Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

111. fundur
Fimmtudaginn 17. mars 1994, kl. 17:07:25 (5260)


[17:07]
     Árni M. Mathiesen (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Í máli hv. 14. þm. Reykv. kom fram ákveðin afstaða hennar til þess að Rússar og Sovétmenn almennt ættu að ráða meiru um sín mál. Það er svolítið erfitt að átta sig á því hvað hv. þm. á við með þessu. Mig langar því til að spyrja hvort hv. þm. sé með þessum orðum að réttlæta utanríkisstefnu Rússlands sem hefur verið kennd við það sem þeir kalla ,,The near abroad`` eða nálægari útlönd. Að það sé þeirra áhrifasvæði þar sem þeir megi fara sínu fram svona nokkurn veginn eins og þeim líkar og hvort hún sé með þessum orðum sínum að réttlæta veru rússneska hersins, fyrrum sovéska hersins, í Eistlandi og Lettlandi gegn vilja þessara þjóða.