Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

111. fundur
Fimmtudaginn 17. mars 1994, kl. 16:05:05 (5256)


[16:05]
     Björn Bjarnason :
    Frú forseti. Ég vil hefja þessa ræðu mína á því að þakka hæstv. utanrrh. skýrslu hans eða ræðu hans. Ég tek undir það sem fram hefur komið fyrr í umræðunum að það þarf ef til vill að huga betur að því formi sem við höfum á þessu. Við erum að þreifa okkur áfram með breyttar aðferðir í þessum umræðum og ef til vill er nauðsynlegt að skoða það betur og vonandi tekst gott samkomulag um það hvernig að þessu máli verður staðið framvegis.
    Þegar litið er yfir stöðu okkar nú finnst mér að það séu kannski þrjú höfuðatriði sem þurfi að huga að. Í fyrsta lagi samskiptin við Bandaríkin, í öðru lagi þróunin í Rússlandi og í þriðja lagi samskipti okkar við Evrópusambandið og samningsstaða okkar gagnvart því. Í máli mínu mun ég ekki fjalla ítarlega um tvö fyrri atriðin sem ég nefndi heldur aðallega um það þriðja, þ.e. stöðu okkar gagnvart Evrópusambandinu. Þó vil ég segja það um samskiptin við Bandaríkin að ég tel að mjög vel hafi tekist til í byrjun ársins þegar ritað var undir samkomulag á milli ríkisstjórnar Íslands og Bandaríkjanna um varnarsamstarfið við breyttar aðstæður og þar hafi verið tekið mið af þeirri stefnumótun sem kynnt var á Alþingi á sl. ári og kom fram í skýrslu sem lögð var fram 10. mars 1993 um stöðu Íslands í varnar- og öryggismálum við breyttar aðstæður. Ég vil í ljósi þeirra orða sem hv. 8. þm. Reykn. lét falla um það samkomulag taka fram þá skoðun mína að ég tel að þegar rætt er um sameiginlega niðurstöðu í því samkomulagi sé ekki átt við varnarsamninginn sjálfan, þ.e. uppsagnarákvæði hans. Við honum er ekki hróflað í þessu samkomulagi. Hann stendur eins og fram hefur komið óbreyttur. Hins vegar er verið að tala um sameiginlega niðurstöðu varðandi fyrirkomulag og viðbúnað á Íslandi vegna varnarsamstarfsins og á grundvelli varnarsamningsins. Þetta held ég að menn verði að hafa í huga þegar um þetta er rætt.
    Einnig vil ég taka undir það sem kom fram í ræðu hæstv. utanrrh. um nauðsyn þess að við könnum til hlítar hvernig staða okkar verður gagnvart hinu nýja fríverslunarsamstarfi sem er hafið í Norður-Ameríku. Ég tel mjög brýnt að þar verði staðið þannig að málum að við getum notið sem mestra réttinda.
    Með þetta allt í huga hefur verið unnið að því á vettvangi utanrmn. að skipuleggja ferð nefndarmanna til Bandaríkjanna og til Washington nú í vor og nú liggur fyrir samþykki forsætisnefndar þingsins við því að sex nefndarmenn fari til Washington í vor og þegar liggja fyrir drög að dagskrá viðræðna sem nefndarmenn geti átt við stjórnvöld og þingmenn í Bandaríkjunum. Ég vona að sú ferð beri þann árangur að okkur takist í senn að kynna okkar sjónarmið og einnig kynnast viðhorfum Bandaríkjamanna til Íslands við þær aðstæður sem nú eru, bæði varðandi öryggismálin og ekki síður varðandi viðskiptamálin.
