Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

111. fundur
Fimmtudaginn 17. mars 1994, kl. 15:36:29 (5255)


[15:36]
     Anna Ólafsdóttir Björnsson :
    Virðulegi forseti. Ég vil í upphafi biðja hæstv. forseta að sjá til þess að hæstv. utanrrh. verði hér á meðan ég flyt mál mitt þar sem ég hef bæði spurningu fram að færa til hans og einnig mun ég að sjálfsögðu beina máli mínu til hans. Þannig að ég bið um að þurfa ekki að hefja mál mitt fyrr en hann er kominn í salinn.
    ( Forseti (GHelg) : Forseti mun gera ráðstafanir til þess, en vildi benda á að hæstv. ráðherra hefur setið hér alllengi og ætla verður að hann hljóti að mega víkja sér frá. Það er ljóst að hann er húsinu og kemur hér áreiðanlega innan tíðar.)
    Að sjálfsögðu virði ég það, hæstv. forseti, en það er dálítið bagalegt þar sem ég sá að hann hvarf hér frá í þann mund sem ég ætlaði að hefja mitt mál, en ég ætlaði að byrja á því að ræða við hann og ég hafði hugsað mér að halda mig nokkurn veginn við það skipulag á minni ræðu sem ég hef hér og ég treysti því að hann verði hér innan stundar.
    Virðulegi forseti. Í upphafi fundar varð umræða um það hvort ræða ætti þá ræðu sem hæstv. utanrrh. lét dreifa sl. mánudag eða skriflega skýrslu frá því fyrir jól. Nú er komið í ljós að hvorugt plaggið er til umræðu, a.m.k. ef haldið er strangt við texta þar sem athugasemdir hæstv. ráðherra um kosti samnings Norðmanna við Evrópusambandið er að finna í hvorugu plagginu. Þetta vil ég gjarnan að komi fram í upphafi máls míns.
    Þar sem ég sé að hæstv. utanrrh. er kominn, þá vil ég hefja ræðu mína. Utanríkisstefna Íslands hefur snúist að miklu leyti um Evrópumálin í þröngum skilningi undafarin ár. Svo er enn og hafa yfirlýsing hæstv. utanrrh. á fundum og í fjölmiðlum gefið fullt tilefni til. Vissulega eru viðskipti okkar við ríki Vestur-Evrópu mikilvæg, en við megum ekki falla í þá gryfju að horfa á heiminn nærsýnum augum og sjá ekki það sem er fyrir vestan okkur eða sunnan eða handan Miðjarðarhafsins og austan Finnlands, Þýskalands og Ítalíu. Við þurfum að taka til athugunar alvarlega þá grundvallarspurningu hvernig við lítum á heiminn og samskipti þjóða. Ætlum við að skipa okkur í hóp þeirra sem líta á heiminn sem viðskiptasvæði einvörðungu, þar sem lögmál markaðarins eru æðri öllum? Ætlum við að skipa okkur í hóp þeirra þjóða sem líta á heiminn sem valda- og þar með hernaðarsvæði, þar sem mestu máli skiptir að tilheyra valdamestu blokkinni eða ætlum við að skipa okkur í hóp þeirra sem líta á heiminn sem heimkynni ólíks fólks og ólíkra þjóða, sem eiga fjölskrúðuga menningu en þá sameiginlegu hagsmuni að varðveita gæði jarðarinnar og búa öllum þegnum heimsins sómasamleg lífskjör, aðgang að nauðþurftum, frið og mannréttindi? Mín skoðun er sú að við eigum að skipa okkur á bekk með síðasttalda hópnum en ekki að keppast við að komast í þann sem ég nefndi fyrst, sem lítur á heiminn sem viðskiptasvæði þar sem hagsmunir stórra fjármagnseigenda og sterkra fyrirtækja ráða ferðinni.
