Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

111. fundur
Fimmtudaginn 17. mars 1994, kl. 17:28:44 (5267)


[17:28]
     Kristín Ástgeirsdóttir :
    Virðulegi forseti. Erindi mitt í ræðustól er að víkja að ýmsum atriðum sem mér finnst lítill gaumur hafa verið gefinn í þessari umræðu og síðasti ræðumaður nefndi. Ég ætlaði þó aðeins að koma inn á meginefni þessarar umræðu, þ.e. Evrópumálin. Það er merkilegt að velta fyrir sér þeirri heimsmynd sem lesa má út úr ræðu hæstv. utanrrh. Þessi sýn er afar bundin við Evrópu og hún er jafnframt mjög bundin af viðskiptasjónarmiðum. Það má kannski segja sem svo að auðvitað skipta viðskipti Íslendinga miklu máli og ef hægt er að tala um hugsjón sem gengur í gegnum íslenska utanríkisstefnu og íslenska hagsmuni alveg frá því um 1300 þá hefur það verið sú hugsjón að selja fisk. Það hefur verið gegnumgangandi skoðun Íslendinga að allt mætti gera og allt mætti réttlæta ef þeir gætu fengið að selja sinn fisk. En það má of mikið af öllu gera.
    Hæstv. utanrrh. vitnaði í Václav Havel, forseta Tékklands, en Havel hefur í sínum málflutningi lagt áherslu á að menn eigi hugsjónir, menn sýni ábyrgð gagnvart öðru fólki, gagnvart náttúrunni og heiminum sem við lifum í, menn hafi framtíðarsýn og að stjórnmálin einkennist af húmanisma. Havel er einmitt í sínum málflutningi að undirstrika það að lífið snýst um fleira en verslun og viðskipti, peninga og bandalög þjóða í milli. Ég vil beina því til hæstv. utanrrh. að hann taki sér Havel til fyrirmyndar og gefi gaum að fleiri hugsjónum en Evrópuhugsjóninni einni. Og þó að vissulega séu að gerast atburðir úti í Evrópu sem skipta okkur máli og við þurfum að sinna þá megum við ekki binda okkur við þennan þrönga sjónarhól.
    Það er merkilegt að fylgjast með því sem er að gerast úti í Evrópu og þá er ég ekki fyrst og fremst að beina sjónum að þeim samningum sem nú er verið að ganga frá, heldur finnst mér ekki síst athyglisvert að skoða þá miklu þversögn sem Evrópuumræðan og staðan í Evrópu einkennist af þar sem annars vegar er unnið að því að sameina Evrópuríkin en hins vegar einkenna straumar útlendingahaturs, þjóðernishyggju og kynþáttahaturs umræðuna í þessum sömu Evrópuríkjum. Það hefur verið afar athyglisvert að fylgjast með pólitískum umræðum í Evrópuráðinu á undanförnum tveimur árum þar sem þessi ótti, þ.e. óttinn við þessa strauma hefur verið einkennandi og sívaxandi áhyggjur þingmanna og þjóðarleiðtoga af þessum hugmyndastraumum sem engir virðast fá við ráðið og þetta rekst auðvitað hvað á annað. Það er ekki samhljómur í því sem leiðtogar Evrópuþjóðanna eru að vinna að og svo hugmyndum sem einkenna allt of stóra hópa innan þessara sömu þjóða. Útlendingahatrið og ofsóknir gegn fólki af öðrum kynþáttum var eitt meginviðfangsefni leiðtogafundarins í Vín og það voru samþykktar aðgerðir sem einkum á að beina til æskufólks og munu hefjast undir lok þessa árs og væri afar fróðlegt að fá fekari fregnir af því frá hæstv. utanrrh. hvernig Íslendingar ætli að beita sér í þessum efnum og hvernig meiningin er að íslensk stjórnvöld skipuleggi slíkar aðgerðir hér því að ég tek undir það sem hv. 4. þm. Reykn. kom inn á í sinni ræðu að þessi mál koma okkur við og við eigum að bregðast við með því að vera mannúðleg og að opna okkar land fyrir fólki sem á undir högg að sækja.