    Þróunin í Rússlandi er mjög óljós og mjög erfitt að spá í það hvað kann að gerast á þeim vettvangi en þróunin þar mun óhjákvæmilega hafa mjög mikil áhrif á framvindu stjórnmála, efnahagsmála og öryggismála í okkar heimshluta og er ástæða til þess að fylgjast mjög náið með því sem þar er að gerast. Því miður lítur svo út sem þau öfl séu að ná undirtökunum í Rússlandi sem telja að halda beri merki Rússlands þannig á loft að það kunni að skapa hættur fyrir nágranna ríkisins. Það eru alvarleg teikn sem þarna eru á lofti og full ástæða fyrir okkur til að velta því fyrir okkur hvernig að þessum málum verður staðið. Við þurfum að gera það upp við okkur hér eins og annars staðar hvaða mat við leggjum á þróunina í Rússlandi og hvernig við viljum standa að því að eiga samskipti við þetta mikla ríki og þau ríki sem áður tiheyrðu Sovétríkjunum fyrrverandi. Það er ljóst, eins og sagt hefur verið, að svo lítur út sem Rússland geti annaðhvort valið þann kost að vera lýðræðisríki eða heimsveldi og velji Rússland þann kost að vera heimsveldi, þá eru nágrannaríkin í verulegri hættu. Mest er hættan að sjálfsögðu ef til vaxandi spennu kemur á milli Rússlands annars vegar og Úkraínu hins vegar, þessara tveggja stóru ríkja, kjarnorkuvelda. Það kann að vera það vandamál sem ríkin í vesturhluta Evrópu og við Atlantshaf standa frammi fyrir sem viðkvæmu viðfangsefni í alþjóðastjórnmálum á komandi mánuðum og missirum. Ég vil nefna þetta hér án þess að ég vilji draga upp of dökka mynd af því sem er að gerast í Rússlandi. Engu að síður tel ég að þróunin þar og aðstæður séu þess eðlis að það muni hafa mjög mikil áhrif á afstöðu okkar Íslendinga og hvernig við tökum á um mótun utanríkisstefnu okkar. Það er óhjákvæmilegt og hefur verið þannig í raun allt frá því að við stofnuðum lýðveldi fyrir 50 árum og tókum utanríkismálin alfarið í okkar hendur.
    En brýnasta verkefnið á vettvangi utanríkismálanna er það sem menn hafa helst gert hér að umtalsefni, þ.e. að velta fyrir sér stöðu okkar gagnvart Evrópusambandinu nú þegar fjögur EFTA-ríki hafa náð samkomulagi við Evrópusambandið um aðild og stefna ótrauð að því að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um þessa samninga á komandi mánuðum. En við skulum jafnframt hafa í huga að það stendur í vegi fyrir því að þessir samningar komist til framkvæmda að deilur eru innan Evrópusambandsins um það hvernig með völdin skuli fara þar, hvert skuli vera vægi einstakra ríkja í samstarfinu og innan ráðherraráðs þess, eins og ég mun koma að síðar í máli mínu. Ég tel tvímælalaust rétt þegar við ræðum þessi mál hér og annars staðar sem Íslendingar að taka mið af þeirri ályktun sem við samþykktum á Alþingi 5. maí 1993. Það er það grundvallarplagg sem við eigum að leggja fram þegar við kynnum okkar stefnu og afstöðu og ég tek undir með þeim sem segja að það sé algerlega fráleitt að líta þannig á að það skorti stefnu af hálfu Íslands gagnvart Evrópusambandinu. Hún liggur skýr og ótvíræð fyrir og nýtur óskoraðs stuðnings á Alþingi eins og fram hefur komið.
    Ég minni á það að tillaga þessi var túlkuð þannig í umræðum á Alþingi að hún útilokaði ekki umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu en yrði hins vegar ákveðið að leita eftir slíkri aðild þyrfti ríkisstjórn að fá umboð Alþingis til þess. Með öðrum orðum yrði ekki sótt um aðild að Evrópusambandinu nema meiri hluti þingmanna styddi ákvörðun um það. Það er mjög mikilvægt að hafa í huga þegar menn ræða um þessa ályktun Alþingis að hún var túlkuð á þennan veg og það er algerlega skýrt að það hefur engin ríkisstjórn, miðað við þessa ályktun, umboð til þess að sækja um aðild að Evrópusambandinu án þess að njóta til þess stuðnings á Alþingi.
