Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

111. fundur
Fimmtudaginn 17. mars 1994, kl. 17:12:23 (5264)


[17:12]
     Rannveig Guðmundsdóttir :
    Virðulegi forseti. Þær umræður sem hér hafa farið fram dag hafa verið fróðlegar og vonandi öllum gagnlegar og að mínu mati málefnalegar að mestu. Það var auðvitað við því að búast að þeir samningar sem náðst hafa milli hinna þriggja Norðurlanda við Evrópusambandið um aðild þeirra hafi tekið svo stóran skerf af umræðunni í dag sem raun ber vitni. Ég er hins vegar undrandi á þeirri mynd sem dregin er upp af stjórnarandstöðunni varðandi umfjöllun utanrrh. um atburði síðustu daga, þ.e. væntanlega aðild Norðmanna að ESB. Hér hafa bæði hv. þm. Steingrímur Hermannsson og hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson gefið til kynna að ekki sé samstaða um ályktun Alþingis frá því í maí 1993.
    Vissulega lét sendiherra okkar falla orð sem túlkuð voru sem vanþekking á ályktun Alþingis frá í fyrra. Hins vegar er ekkert það í orðum eða skrifaðri ræðu utanrrh. hér í dag sem gefur tilefni til þeirra viðbragða sem mér fannst hv. þm. sýna, þ.e. að sú staða sé uppi að e.t.v. séu aðeins fjórir flokkar hér á Alþingi sem standi að ályktuninni enn þá. Ef skoðanakannanir sýna breytta afstöðu til aðildar okkar að ESB þá er það athyglivert og til umhugsunar fyrir okkur. En þau viðbrögð eru varla vegna málflutnings stjórnmálamanna eða flokka, miklu fremur vegna fjölmiðlaumfjöllunar um málefni Norðmanna og ástæður þeirra fyrir aðild og þá samninga sem þeir eiga nú kost á.
    Ég tek undir að það eru ekki ný tíðindi að fyrrnefnd lönd vilji aðild að ESB. Það eru hins vegar tíðindi að Norðmenn hafa náð fyrir sig svo viðunandi samningum sem raun ber vitni.
    Mörg okkar höfðu efasemdir um það að Norðmenn gerðust aðilar að Evrópusambandinu. Ég get út af fyrir sig fallist á að þessi tíðindi kalli ekki á dramatískar vendingar en ég get hins vegar ekki sagt að þau breyti engu fyrir okkur Íslendinga. Ég er ein þeirra sem hef haft miklar efasemdir um að Norðmenn yrðu aðilar að Evrópusambandinu. Og til þessa hef ég fremur reiknað með að við myndum í einhver ár njóta samfylgdar þeirra á Evrópska efnahagssvæðinu. Nú lítur út fyrir að svo verði ekki og því er eðlilegt að hefja framkvæmd ályktunar Alþingis frá í maí í fyrra. Það hefur komið fram hér að í undirbúningi eru slíkar viðræður.
    Ég hef stutt aðild okkar að Evrópska efnahagssvæðinu með ráðum og dáð og litið þá aðild sem valkost við aðild að Evrópusambandinu og sagt það hvar sem ég hef tekið þátt í umræðu um þessi mál. Engu að síður fannst mér það hárrétt ákvörðun hjá ríkisstjórninni að fela Lagastofnun Háskóla Íslands að gera úttekt á hverjir væru kostir þess og gallar að standa utan við Evrópusambandið eða vera aðilar að því. Ég er því alls ekki sammála sjónarmiði Ólafs Ragnars Grímssonar að það sé allt þekkt sem varðar þessi mál og að slík skoðun sé þarflaus. Það er alveg ljóst að á næstu mánuðum verða í þjóðfélaginu miklar vangaveltur um einmitt kosti og galla þessa. Staðhæfingar munu verða settar fram á báða bóga og það er eðlilegt og sjálfsagt að ríkisstjórnin verði með úttekt og svör við því sem velt verður upp, staðhæft verður eða vangaveltur verða um. Að mínu mati er það því ekkert dramatískt þó ríkisstjórnin biðji um að slík úttekt liggi fyrir fyrir sumarið. Við munum að sjálfsögðu fylgjast með framvindu mála hjá frændþjóðum okkar og reyna að átta okkur á hvort og þá hvaða afleiðingar breytingar á þeirra högum hafa hjá okkur.
    Ég tek undir það með hv. 14. þm. Reykv. að eitt mikilvægasta samstarf sem við eigum á vettvangi utanríkismála er Norðurlandasamstarfið. Við eigum reyndar eftir að ræða skýrslu Íslandsdeildar Norðurlandaráðs og ég ætla ekki að fara inn í efnislega umræðu um Norðurlandasamstarfið hér við þessa umræðu. Því er hins vegar hreyft í ræðu utanrrh. að staða okkar í Norðurlandasamstarfinu breytist. Vissulega er það svo að ekkert okkar getur á þessari stundu séð það fyrir hvaða breytingar verða á hinum ýmsu sviðum þar sem við eigum samstarf, hvort heldur er á Norðurlöndum eða annars staðar.
    Á fyrsta Norðurlandaráðsþinginu sem ég sótti sem var í Mariehamn fyrir tveimur og hálfu ári fannst mér gæta mikillar óvissu í umræðunni um framhald Norðurlandasamstarfsins einmitt vegna þeirrar Evrópusamvinnu sem löndin stefndu að. Þær efasemdir sem bærðust með mér þá eru alveg horfnar úr mínum huga.

