um Evrópskt efnahagssvæði að það náðist jafnafgerandi samstaða eins og kom í ljós á þessum degi í fyrra á Alþingi um framtíðarstefnumótun. Þar áttu hlut að máli bæði upphaflegir flutningsmenn tillögunnar, formaður og varaformaður Framsfl., en ekki síst formaður utanrmn. Björn Bjarnason sem hafði forgöngu um það í nefndinni að ná samkomulagi fulltrúa allra flokka um það orðalag sem var síðan á samþykktinni sem gerð var. Það er mjög dýrmætt fyrir okkar þjóð að ná jafnbreiðri samstöðu, afgerandi samstöðu um mikilvægt utanríkismál og það er þess vegna mikil ábyrgð hjá þeim ráðamönnum, bæði í ríkisstjórn og hér á þingi, sem síðustu daga hafa talað eins og þessi stefnumörkun væri nánast marklaus og alls ekki skýr. Í þeirri ræðu sem hæstv. utanrrh. leggur til grundvallar í þessum umræðum segir á bls. 13 minnir mig í því eintaki sem við þingmenn fengum:
    ,,Óvíst er enn hvort og hvenær gefst aftur tækifæri til að leita aðildar og enn óvissara er hvort eða hvenær hugur þings og þjóðar stendur til þess.``
    Það er alveg ljóst, virðulegi utanrrh., að þessi setning í ræðunni er í algerri mótsögn við bæði sannleikann og afstöðu þingsins vegna þess að það er engin óvissa um hug þingsins. Hugur þingsins er alveg skýr. Hann kemur fram í ályktuninni 5. maí 1993.
    Þeir menn sem segja að eitthvað nýtt hafi gerst síðustu daga eru að gefa það til kynna að þeir sem stóðu að þessari samþykkt hér á Alþingi, forsrh., utanrrh., ríkisstjórnin öll, formenn allra stjórnmálaflokka, formaður utanrmn., utanrmn. öll og allir þingmenn sem greiddu þessari samþykkt atkvæði hafi ekki vitað hvað þeir voru að gera, að öll þessi sveit hafi þurft einhverja sérstaka könnun frá Háskóla Íslands til að fá upplýsingar um það hvað fælist í aðild að Evrópusambandinu. Auðvitað ekki, hæstv. utanrrh. Það sem hér er að gerast er hins vegar það að utanrrh. er að endurtaka þá tilraun sem hann fór af stað með fyrir nokkrum árum síðan í skýrslu til Alþingis að reyna að fá það fram að Ísland sækti um aðild að Evrópusambandinu, Evrópubandalaginu eins og það hét þá. Þá gerðist það hér í umræðum að hæstv. forsrh. kom og gaf yfirlýsingu um það að ríkisstjórn Davíðs Oddssonar ætlaði ekki að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Við hinir, forráðamenn flokkanna hér á Alþingi, að utanrrh. frátöldum, fögnuðum þeirri yfirlýsingu og það myndaðist mjög breiður og skýr meiri hluti á Alþingi þar sem vilji þingsins var samdóma þessari yfirlýsingu. Þess vegna liggja staðreyndirnar alveg ljósar. Hvorki ríkisstjórnin né þingið hefur það á stefnuskrá sinni að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Hvort einhverjir lærimenn í Háskóla Íslands fá það verkefni að rekja upp úr gögnum sem legið hafa fyrir árum saman kosti og galla þess og sumir þessara lærimeistara nú þegar á undanförnum árum gefið út slík rit, læt ég liggja á milli hluta. Ég fullyrði, hæstv. utanrrh. að það mun ekkert koma fram í þessum úttektum starfsmanna Háskóla Íslands sem ekki er vitað nú þegar.