    Ef við lítum á það hvernig staðan var þegar við samþykktum þessa ályktun, þá ber að minnast þess að það lá ljóst fyrir á fyrri hluta árs 1992 að þrjú EFTA-ríki, Austurríki, Finnland og Svíþjóð, hefðu áhuga á aðild að Evrópusambandinu. Hinn 5. mars 1992 ávarpaði Helmut Kohl, kanslari Þýskalands, Norðurlandaráð og boðaði að aðildarviðræður við þessi þrjú EFTA-ríki og hugsanlega fleiri gætu hafist fyrri hluta árs 1993. Forráðamenn Evrópusambandsins töldu þá að hugsanlega mundi Noregur slást í för með EFTA-ríkjunum þremur og það gerðu Norðmenn með formlegri aðildarumsókn 25. nóv. 1992. Hinn 1. febr. 1993 hófust síðan aðildarviðræður milli fulltrúa Evrópubandalagsins og Austurríks, Finnlands og Svíþjóðar um aðild og hinn 5. apríl 1993 við Norðmenn. Þegar þetta gerðist, og enn er staðan sú, hafði enginn

stjórnmálaflokkur á Íslandi aðild að Evrópubandalaginu á stefnuskrá sinni og það er yfirlýst stefna ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar að aðild að Evrópubandalaginu eða Evrópusambandinu er ekki á dagskrá.
    Það ber einnig að hafa í huga þegar menn ræða um þessa ályktun að hinn 12. maí 1992 var efnt til ,,semínars`` um það á vegum framkvæmdastjórnar Evrópubandalagsins hvaða afstöðu skyldi taka til stækkunar bandalagsins. Þessu ,,semínari`` stjórnaði Frans Andriessen, sem þá fór með stjórn utanríkismála í framkvæmdastjórninni, og í gögnum sem þá voru kynnt kemur hvergi fram að framkvæmdastjórnin hafi talið nauðsynlegt að búa sig undir aðildarumsókn frá Íslandi. Jákvæð afstaða Helmuts Kohls, sem kom fram á þingi Norðurlandaráðs í mars 1992 til aðildar EFTA-ríkjanna, var staðfest á leiðtogafundi Evrópubandalagsins í Lissabon í júní 1992. Þar var ályktað á þann veg að samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið hefði lagt grunninn að því að unnt væri að hefja viðræður um stækkun með það í huga að með skjótum hætti mætti ljúka samningum við þau EFTA-ríki sem kysu aðild að Evrópusambandinu. Var sagt að þessar viðræður hæfust opinberlega strax eftir að Maastricht-sáttmálinn hefði verið samþykktur og samkomulag tekist um langtímafjárlög Evrópusambandsins.
    Á leiðtogafundi Evrópubandalagsins í Edinborg í desember 1992 var staðfest að opinberar samningaviðræður við þau EFTA-ríki sem óskuðu eftir aðild yrðu hafnar strax eftir að skilyrðunum frá Lissabonfundinum hefði verið fullnægt. Með það í huga væri stefnt að því að hefja viðræður við Austurríkismenn, Finna og Svía snemma árs 1993. Síðan hittust leiðtogar Evrópubandalagslandanna á fundi í Kaupmannahöfn í júní 1993 og þar var einnig rætt um aðildarviðræður við EFTA-löndin fjögur. Var ákveðið að unnið yrði að þeim samhliða svo framarlega sem þess væri nokkur kostur. Þá lýstu leiðtogarnir því yfir að fyrsta stækkun Evrópusambandsins í samræmi við ákvarðanirnar í Lissabon og Edinborg kæmu til sögunnar 1. jan. 1995. Þetta var ítrekað á aukafundi leiðtoganna í Brussel í október 1993 þegar Maastricht-sáttmálinn var formlega staðfestur. Þá lá jafnframt fyrir að samningaviðræðunum yrði að ljúka fyrir 1. mars 1994 til að Evrópuþingið gæti fjallað um það á þingi sínu í maí 1994 sem væri forsenda þess að samningar gætu tekið gildi 1. jan. 1995, svo framarlega sem þeir væru samþykktir í þjóðaratkvæðagreiðslum í löndunum.