    Það gerist ekki af sjálfu sér með frjálsræði í viðskiptum að hagur allra sé tryggður, frelsi, mannréttindi, hagsæld, góð lífskjör, lágt vöruverð eða umhverfisvernd. Þetta mætti hins vegar stundum ætla á málflutningi þeirra sem eru haldnir Evrópuglýjunni hvað harðast. Þeir sem líta á heiminn sem viðskiptasvæði eingöngu miða fyrst og fremst að aukinni neyslu og það er ósköp eðlilegt miðað við þær forsendur sem þar eru gefnar. Aukin neysla hlýtur á hinn bóginn að ganga nærri gæðum jarðar og varla þyrfti að sjóða saman allar þær tilskipanir sem frá Evrópusambandinu streyma um lögmæta viðskiptahætti, atvinnuréttindi, vöruverndun, hámark eiturefna í matvælum, félagsleg réttindi, umhverfismál og eftirlit með öllu eftirlitinu ef markaðurinn leysti þetta allt af sjálfu sér.
    Það er mikil einföldun og blekking að halda því fram að lögmál markaðarins tryggi hag fólks. Þar sem hagsmunir markaðarins ráða ferðinni er það fyrst og fremst hagur stórfyrirtækja sem vænkast svo mjög að grípa verður í taumana og senda út nýjar tilskipanir um hve stórir og sterkir þeir sterkustu mega verða. Hagur stórfyrirtækja byggist m.a. á því að keyra niður verð á aðföngum og hráefnum í krafti stærðar. Þannig ráða t.d. tíu stærstu verslanakeðjur Frakklands lögum og lofum í viðskiptum á neysluvörum þar og eru með nær alla markaðshlutdeildina. Þetta þrýstir á fyrirtæki í framleiðslu og þjónustu að keyra niður launakostnað og fækka starfsfólki. Hvort tveggja merkir rýrari lífskjör, laun geta jafnvel lækkað í kjölfar slíks þrýstings og atvinnuleysi eykst. Hins vegar hefur minni tilkostnaður fyrirtækja ekki skilað sér sem skyldi í lækkuðu vöruverði og það út af fyrir sig er mjög athyglisvert. --- Bið ég nú hæstv. forseta að hjálpa mér í því að haldast á hæstv. utanrrh. Ekki trúi ég því að hann fari langt. Hann er orðinn eitthvað órólegur og vona ég að það sé vegna þess að ríkisstjórnin sé orðin eitthvað tæp, en ég óttast að það sé bara almennur órói. Ég treysti því að forseti liðsinni mér í þessum efnum.
    ( Forseti (GHelg) : Forseti hefur þegar kallað til aðstoð.)
    Atvinnuleysi er geigvænlegt í ríkjum Evrópubandalagsins og fátt bendir til að það standi til bóta. Ég var að fletta nýjasta hefti The Economist og það blasir við hér. Atvinnuleysi í Belgíu er 12,3%, í Bretlandi um 10%, 11% í Danmörku og svipað í Frakklandi, í Þýskalandi 7,5%, í Hollandi um 6% og á Ítalíu yfir 10%,

en Spánn sker sig úr með tæplega 20% atvinnuleysi. Það eru því ekki bara Írland eða Spánn sem eru með háar atvinnuleysistölur innan Evrópusambandsins, þetta ástand er nánast alveg yfir línuna og það er mjög alvarlegt. Sviss er á hinn bóginn með 4,1% atvinnuleysi, þrátt fyrir allar hrakspárnar og þrátt fyrir þá staðreynd að þar er ótrúlega stór hluti vinnuafls erlendis frá án þess að það hafi þurft þetta flókna batterí Evrópusambandsins.