Öll umræða í Norðurlandaráði hnígur að því að styrkja samstarfið og hægt er að segja þrátt fyrir eða vegna Evrópusamstarfs þá er Norðurlandasamstarfið þýðingarmeira en nokkru sinni fyrr. Ég er því þeirrar skoðunar að ef mál fara sem horfir og öll hin Norðurlöndin verða í Evrópusambandinu þá verði Norðurlandasamstarfið okkur mikilvægara en nokkru sinni fyrr.
    Það er engin tilviljun að sú ákvörðun hefur verið tekin að gera Norðurlandaráð pólitískara en áður og það er ákvörðun sem var tekin í framhaldi af endurskoðun samstarfsins fyrir tveimur og hálfu ári. Að veita ákveðnum samstarfssviðum meiri forgang en öðrum og að helga haustþinginu utanríkismálaumræðu sem áður þekktist ekki í þessu samstarfi. Allar breytingar sem fjallað hefur verið um sl. tvö ár hafa beinst að því að gera samstarfið í ráðinu skilvirkara og að löndin skiptist á með að bera ábyrgð á samstarfi ríkisstjórnanna er einmitt einn liður þess. Ég er því þeirrar skoðunar að verðum við eina landið utan Evrópusambandsins í Norðurlandaráði þá verði það okkur enn mikilvægara en áður og brýnt að rækta það á öllum samstarfssviðum. Ég tel að þarna geti verið lykillinn að okkar samráði gegnum Norðurlöndin við Evrópu ef sú staða verður uppi.
    Þrátt fyrir að umræðan hér í dag hafi snúist fyrst og fremst um Evrópuþátt okkar utanríkismála þá kom utanrrh. víða við og drap á málaflokka sem áhugavert væri að fá nánari umfjöllun um. Áður en ég vík að þeim vil ég nefna það að hv. 14. þm. Reykv. lagði áherslu á að Norðurlandaráðssamstarfið væri ekki viðskiptalegs eðlis. Á þeim tíma sem ég hef starfað þar hefur oft verið rætt um áform manna um Norðurlönd sem heimamarkað á viðskiptasviði og á síðasta þingi kom það fram í ræðum manna og umfjöllun um Evrópusamstarfið sem fram undan væri að það efldi möguleikann á slíku viðskiptaformi og það kom fram í þeirri umræðu að m.a. fiskútflutningur Íslendinga eða réttara sagt stærð hans í útflutningi okkar hefði haft þau áhrif að það væri ljóst að slík einhæfni í útflutningi og stærð hefði verið of stór fyrir Norðurlöndin en að viðskiptasamstarf innan Evrópu og innan Norðurlandanna mundi fléttast saman og það verður ábyggilega mikils virði fyrir okkur.
    Ég nefndi að að ég hefði áhuga á að drepa á aðra málaflokka sem komu fram í ræðu utanrrh. og þar vil ég nefna möguleikann á aukinni ábyrgð Íslendinga á þyrlubjörgunarstörfum með því að Ísland yfirtæki hugsanlega þyrlubjörgunarþjónustu varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli. Þetta finnst mér stórt mál og afar mikið hagsmunamál fyrir okkur Íslendinga og ekki síður hagsmunamál í mínu kjördæmi og ég hvet utanrrh. afar mikið til dáða í þessu máli.
    Mér finnst líka áhugavert og of lítið fjallað hjá okkur á Alþingi um mannréttindamál yfirleitt og það væri full ástæða til þess að við fengjum nánari frásögn af ályktunum sem 50. þing mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna gerði, sérstaklega hvað varðar réttindi barna, sölu barna, barnavændi, barnaklám, götubörn og fleira sem getið var. Ég vil því nefna það að á nýafstöðnu Norðurlandaráðsþingi lá einmitt fyrir tillaga um að gera það refsivert að hafa undir höndum barnaklám og að þjóðirnar í Norðurlandasamstarfinu tækju það upp hver hjá sér og þar var samþykkt tillaga um að Norðurlöndin beiti sér mjög í aðgerðum varðandi þetta efni.
    Mér finnst líka löngu tímabært að við Íslendingar mótum heildarstefnu í málefnum flóttamanna. Eitt alvarlegasta þjóðfélagsmein sem er að búa um sig víða á Vesturlöndum, líka á Norðurlöndum, er útlendingaandúð. Gegn henni verðum við að bregðast og það gerum við ekki með því að sporna gegn því að flóttafólk eigi skjól hjá okkur til jafns við það sem nágrannaþjóðirnar opna fyrir heldur með því að auka skilning og virðingu gagnvart því fólki sem gegn vilja sínum er hrakið frá ættjörð sinni og leitar ásjár hjá þjóðum sem byggja á hefð lýðræðis og mannréttinda.
    Ég er því mjög fylgjandi að við tökum á þessum málum og opnum okkar land meira en hefur verið fyrir þessu fólki og tökum þátt í átaki Norðurlandanna sem fyrirhugað er í málefnum flóttafólks og þeirra sem þurfa á hjálp að halda.
    Virðulegi forseti. Ég vona að framhaldið á þeirri umræðu sem hér á sér stað einkennist einmitt af þeirri breidd sem mér fannst framsaga utanrrh. gefa tilefni til en sem ekki hefur enn þá náð verulega inn í umræðuna.