    Það verður að skoða ákvarðanir íslenskra stjórnvalda í ljósi þessarar atburðarásar. Þetta lá fyrir þegar Alþingi mótaði stefnuna 5. maí 1993 og það var litið þannig á að síðasti frestur til að vera með í þessari samningalotu um stækkun Evrópusambandsins hefði runnið út um það leyti sem Norðmenn lögðu inn umsókn sína í nóvember 1992. Þá stóðu deilur um aðild Íslands að EES sem hæst hér á Alþingi og þótti jafnvel tvísýnt um hvort meiri hluti væri fyrir henni meðal þingmanna. Ég tel að eins og málum var háttað þá hefði það verið vísasti vegurinn til að sigla samningnum um Evrópska efnahagssvæðið í strand á Alþingi að hefja á þeim tíma umræður um aðild að Evrópusambandinu. Fyrir því voru ekki pólitískar forsendur hvað sem leið efnisþáttum málsins.
    Ég þarf ekki að gera hv. þm. grein fyrir efnisþáttum EES-samningsins, en eins og við vitum er hann á milli 12 aðildarríkja Evrópusambandsins og fimm EFTA-ríkja og nær yfir mjög víðtækt svið, bæði að því er varðar fjórþætta frelsið og einnig svonefnd jaðarmálefni sem við þingmenn höfum kynnst. Eins og við vitum einnig, þá þurfa EFTA-ríkin og samþykktu á sínum tíma að lögfesta hjá sér um 1.600 gerninga Evrópusambandsins og er það gert með setningu laga eða reglugerða eða á annan þann hátt sem tryggir að tillit sé tekið til þessara gjörninga innan einstakra ríkja. Höfum við alþingismenn fjallað um marga þessa löggjörninga nú þegar og erum að skoða þá enn frekar með hliðsjón af þeirri viðbótarbókun sem liggur nú fyrir varðandi samninginn og í tengslum við hann.
    Einnig er okkur þingmönnum ljóst hvernig staðið er að æðstu stjórn þessara mála á Evrópska efnahagssvæðinu þar sem er ráðherraráð annars vegar og EES-nefndin hins vegar þar sem sitja sendiherrar og fulltrúi framkvæmdastjórnarinnar. Síðan hefur verið komið á þingmannasamstarfi og einnig starfa saman aðilar er sinna efnahags- og félagsmálum. EFTA-ríkin skuldbundu sig til að koma á fót eigin eftirlitsstofnun, þar sem nú situr fyrir Íslands hönd Björn Friðfinnsson í Brussel, og EFTA-dómstóli, þar sem Þór Vilhjálmsson er meðal dómara og hefur dómstóllinn aðsetur í Genf. Þessar stofnanir eiga að tryggja framkvæmd þess sem um hefur verið samið. Um þessar stofnanir og dómstólinn voru gerðir sérstakir samningar milli EFTA-ríkjanna sem gilda aðeins á milli þeirra.
    Það stendur í samningnum um Evrópska efnahagssvæðið að gerist nýtt ríki aðili að Evrópusambandinu er því skylt að sækja um aðild að Evrópska efnahagssvæðinu og gerast aðili að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið. Eins og fram hefur komið er samningurinn hluti af löggerningum Evrópusambandsins sem öll aðildarríki þess verða að gangast undir og gerast aðilar að. Hins vegar er það svo að ef EFTA-ríkjunum fjölgaði þá yrðu hin nýju ríki ekkert sjálfkrafa aðilar að Evrópska efnahagssvæðinu og yrðu að semja um það sérstaklega. Eins og við vitum eiga ekki öll EFTA-ríkin aðild að þessu samstarfi því Sviss stendur utan við það.
    Samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið er gerður á grundvelli 238. gr. Rómarsáttmálans. Þeir samningar sem þannig eru gerðir eru sagðir fela í sér tvíhliða aukaaðild að Evrópusambandinu. Formi slíkra samninga við einstök ríki er lýst þannig í bók Stefáns Más Stefánssonar, Evrópurétti, með leyfi frú forseta:
    ,,Í sambandi við aukaaðild eru oft sett á laggirnar bæði ráð, framkvæmdastjórn og jafnvel þing. Ráðið er þá valdamest, þar eiga sæti bæði fulltrúar frá Evrópubandalaginu og því ríki sem í hlut á. Ákvarðanir verða ekki teknar nema báðir aðilar séu sammála. Deilumál aðilanna eru þá oft leyst með hefðbundnum hætti, t.d.

með gerðardómsmeðferð. Því er meginmunur á heimild þessara stofnana til að taka ákvarðanir og á þeirri heimild til ákvarðantöku sem stofnanir Evrópubandalagsins hafa. Af því leiðir að mikill munur er á fullri aðild og aukaaðild.``
    Þetta er hin formlega staða sem samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið lýtur innan lagakerfis Evrópusambandsins. Sérstaða samningsins felst í því að hann er gerður við mörg ríki en er ekki tvíhliða samningur milli Evrópusambandsins og eins ákveðins ríkis.
    Innan Evrópusambandsins eru nú miklar deilur um það hvernig haga skuli stjórn þess þegar fram líða stundir og birtast þær m.a. í ágreiningi nú um það hvaða vægi þurfi innan ráðherraráðsins til að stöðva þar framgang mála. Nú þarf þar 23 atkvæði af 76 en tillaga er um að framvegis þurfi 27 atkvæði af 90. Á móti þessari tillögu um breytingu standa fast, bæði Spánverjar og Bretar og ekki síst í Bretlandi veldur tillagan um að hækka þrepið úr 23 í 27 mjög hörðum deilum innan ríkisstjórnarflokksins, Íhaldsflokksins, og eru að spretta þar upp deilur sem eru sambærilegar við það sem var þegar ágreiningur var mestur innan flokksins um aðild Bretlands að Maastricht-sáttmálanum. Það virðist því ljóst að Bretar muni eins lengi og þeir telja sér frekast fært standa gegn því að þessi mörk verði hækkuð og á meðan ekki næst samkomulag um það eru nýju aðildarsamningarnir strandaðir í stjórnkerfi Evrópusambandsins og Evrópuþingið mun neita að taka þá fyrir nema úr þessum ágreiningi verði leyst og kann það að verða til þess að aðildardagsetningin frestist frá því 1. jan. nk. og eitthvað fram á næsta ár.
    Við skulum minnast þess að EES-samningurinn var undirritaður í Óportó 2. maí 1992. Eins og fram hefur komið efndi framkvæmdastjórn Evrópusambandsins til ,,semínars`` um afstöðuna til stækkunar bandalagsins 12. maí 1992. Hinn 22. maí 1992 kom hingað til lands Frans Andriessen, sem stjórnaði þessum viðræðum, og umræðum og hann lagði mat sitt á það hver yrði staða Íslands ef EFTA-ríkin fjögur færu inn í Evrópusambandið. Það kemur skýrt fram í sjónvarpsviðtali við hann 22. maí 1992 að hann taldi Evrópusambandið hafa þeim skyldum að gegna gagnvart þeim EFTA-ríkjum sem eftir stæðu að þeirra hagur spilltist að engu. Hann segir einnig að efnisþættirnir mundu auðvitað varðveitast að því er varðar efnahagslega og pólitíska þætti samningsins um Evrópska efnahagssvæðið.