    Atvinnuleysi er dýrt, það er mannskemmandi og spurningin er hvort tilkostnaðurinn við hagræðinguna og viðskiptafrelsið er ekki orðið æðimikill og skili litlu. Og þá er enn ósvarað mörgum spurningum um það hvaða áhrif sóun á hráefni og aukin neysla hefur á lífskjör almennt þegar til lengri tíma er litið. Þrátt fyrir þessar staðreyndir reka ýmsir menn úr atvinnulífinu og óábyrgir stjórnmálamenn nú upp ramakvein og segja að við séum að missa af Evrópuhraðlestinni og tækifærið komi ekki aftur í bráð. Þessi viðbrögð eru undarleg ekki aðeins í ljósi þess að löngu var vitað að stjórnir annarra Norðurlanda stefndu að samningum nánast hvað sem það kostaði. Það má segja, alla vega um frændur okkar Norðmenn, að þeir hafi einmitt náð þessum samningum hvað sem þeir kostuðu og þeir eru dýru verði keyptir. Framsal á forræði yfir miðunum er alvarlegast, í hvaða dularbúning sem það er klætt. Þeir gefa líka eftir gríðarlegar veiðiheimildir og sjálfsákvörðunarrétt í mikilvægum málum. Allt þetta var fyrirsjáanlegt því það var aldrei boðið upp á annað en nauðungarsamninga. Það skýtur hins vegar skökku við að menn rjúka nú upp til handa og fóta hér á Íslandi og láta eins og eitthvað nýtt hafi gerst. Það er líka undarlegt að heyra það fullyrt að Norðurlandaþjóðirnar séu gengnar inn í Evrópusambandið. Hafa menn ekki áttað sig á því að enn á eftir að láta fara fram þjóðaratkvæðagreiðslur um málið í þessum löndum?
    Mig langar að spyrja hæstv. utanrrh. hvort hann taki undir þau ummæli sem höfð eru eftir og sem komu beint fram hjá sendiherra Íslands, Kjartani Jóhannssyni, í fréttaþætti nýverið, á Rás 1 þann 12. mars sl., en þá er haft eftir honum að hann telji nauðsynlegt að reikna með því fastlega eins og staðan er nú að Norðurlönd að Íslandi undanskildu gangi í Evrópusambandið. Annað væri ábyrgðarleysi þótt þjóðaratkvæðagreiðslur hafi ekki farið fram í löndunum enn þá. Fréttakonan segir í þessum þætti: ,,Hver hefur sagt að það sé of seint að sækja um aðild að Evrópusambandinu? segir hann [Kjartan Jóhannsson]. Og hvað vita Íslendingar um áhuga sambandsins á samningum nema það sé spurt? Og Kjartan lýsir eftir ákveðinni stefnu í Evrópumálunum fyrr en síðar.``
    Síðan segir sendiherrann, Kjartan Jóhannsson, í þessum þætti: ,,Menn hugsi vandlega sitt ráð í fáeina daga og taki síðan ákveðna stefnu.`` Er ekki miðað við þetta, hæstv. utanrrh., að falla á tíma? Eru ekki liðnir heilir fimm dagar síðan? Mig langar að spyrja hæstv. utanrrh. hvort hann sé sama sinnis og sendiherrann. ( Utanrrh.: Nei.) Ég hef fengið svar. Ég bað um skýr svör og ég fékk skýrt svar. Það var nei. Ég vek sérstaka athygli á því að það er þó alla vega gott að fá að heyra þetta.
    Þessa dagana heyrist oft sú setning að við séum að missa af Evrópuhraðlestinni. Mér finnst þetta myndmál að mörgu leyti mjög athyglisvert vegna þess að menn hafa væntanlega gleymt því hér í ákefðinni yfir öllu sem evrópskt er að hér á landi eru engar lestir, hvorki hraðlestir né aðrar lestir, því hér er myndmálið að vísa til þeirra lesta sem ganga eftir teinum en ekki þeirra gömlu lesta þar sem hestar gengu einn á eftir öðrum. Það er táknrænt að menn skuli sækja svo fast í það sem ekki fæst hér á landi, að horfa á það með þeirri glýju í augum að myndmálið er jafnvel farið að bera þess mjög merki. Það er einnig táknrænt að menn skuli vilja fara inn í það ósveigjanlega kerfi sem Evrópusambandið er þar sem allir fara eftir sömu teinunum hvort sem þeir eiga erindi þar um eður ei.