    Þá eru eftir tvenn rök, rökin um einangrun og rökin um það að Noregur hafi náð svo miklum árangri. Hver eru þessi rök um einangrun? Ég hef ekki heyrt þau. En ég vil spyrja þá sem þau flytja: Er Sviss einangrað? Er Sviss einangrað í efnahagskerfi Evrópu? Er Sviss einangrað í viðskiptalífi Evrópu, fjármálaheimi Evrópu, bankaheimi Evrópu? Auðvitað er svarið nei. En Sviss er ekki einu sinni í EES, hvað þá heldur að Sviss sé í aðildarviðræðum við Evrópubandalagið. Það er nefnilega mjög merkilegt að huga að því, t.d. fyrir framkvæmdastjóra Vinnuveitendasambandsins sem talaði um þessa einangrun og fyrir hæstv. utanrrh. sem stundum hefur ýjað að hinu sama að svara spurningunni: Er Sviss einangrað? Og það væri dálítið fróðlegt fyrir hæstv. utanrrh. að rifja upp þær hrakspár sem hann var með á Alþingi fyrir tveimur árum síðan um hvað mundi gerast hjá Sviss þegar það hafði hafnað aðild að EES og bera þær hrakspár hans sjálfs saman við lýsingar viðskiptajöfra, sérfræðinga í efnahagsmálum og annarra kunnáttumanna um efnahagslíf í Sviss við það sem gerst hefur síðan. Staðreyndin er nefnilega sú að Sviss er eitt af fáum löndum í Evrópu þar sem hefur verið veruleg uppsveifla í efnahagslífi á undanförnum missirum, þar sem kauphöllin, markaðurinn sjálfur, virðulegi ráðherra, sem er að dómi margra hinn öruggasti mælikvarði á staðreyndir efnahagslífsins, hefur sýnt slíka uppsveiflu fyrir fyrirtæki í Sviss að kauphöllin í Sviss sker sig úr kauphöllum í Evrópu hvað varðar uppsveiflur fyrirtækja viðkomandi lands. Það er nefnilega mjög merkileg staðreynd að þrátt fyrir það að Sviss hafnaði EES, ég ætla ekki að segja vegna þess, hæstv. utanrrh., en þrátt fyrir það hefur efnahagslíf í Sviss staðið með miklum blóma og blómgast mun meir en annarra ríkja í Evrópu, þar með talið ríkja Evrópusambandsins og þeirra ríkja sem eru í EES. Þess vegna ættu þeir ágætu menn sem tala um þessa einangrun að nema staðar og skýra út fyrir okkur hinum tilfellið Sviss.
    Hin röksemdin er um ávinning Noregs. Um það er í sjálfu sér ekki mikið að segja. Ég tek undir það sem fram kom hjá hv. þm. Steingrími Hermannssyni að ég sé ekki þann ávinning sem Noregur á að hafa fengið í sjávarútvegsmálum í þessum viðræðum. Mér sýnist þvert á móti það vera niðurstaða viðræðnanna að eftir nokkur ár verður Noregur að gangast undir sameiginlega auðlindastjórnun framkvæmdastjórnarinnar í Brussel innan norskrar fiskveiðilögsögu. Ég vil spyrja hæstv. utanrrh.: Er þetta ekki svona? Er það ekki alveg afdráttarlaust að eftir nokkur ár verður Noregur að ganga undir sameiginlega stjórn og það sem meira er, þegar á að semja um veiðar í Barentshafinu, þá eru það ekki Norðmenn sem semja við Rússa. Það verður framkvæmdastjórnin í Brussel sem semur við Rússa fyrir hönd Noregs. Og hæstv. utanrrh. og hæstv. sjútvrh. Þeim fer að fækka, ferðum sjútvrh. Íslands til Noregs til þess að ræða um sameiginlega hagsmuni Íslendinga og Norðmanna af sameiginlegum fiskstofnum. Sá maður sem verður sjútvrh. á Íslandi árið 1998 eða 1999 fer ekki til Óslóar til þeirra viðræðna, hann fer til Brussel. Ég sé það á höfuðhreyfingum hæstv. sjútvrh. að hann samþykkir þessa lýsingu, enda er hún rétt. Íslenskir ráðherrar vera að fara að búa sig undir það að eiga viðræður áður en aldamótin renna upp við kommisarana í Brussel um sameiginleg hagsmunamál Íslendinga og Norðmanna í sjávarútvegsmálum. Og það eitt út af fyrir sig að flugmiði íslenska sjútvrh. til viðræðna um þessi mál verður til Brussel eftir árið 1998 segir auðvitað kjarna málsins. Ég vil líka biðja hæstv. utanrrh. að tala ekki eins og hann er búinn að gera síðustu daga í fjölmiðlum, að Norðmenn telji að niðurstaðan sé góð. Hvaða Norðmenn, hæstv. ráðherra? Jú, einhverjir ráðherrar. ( Utanrrh.: Norsk stjórnvöld.) Já, norsk stjórnvöld kallar hann hér fram í, en það er bara ekki það sem ráðherrann hefur sagt undanfarna daga. Ráðherrann hefur sagt: Norðmenn. Ríkið, það er ég, sagði einn góður maður hér fyrr á öldum. En auðvitað verður ráðherrann að gæta sín að Noregur er lýðræðisríki. Þar eru margir annarrar skoðunar og þjóðin á eftir að kveða upp sinn dóm. Þannig að ég bið ráðherrann að gæta orða sinna og fara rétt með.