    Það liggur því fyrir pólitísk yfirlýsing af hálfu forustumanns Evrópusambandsins, sem stjórnaði viðræðunum á sínum tíma innan þess um stækkun bandalagsins, um það að Íslendingar þyrftu engu að tapa varðandi efnisatriði samningsins um Evrópska efnahagssvæðið þótt einhver EFTA-ríkjanna færu inn í Evrópusambandið.
    Í kvöldfréttatíma Ríkisútvarpsins í fyrradag, 15. mars, er vitnað til sir Leons Brittans, sem er varaforseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, þar sem hann segir að hann sjái enga knýjandi ástæðu til að breyta samningnum um Evrópskt efnahagssvæði í tvíhliða samning við Ísland. Í frétt Ríkisútvarpsins segir, með leyfi frú forseta:
    ,,Sir Leon sagði í samtali við fréttamann Ríkisútvarpsins á Norðurlöndum að tæknilega séð a.m.k. stæði EES-samningurinn eftir sem áður, hvort sem eitt ríki eða fimm ættu aðild að honum auk Evrópusambandsins. Hann segist enga ástæðu sjá til að semja um breytingar á honum þó ekki væri því að neita að heldur virtist vera að fækka í EFTA-hópnum.``
    Evrópusambandið stendur einnig frammi fyrir því að það ætlar á ráðstefnu árið 1996 að breyta allri sinni stjórnskipan og það hefur verið kappsmál þeirra fjögurra EFTA-ríkja sem eru að sækja um aðild að Evrópusambandinu nú að komast inn í það áður en sú ráðstefna verður haldin.
    Það kemur hins vegar fram í álitum sem framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur gefið varðandi umsóknir Kýpur og Möltu að sambandið telur ekki æskilegt að ríki með ekki fleiri íbúa en þessar eyjar, 700 þúsund á Kýpur og 400 þúsund á Möltu, komi til samstarfsins fyrr en eftir ríkjaráðstefnuna 1996, enda þurfi að huga sérstaklega að því hvaða stöðu svo fámenn ríki hafi innan Evrópusambandsins.
    Þegar á þetta er litið sést að af hálfu Evrópusambandsins hefur verið staðið við allar dagsetningar sem varða EFTA-ríkin fjögur og fram komu í ræðunni sem Helmut Kohl flutti á þingi Norðurlandaráðs 5. mars 1992 þar sem Ísland var ekki inni í myndinni þá og hefur aldrei verið inni í þessari mynd þegar rætt hefur verið um stækkun Evrópusambandsins, hvorki af þess hálfu né Íslands hálfu. Þetta finnst mér nauðsynlegt að menn hafi í huga þegar um það er rætt nú og látið í veðri vaka að okkar staða hafi gjörbreyst við þær niðurstöður sem nú hafa fengist í samningaviðræðum Evrópusambandsins við þessi fjögur EFTA-ríki.
    Mér finnst að við þurfum að velta því rækilega fyrir okkur og það þurfi að vera liður í undirbúningi viðræðna okkar við Evrópusambandið á þessum forsendum, sem kynntar eru og lagðar í ályktun Alþingis frá 5. maí í fyrra, hvort það sé svo að formhlið samningsins um Evrópska efnahagssvæðið þurfi að breytast vegna þess að efnisþættirnir í þessum samningi eru víðtækari heldur en í nokkrum öðrum samningi sem Evrópusambandið hefur gert við þriðju ríki. Ég tel ekki að það eigi að líta þannig á að þótt samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið sé jafnvíðtækur og raun ber vitni, þá eigi það að vera túlkað á þann veg að formhlið samskiptanna þurfi að vera með einhverjum öðrum hætti heldur en um er getið í 238. gr. Rómarsáttmálans, sem ég vísaði til hér áður, og það þurfi þess vegna ekki að finna upp neitt nýtt stjórnkerfi í samskiptum okkar og Evrópusambandsins þótt þessi samningur breytist að formi til í tvíhliða samning og standi efnislega óbreyttur bæði að því er varðar fjórfrelsið og öll hin jaðarmálin og allt það sem við höfum samið um við Evrópusambandið.