    Alþingi samþykkti fyrir ári síðan í mikilli eindrægni að stefna að tvíhliða samningum við Evrópusambandið út frá hagsmunum okkar og án stofnanaþátta EES. Undirbúningur slíkra viðræðna ætti að vera löngu hafinn þar sem ljóst var hvert gæti stefnt. Ég skora á hæstv. utanrrh. að kynna sér samþykktir Alþingis og stefnu ríkisstjórnarinnar og framfylgja henni og hætta öllu daðri við Evrópusambandsaðild.
    Evrópumálin hafa tekið meiri tíma að þessu sinni en ég hefði óskað. En hjá því varð ekki komist að bregðast við þar sem þrýstingur frá tiltölulega fámennum hópi að mínu mati er kominn upp. Hann kemur úr óvæntustu áttum og menn eru að reyna að telja þjóðinni trú um að hér stefni allt til glötunar ef við hoppum ekki upp á lest á fullri ferð, lest sem við vitum ekki einu sinni hvert er að fara.
    Ég sagði í upphafi máls míns að ég teldi að við ættum að skipa okkur í hóp þeirra þjóða sem líta á heiminn sem heimkynni ólíks fólks og ólíkra þjóða, sem eiga fjölskrúðuga menningu en þá sameiginlegu hagsmuni að varðveita gæði jarðarinnar og búa öllum þegnum heimsins sómasamleg lífskjör, aðgang að nauðþurftum, frið og mannréttindi. Við höfum fjölmörg tækifæri til að marka okkur slíka stefnu á alþjóðavettvangi. Afstaða okkar í málum eins og þróunaraðstoð, hafréttarmálum, umhverfismálum, friðarmálum og mannréttindamálum, svo og í alþjóðaviðskiptum, ræður því hvar í flokki við skipum okkur. Allar þjóðir, smáar sem stórar, hafa skyldum að gegna við þessa málaflokka á alþjóðavettvangi. Við getum best rækt þá skyldu okkar með því að afla okkur þekkingar og skilnings á þessum málaflokkum og marka á þeim grunni ákveðna og réttsýna stefnu. Þar tel ég að við eigum mikið verk óunnið. Það er ekki nóg að vera hlynntur þróunaraðstoð og leggja einhverja summu til hennar. Við verðum að vinna eftir áætlunum og marka okkur ákveðna stefnu í því skyni. Vissulega hafa stofnanir svo sem Þróunarsamvinnustofnun og frjáls samtök á borð við UNIFEM, Hjálparstofnun kirkjunnar og Rauða krossinn, unnið gott og skipulegt starf. En í skýrslu Þróunarsamvinnustofnunar fyrir árið 1994 kemur þó fram að það sé erfitt að skipuleggja þróunarverkefni vegna sveiflukennds fjárhags og mismunandi krafna sem gerðar eru. Einnig kemur þar fram

að á þessu ári er greiðsluvandi fyrirsjáanlegur vegna verkefna stofnunarinnar.
    Ég hef áður lýst þeirri skoðun minni að við ættum að beina þróunaraðstoð í auknum mæli um hendur kvenna. Það hefur reynst vera sú þróunaraðstoð sem mestu hefur skilað. Það hefur m.a. komið fram í ársskýrslu Alþjóðabankans að fé veitt um hendur kvenna til þróunar og uppbyggingar hefur nýst einkar vel. Ég ítreka enn nauðsyn þess að skipulega verði staðið að þróunaraðstoð og þessi staðreynd m.a. tekin til athugunar. Ástæður þess að þróunaraðstoð nýtist vel í höndum kvenna eru einkum þrjár: Konur gegna lykilhlutverki í fæðuöflun í mörgum þróunarlöndum. Fræðsla og aðstoð veitt konum hefur reynst skila sér vel til barnanna, þ.e. til næstu kynslóðar. Í þriðja lagi hafa konur reynst nýta fé og tæki einkar vel og það gildir raunar ekki eingöngu í þróunarlöndunum heldur víðast hvar, enda er það reynsla Lánatryggingarsjóðs kvenna, alþjóðlegs nets sem styður útlán kvenna í samvinnu við banka, að þarna hafi verið meiri skil en nokkur önnur lánastofnun getur sýnt fram á.