    Þess vegna er það sem betur fer þannig að þetta mál er tiltölulega einfalt. Það hefur ekkert gerst í þessu máli sem kallar á einhverjar dramatískar vendingar og ég vil taka undir þá fordæmingu sem kom fram hér áðan að sendiherra Íslands hjá EFTA, Kjartan Jóhannsson, skuli vera að gefa út pólitískar þrýstiyfirlýsingar um það að nú hafi Íslendingar nokkra daga til þess að hugsa um hvaða stefnu þeir ætla að móta þegar það liggur alveg ljóst fyrir hver stefnan er. Málið er alveg skýrt. Það sem íslenskri ríkisstjórn ber að gera og hefði reyndar átt að vera búin að gera samkvæmt tillögum okkar alþýðubandalagsmanna og samþykkt Alþingis er að hefja viðræður við Evrópusambandið um eðli þess tvíhliða samnings.
    Svo vissir vorum við alþýðubandalagsmenn um það að greining okkar væri rétt árið 1992 að ég fékk nokkra sérfræðinga til þess að setja saman sýnishorn af tvíhliða samningi Íslands og Evrópusambandsins og hæstv. utanrrh. lét sér sæma að gera grín að þeirri vinnu. Það væri kannski rétt að ég afhenti honum eintakið aftur, ef hann er búinn að týna því sem hann fékk fyrir tveimur árum síðan, vegna þess að hér liggur fyrir sýnishorn af því hvernig slíkur tvíhliða samningur gæti litið út, þar sem tekið er á öllum þeim helstu vandamálum sem upp kunna að koma í þessum samskiptum og vikið er að því að fela eftirlitið, sem nokkuð hefur komið til umræðu, þeim aðila að sett verði á fót samstarfsnefnd um eftirlit og gerðardómi beitt verði deilumál um framkvæmd samninganna, en pólitísk vandamál verði leyst í ráðherraviðræðum. Hér eru lagðar til þrjár aðferðir um að leysa það sem nú er komið fyrir í flóknu stofnanavirki EES-svæðisins. Það er í fyrsta lagi samstarfsnefnd um eftirlit, í öðru lagi gerðardómur þegar deilumál um framkvæmd samningsins verða ekki útkljáð og í þriðja lagi að pólitísk vandamál verði leyst í ráðherraviðræðum.
    Þess vegna er dálítið merkilegt að það skuli hafa verið á vettvangi Alþb. og samkvæmt beiðni formanns þess flokks fyrir tveimur árum síðan sem unnin var sú vinna sem ríkisstjórnin hefði auðvitað átt að vera búin að vinna og er núna mjög brýn. Þegar forsrh. fer innan tíðar til viðræðna í Brussel, þá verður hann

auðvitað spurður að því: Hvernig hyggist þið hafa þennan tvíhliða samning, í hvaða búningi á hann að vera? Hver eru helstu atriðin þar og hvernig á að leysa þau? Og ég ítreka bara að hér er þetta sýnishorn sem sérfræðingar unnu að minni beiðni fyrir tveimur árum síðan og ríkisstjórninni er velkomið að nota í þeim undirbúningi sem þar þarf að fara fram fyrir heimsókn forsrh.
    Hitt er svo annað mál að ríkisstjórn sem er orðin þannig á sig komin að forsrh. ætlar að halda til einhverra mikilvægustu viðræðna sem munu fara fram á þessu ári um hagsmuni Íslands hirðir ekki um að láta utanrrh. vita að hann hafi ákveðið slíka för og sé hafinn undirbúningur að henni og sá undirbúningur sé í höndum minna manna, eins og mig minnir að hæstv. forsrh. hafi orðað það. Er það virkilega þannig að utanrrn. komi ekki formlega að því að undirbúa þessar viðræður við Evrópusambandið? Er það virkilega þannig að þessi búvörudeila sé bara myndbirting á öllum öðrum samskiptum innan þessarar ríkisstjórnar? Ég vil lýsa þeirri skoðun minni að mér finnst alvara utanríkismála þessarar þjóðar vera miklu meiri en svo að skapsmunir, persónuleg óvild og pólitískur ágreiningur innan ríkisstjórnarinnar megi birtast í þeim vinnubrögðum sem við urðum vitni að í þingsalnum í gær. Það verður auðvitað að vera ákveðin samfella í samskiptum Íslands við Evrópusambandið hver svo sem stjórnar, hver svo sem er forsrh. og hver svo sem er utanrrh. og hvað illa sem forsrh. kann að vera við utanrrh. í það og það sinnið. Viðræður Íslands við Evrópusambandið eru ekki vettvangur til þess að menn skeyti skapi sínu á samstarfsmönnum sínum í ríkisstjórn.