    Mér finnst að menn mikli fyrir sér í senn að Ísland hafi enga stefnu í þessu máli og einnig hvað í þessari stefnu felst og hvernig hægt er að hrinda henni í framkvæmd á grundvelli þessa mikilvæga samnings sem við gerðum og samþykktum á sl. ári. Ég vil brýna menn til þess að ræða þetta mál á okkar forsendum, á íslenskum forsendum, í ljósi þeirrar samningsstöðu sem við höfum, þeirrar yfirlýsingar sem við höfum frá Evrópusambandinu um okkar stöðu í sambandi við það en ekki í ljósi þeirra samninga sem önnur ríki hafa gert á sínum forsendum. Ég tel að Norðmenn hafi náð samningum við Evrópusambandið á sínum forsendum með allt það undir sem þeir hafa og það lúti öðru ef við færum í aðildarviðræður við Evrópusambandið. Þá yrði auðvitað litið á annan veg á enda á ekki allt það sama við um Ísland og Norðmenn þótt hluti Norðmanna eigi ef til vill jafnmikið undir sjávarútvegi og við eigum. Að sjálfsögðu er eðlilegt að skoða þessa samninga og velta þeim fyrir sér en ég sé ekki endilega að þeir hafi verið og geti verið fyrirmynd að aðildarsamningum okkar við Evrópusambandið. Hver þessara samninga er sérstaks eðlis og tekur mið af sérstökum aðstæðum hvers umsóknarríkis fyrir sig og getur ekki verið annað en rannsóknarefni fyrir okkur og verður aldrei algild fyrirmynd. Þess vegna finnst mér ekki ástæða til að draga af því of miklar ályktanir.
    Frú forseti. Ég tel stöðuna skýra af okkar hálfu gagnvart Evrópusambandinu. Ég tel að við höfum góðan málstað þar sem er samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið. Við höfum einnig reglur Evrópusambandsins til að styðjast við þegar við göngum til viðræðna við það um okkar framtíðarsamband og af okkar hálfu liggur hin pólitíska stefna skýrt fyrir. Hins vegar er ljóst af umræðum að í huga fólks er töluverð óvissa og ótti við það að þjóðin kunni að vera að einangrast ef Evrópusambandið stækkar. Ég tel að sá ótti sé ástæðulaus. Við eigum náið samband við þessi ríki á margvíslegum öðrum vettvangi og víða annars staðar og það er því ástæðulaust að ala á þeirri tilfinningu hér að Íslendingar séu að einangrast þótt Evrópusambandið stækki. Að sjálfsögðu höfum við okkar hagsmuna að gæta og þeir hagsmunir kunna að breytast við það að bandalagið og Evrópusambandið stækki. Við þurfum að halda öðruvísi á okkar málum. Það er ljóst að EFTA-dómstóllinn leggst niður, EFTA-eftirlitsstofnunin leggst niður og EFTA kann að hverfa. Við þurfum að taka öðruvísi á málum en við höfum gert sem EFTA-ríki í samstarfi við Evrópusambandið en ég hef nú aldrei litið á EFTA sem slíkan hornstein í utanríkisstefnu Íslands að öll sú stefna muni riðlast þótt EFTA verði úr sögunni. Sérstaklega ekki þegar við höfum þegar gert efnislega samninga sem tryggja okkur þá aðild að Evrópumörkuðunum sem EFTA-aðildin gerði á sínum tíma og stöndum jafnvel betur að vígi efnislega heldur en þá var.
    Ég vil ítreka að lokum að mér finnst ekkert að óttast í þessum efnum fyrir okkur Íslendinga en hins vegar þurfum við að halda vel á málum. Ég vil hvetja ríkisstjórnina til að taka sem fyrst upp þráðinn í viðræðum við fulltrúa Evrópusambandsins og fagna því sérstaklega að forsrh. hyggur á ferð til viðræðna í Brussel til að skýra þennan góða málstað okkar Íslendinga.