    Ástandið í lýðveldum fyrrum Júgóslavíu hefur verið ofarlega á baugi undanfarin ár, eins og tvö árin þar á undan. Einkum hefur það verið ástandið í Bosníu-Hersegovínu sem hefur hrært við samvisku heimsins nóg til þess að þar hefur nú loks náðst einhvers konar friður, að vísu eftir leiðum sem ég tel að hafi verið óþarflega áhættusamar. Þeirri spurningu er sem betur fer ósvarað hvernig hefði farið ef loftárásir hefðu orðið á Sarajevó. Eftir sem áður er ljóst að þörf er mikils mannafla í friðargæslu og uppbyggingu í Sarajevó, fjölda sem hefði þurft að koma þangað miklu fyrr og hefur verið margítrekað af starfsmönnum bæði pólitískum og einnig starfsmönnum alþjóðastofnana, svo sem hjálparstofnana. Samkvæmt fréttum í morgun þá hillir undir að 4.500 af þeim 10.000 mönnum sem sóst var eftir að fá til Sarajevó muni fara þangað og m.a. hafa það hlutverk að tryggja áframhaldandi þróun í átt til friðar á þessu stríðshrjáða svæði.
    Það má hins vegar ekki gleyma öðrum svæðum ríkja fyrrum Júgóslavíu. Í Bosníu eru enn töluverðar viðsjár m.a. á Bihac-svæðinu. Við Banja Luka er síður en svo orðin kyrrð. Önnur viðkvæm svæði eru í norðri, bæði Vojvodina þar sem mikill stórungverskur minni hluti hafði áður sjálfstjórn en er nú hluti Serbíu. Hættulegasta ástandið er þó væntanlega þar sem albanski minni hlutinn hefur aðsetur, einnig í fyrrum sjálfstjórnarsvæði Kosovó, en þar gætu orðið mjög alvarleg átök og ég held að þjóðir heims verði að hafa andvara á sér að þarna sé ekki annar suðupottur á Balkanskaganum sem menn eru ekki reiðubúnir til að horfast í augu við að sé þar. Einnig er Makedónía ákveðið áhættusvæði sem full ástæða er til að gefa gaum.
    Mér finnst fyrst og fremst rétt að ítreka þetta vegna mannréttinda og þeirra atriða sem varða aðstoð við þær þjóðir sem búa þarna og lúta að friðargæslu ef til átaka kemur, mannréttindum og hreinni neyðaraðstoð.
    Hæstv. utanrrh. ræddi hér nokkuð um mannréttindi og ég treysti því að hann sé í hópi þeirra sem sætta sig ekki við glæpi á borð við þjóðarmorð og þær hryllilegu pyndingar sem m.a. voru nauðganir á konum og börnum. Einnig og ekki síður finnst mér mjög sérkennilegt hve átökin í ríkjum fyrrum Júgóslavíu virtust koma Vesturlöndum í opna skjöldu og hversu lengi var reynt að loka augunum fyrir því sem þarna var að gerast. Vísbendingarnar voru til um það í hvað stefndi og það má ekki gerast að slíkir hildarleikir komi mönnum á óvörum. Bandaríski blaðamaðurinn Roy Gutman sem vann til Pulitzer-verðlaunanna á sl. ári spyr þjóðir heimsins í bók sinni A Witness To Genocide, eða Vitni að þjóðarmorði, hvernig það megi vera að hann, blaðamaður, hafi gefið ríkisstjórnum upplýsingar um hryðjuverk í Bosníu og annars staðar í ríkjum fyrrverandi Júgóslavíu, hvers vegna alþjóðlegt öryggisnet sé ekki meira. Hver svaf á verðinum? Við erum að horfast í augu við að það eru átök og jafnvel blóðug stríð háð sem heimurinn virðist meira og minna reiðubúinn að gleyma. Við erum líka að horfa upp á það að allar vísbendingar ættu að geta sagt okkur að það þurfi að hafa gát á, það þurfi jafnvel að koma til neyðaraðstoð og það þurfi jafnvel að styðja við bakið á fólki innan þeirra ríkja sem sérstaklega hefur unnið að mannréttindum. Á þann hátt á að vinna að alþjóðamálum að mínu mati.