    Virðulegi forseti. Ég hef hér nokkuð vikið að því máli sem er einna brýnast. Ég endurtek það sem ég sagði áðan. Málið er alveg skýrt, afstaða Alþingis er skýr og utanrrh. ber að fylgja fram samþykkt Alþingis. Ég vil í fullri vinsemd benda hæstv. utanrrh. á það að utanrrh. sem farinn er að fylgja allt annarri stefnu en yfirgnæfandi meiri hluti Alþingis þarf auðvitað að hugsa sinn gang. Og ég tel að yfirlýsingar hæstv. ráðherra síðustu daga séu í mótsögn við yfirlýstan vilja Alþingis. Vilji ráðherrann láta þau sjónarmið sem koma fram í þessum texta hér og yfirlýsingum hans síðustu daga vera ráðandi í framgöngu utanrrh., þá ber honum að fá stefnu Alþingis breytt. Það hefur ekki gerst og mér sýnist á yfirlýsingum forsrh., yfirlýsingum formanns Framsfl. og ég þekki afstöðu míns eigin flokks, að það sé enginn meiri hluti hér á Alþingi fyrir að breyta samþykktinni frá í maí 1993. Og ef það er enginn meiri hluti hér á Alþingi fyrir að breyta þeirri samþykkt, þá verður utanrrh. auðvitað að fylgja henni eftir.
    Það hefði einnig, virðulegi forseti, verið ákjósanlegt að svigrúm þessarar umræðu væri á þann veg að hægt væri að taka ýmislegt fleira til umfjöllunar. Ég hefði t.d. kosið að gera hér nokkuð að umtalsefni þau sjónarmið sem fram komu þegar gerður var samningur milli Íslands og Bandaríkjanna til tveggja ára um umsvif Bandaríkjanna á Íslandi. Ég tel að bæði í yfirlýsingum forsrh. og yfirlýsingum utanrrh. þegar sá samningur var gerður komi fram ný kenning, sem mér vitanlega hefur aldrei heyrst, til réttlætingar dvöl bandaríska hersins á Íslandi. Kenningin var sú að vegna þess að ekki sé vitað um neina þjóð sem ekki hafi loftvarnir, þá verði Íslendingar einnig að hafa loftvarnir. Með öðrum orðum, réttlætingin fyrir varnarsamningnum við Bandaríkin er orðin þörfin, hin almenna þörf, fyrir loftvarnir. Ekki vegna þess að vitað sé um einhvern sérstakan óvin, áður Sovétríkin, nú einhvern annan, heldur bara almennt séð, vegna þess að það kunni kannski einhvern tíma einhver að koma fljúgandi eftir brautum himinhvolfanna og gera árás þó enginn geti nafngreint hver það kunni að vera. Þessi kenning eins og hún var sett fram af hæstv. forsrh. og hæstv. utanrrh. hefur það eingöngu í för með sér að hér eigi að vera her um alla framtíð. Ég get ekki rökrétt séð neina aðra niðurstöðu. Það er í mótsögn við yfirlýsingar Bjarna Benediktssonar, Eysteins Jónssonar og Emils Jónssonar þegar varnarsamningurinn var gerður og Íslendingar tóku upp aðild að Atlantshafsbandalaginu og það er að mínum dómi í mótsögn við yfirlýsingar nánast allra íslenskra utanrrh. þar til nú.