    Miklar vangaveltur hafa verið hér á landi sem annars staðar um framtíð hernaðarbandalaga. Varsjárbandalagið er úr sögunni. NATO leitar með logandi ljósi að hlutverki og ekki er ljóst hvert hlutverk Samstarfs um frið á að vera, né heldur Vestur-Evrópusambandsins sem er hernaðarbandalag Evrópuríkja. Þetta er lítt þekkt stærð enn sem komið er og ég held að ég segi sem betur fer. Hlutverk RÖSE er orðið fastmótaðra en fyrr og það gæti ef vel tækist til orðið valkostur í öryggis- og friðarmálum á móti hernaðarbandalögum.
    Friðsamleg alþjóðleg samvinna held ég að sé alltaf af hinu góða, en ég set mikið spurningarmerki við þau hernaðarbandalög sem til hafa verið, um árangur þeirra, tilgang og hvort þau hafa ekki frekar verið til þess að halda við ógnarástandi heldur en friði.
    Með breyttri skipan heimsmála yrði það dapurleg niðurstaða ef hernaðarbandalög reyndu að viðhalda sjálfum sér og þar með þörfinni fyrir sig. Enn dapurlegra yrði það ef stjórnvöld einstakra landa stæðu í vegi fyrir þeim niðurskurði sem hernaðarríki og hernaðarbandalög vilja þó að verði. Þetta segi ég vegna þeirrar stöðu sem kom upp hér síðsumars, í haust og vegur, vegna samdráttar á umsvifum Bandaríkjahers í Keflavík. Einn angi þess máls er raunar framtíð þyrlusveitar varnarliðsins og hugsanleg yfirtaka Íslendinga á einhverjum hluta þeirrar starfsemi. Svo gæti farið að sú umræða mundi tefja enn frekar en orðið er kaup á nýrri björgunarþyrlu fyrir Íslendinga og það teldi ég mjög alvarlegt mál.
    Ég tel að íslensk stjórnvöld eigi í verki að vinna að því að draga saman eftir fremsta megin öll umsvif hernaðarbandalaga bæði á Íslandi og eftir því sem hægt er með afstöðu sinni á alþjóðavettvangi. Það sem

þau geta gert innan lands er að byggja upp ný atvinnutækifæri í stað þeirra sem hverfa í tengslum við herstöðvar á Íslandi. Ísland á samleið með friðelskandi lýðræðisríkjum og á að sinna því hlutverki utan hernaðarbandalaga að mínu mati.
    Kvennalistinn fagnaði því þegar það lá ljóst fyrir að ástæður þættu fyrir samdrætti á hernaðarsviðinu hér á landi sem annars staðar og hvatti jafnframt til þess að ábyrg afstaða yrði tekin til atvinnumála í nágrenni Keflavíkurflugvallar. Það er svo sem engin ný bóla. Má þar bæði minna á þáltill. okkar kvennalistakvenna og einnig fyrirspurn sem ég bar fram vorið 1991 til þáv. forsrh. um það hvað stjórnvöld hygðust gera í kjölfar þess niðurskurðar sem þá þegar var fyrirsjáanlegur. Því miður hefur umræðan fyrst og fremst snúist um það af Íslands hálfu að tryggja að ekki yrði um eins mikinn niðurskurð umsvifa á Keflavíkurflugvelli að ræða og Bandaríkjamenn hugsuðu sér. Þar er borið við varnarhagsmunum. En ég tel það fullljóst að efnahagshagsmunir og staða atvinnumála hafi veruleg áhrif á umræðuna.
    Samningaviðræður áttu sér stað síðsumars og fram í janúar með mikilli leynd. M.a. var nánast alveg hundsað að hafa lögbundið samráð við utanrmn. um málið þrátt fyrir ítrekaða beiðni og kröfu um það. Það var í rauninni ekki fyrr en samkomulag var gert milli Íslands og Bandaríkjanna þann 4. jan. sl. að málið lá alveg ljóst fyrir utanrmn. sem öðrum. Þessi vinnubrögð vil ég gagnrýna.
    Virðulegi forseti. Ég gat þess í upphafi máls míns hvert ég teldi vera hlutverk okkar Íslendinga í utanríkismálum. Ég lít svo á að við Íslendingar höfum sinnt því hlutverki okkar að vera vakandi í umhverfismálum m.a. með baráttu okkar gegn THORP-endurvinnslustöðinni og það sé barátta sem við verðum bæði að standa vel að og einnig að nýta okkur öll tækifæri sem við höfum til þess að koma á framfæri. Þar munum við ekki njóta neins nema okkar eigin þekkingar, frumkvæðis og samstarfsríkja sem eiga ekkert skylt við það samstarf viðskipta sem margir vilja koma á laggirnar.
    Ég tel einnig að hlutverk okkar í hafréttarmálum sé mikilvægt og hafi þegar skilað umtalsverðum árangri á alþjóðavettvangi, ekki síst vegna þess að í alþjóðlegum málum höfum við getað teflt fram þekkingu og vönduðum vinnubrögðum sem við munum vonandi bera gæfu til að fylgja eftir í framtíðinni.
    Ég vek athygli á því að í þessum málum verðum við að nýta krafta allra okkar bestu manna og við eigum ekki að láta neina persónulega andúð eða einhverjar undarlegar skilgreiningar útiloka neinn sem þar getur orðið okkur að gagni. Þetta segi ég að gefnu tilefni.
    Virðulegi forseti. Ég fagna því að hæstv. utanrrh. hyggst taka til hendinni varðandi flóttamenn, ef marka má orð hans hér áðan, en ég vil minna á það að sl. vor spurði ég hæstv. forsrh. sérstaklega um stefnu ríkisstjórnarinnar í málefnum flóttamanna. Vona ég að hæstv. utanrrh. hlusti á því að ég var að geta um það er ég spurði hæstv. forsrh. um stefnu ríkisstjórnarinnar í málefnum flóttamanna. Ég spurði m.a. um það hvert okkar hlutverk ætti að vera og ég get ekki heyrt að hæstv. forsrh. og hæstv. utanrrh. tali einum rómi í þessu nema eitthvað mikið hafi breyst. Ég mæli þess vegna með því við hæstv. utanrrh. að hann spjalli við hæstv. forsrh. um þetta mál frekar en vera að senda einhverjum óskilgreindum mönnum skeyti í blaðagreinum eins og gerðist fyrir síðustu jól. Ég veit að vísu ekki hvernig háttað er samstarfi innan ríkisstjórnarinnar um þessar mundir og það getur vel verið að sú stund sé liðin hjá að hæstv. utanrrh. og hæstv. forsrh. yfirhöfuð geti talað saman. Sé svo, þá erum við í alvarlegum vanda því að fyrr eða síðar hlýtur að reyna á það að þetta er að sjálfsögðu ekki líðandi.
    Virðulegi forseti. Það hefur margt orðið afgangs í þessari umræðu eins og vænta má þegar tími er takmarkaður. Við höfum þegar rætt GATT á öðrum vettvangi í þingsölum og ég hygg að sú umræða muni verða mikil þegar yfir lýkur. Það skiptir miklu máli að standa vörð um hagsmuni íslensks landbúnaðar, sem er um margt sérstæður, og þar ættum við með réttu að geta snúið vörn í sókn svo framarlega sem við búum okkar landbúnaði viðunandi skilyrði.
    Virðulegi forseti. Ég lýk máli mínu með því að ítreka það að ég tel að utanríkisstefna sú sem kemur fram í þeirri skýrslu sem hæstv. utanrrh. lagði fram og einkum þó í máli hans áðan hafi rangar áherslur og ég hvet hann til þess að hlusta og íhuga þá stöðu sem við erum í og endurskoða sína afstöðu og það frekar fyrr en síðar.