    Enn fremur var því fagnað alveg sérstaklega af hálfu utanrrh. og einnig forsrh. að í þessum samningstexta kemur fram það orðalag að allar breytingar á umsvifum Bandaríkjanna hér á Íslandi þurfi að byggjast á sameiginlegu mati samningsaðilanna. Þetta er líka ný kenning. Kenningin undanfarna áratugi hefur verið sú að Íslendingar ættu einhliða rétt á því að segja varnarsamningnum upp. Nú virðist núv. ríkisstjórn hafa hafnað þeirri kenningu og vera farin að setja fram þá kenningu að Íslendingar geti því aðeins sagt varnarsamningnum upp að um sé að ræða sameiginlega niðurstöðu í viðræðunum við Bandaríkin. Þess vegna er það þannig því miður að málflutningur forsrh. og utanrrh. í tengslum við þessa samningsgerð fól í sér, hvað sem líður ágreiningi manna hér um langan tíma bæði um herinn og NATO, nýjar kenningar af hálfu íslenskra stjórnvalda um eðli þessa samstarfs. Kenningar sem ég tel satt að segja mun hættulegri og hæpnari heldur en þær kenningar sem ýmsir fyrirrennarar þeirra voru með.
    Ég hefði reyndar líka kosið að geta varið hér nokkrum tíma til að lýsa því að ég tel að Íslendingar hefðu átt að segja við Bandaríkin: Það er ljóst að þið viljið draga hér verulega saman í ykkar umsvifum. Þess vegna skulum við nú þegar breyta mörkum varnarsvæðanna. Íslendingar tækju strax yfir ýmsar byggingar sem væru á þessu svæði, bæði skála og íbúðarhús, breyttu þeim í alþjóðlegt athafnasvæði og viðskiptasvæði og byðu fyrirtækjum innan lands og erlendis þátttöku í því. Það er fullkomlega óeðlilegt þegar Bandaríkin vilja greinilega draga saman, eins og fram kemur á þeim gögnum sem lögð hafa verið fram í þessu máli, að Íslendingar taki þá ekki upp viðræður um það að minnka varnarsvæðin allverulega.
    Ég vil einnig vekja athygli á því að á fyrstu síðu ræðu utanrrh. sem okkur þingmönnum var afhent, þá er ítrekað hvað eftir annað að ein af ástæðunum fyrir því að nú þurfi að meta að nýju afstöðuna til aðildar að Evrópusambandinu séu áhrifin á varnarmál og áhrifin á öryggismál. Þetta er ekkert rökstutt í ræðunni. En þetta er auðvitað mjög mikilvæg yfirlýsing ef það er einhver meining á bak við það hjá hæstv. ráðherra að aðildarviðræðurnar séu nauðsynlegar að hans dómi, a.m.k. könnunin, vegna einhverra nýrra þátta í öryggis- og varnarmálum.
    Virðulegi forseti. Ég hefði einnig kosið að ræða hér nokkuð ítarlega þá þróun á sviði alþjóðlegra öryggismála sem hefur einkennt störf Sameinuðu þjóðanna á undanförnum missirum, einkennt sameiginlega ákvarðanatöku Sameinuðu þjóðanna og ýmissa annarra stofnana varðandi málefni fyrrum ríkja Júgóslavíu. Það er því miður ekki tími til þess að ræða það hér og nú, þó ég telji að það sé mjög brýnt, satt að segja eitt af brýnustu verkefnum utanrrh., að stofna til umfjöllunar hér á Íslandi bæði meðal þingmanna og þjóðarinnar um þau nýju sjónarmið sem þar hafa verið að koma fram.
    Að lokum, virðulegi forseti, vil ég varpa fram eftirfarandi spurningu: Er hægt að draga þann lærdóm af þróun mála í Evrópu á síðustu missirum að Evrópusambandið sé öflugur og traustur forustuaðili í málefnum álfunnar? Mér sýnist þvert á móti að þegar litið er á atburði í ríkjum fyrrverandi Júgóslavíu, þegar litið er á samninga við Rússland, þegar litið er á forustu í efnahagsþróun í veröldinni, hafi Evrópusambandið í öllum þessum efnum fallið á forustuprófi. Þvert á móti hafi Bandaríkin í öllum þessum atriðum reynst hafa meiri forustu í málefnum Evrórpu heldur en Evrópusambandið sjálft. Þess vegna er að mínum dómi ekki hægt að færa nein pólitísk rök fyrir því, eins og hæstv. utanrrh. er að reyna að gera hér í sinni ræðu, að það sé að myndast í Evrópu eitthvert nýtt, öflugt, traust og varanlegt forustuafl sem hættulegt sé fyrir Íslendinga að einangrast frá.