    Ef ég vík aðeins betur að Evrópuhugsjóninni og Evrópuumræðunni þá er eins og hér hafi gripið um sig einhver panik undanfarnar vikur þegar það augnablik rann upp er Norðurlandaþjóðirnar gerðu sína samninga við Evrópusambandið en þessir samningar og þetta ferli hefði ekki átt að koma neinum á óvart. Ég lít þannig á að menn séu frekar að koma út úr skápnum með sínar skoðanir heldur en að hér sé um einhvern sérstakan ótta að ræða því að þetta lá allt saman fyrir. Við getum spurt okkur: Hvað hefur breyst? Hefur eitthvað breyst? Það hefur ekkert breyst. Við vissum þetta allt saman fyrir tveimur árum þegar við hófum umræðurnar um Evrópska efnahagssvæðið í meðförum þingsins. Þá lá þetta allt ljóst fyrir. Við höfum lengi vitað að þessar þjóðir stefndu inn í Evrópubandalagið og við vitum reyndar ekki enn þá hvað úr því verður.
    Það hafa hvað eftir annað rifjast upp fyrir mér ummæli Willys Brandts þegar hann kom í heimsókn hingað fyrir nokkrum árum og lét þau ummæli falla að sér sýndist ekki að samningurinn um hið Evrópska efnahagssvæði yrði varanlegur eða það ástand sem hann skapaði vegna þess að það yrði svo ófullnægjandi fyrir aðildarríki EFTA að hafa ekki áhrif á þær ákvarðanir sem þyrfti að taka í framhaldi af samningnum og það er nákvæmlega það sem Norðurlandaþjóðirnar hafa ákveðið. Þær vilja hafa áhrif á þessa stefnumótun sem á sér stað innan Evrópubandalagsins samkvæmt því sem mér sýnist. Nú hef ég ekki farið í gegnum þann samning sem Norðmenn voru að gera við Evrópusambandið, en þegar allt kemur til alls eru það þessi áhrif sem skipta mestu máli. Þeir eru orðnir aðilar að hinum innri markaði og það skiptir máli að geta haft þar áhrif. Hins vegar er staða okkar Íslendinga allt önnur og ég tek undir það sem hér hefur verið sagt. Alþingi hefur mótað stefnu í þessum málum og á meðan sjávarútvegsstefna Evrópusambandsins er eins og hún er, á meðan skipulag þess er eins og það er, þá eigum við ekkert erindi þarna inn fyrir dyr.
    Það hefur mikið verið rætt um einangrun. Menn óttast einangrun Íslendinga, en einangrun frá hverju? Um hvað eru menn að tala? Eru menn að tala um viðskiptalega einangrun? Við erum búnir að gera þennan samning um Evrópskt efnahagssvæði með því góða og vonda sem honum fylgir og við getum gert tvíhliða samninga. Við erum að ganga inn í nýtt umhverfi þegar GATT-samningurinn verður að veruleika. Ég trúi ekki öðru en Íslendingar verði aðilar að þeim samningi. Erum við að tala um einangrun frá menningarsamskiptum við Evrópuþjóðir? Við erum líka með ýmiss konar samninga um menningarleg samskipti. Við erum með samninga um menntun og hvað er þá verið að tala um? Einangrun frá hverju? Í rauninni er kannski fyrst og fremst um það að ræða að við séum að einangra okkur frá pólitískum áhrifum. En við hljótum að spyrja, hvaða áhrif mundum við hafa innan Evrópusambandsins? Smáþjóð eins og Íslendingar, hvaða áhrif mundum við hafa? Er öllu því fórnandi sem við þyrftum að fórna fyrir einhver örlítil áhrif. Menn verða að skoða þetta frá öllum sjónarhólum og ekki síst kemur þar upp sú spurning sem hæstv. utanrrh. varpaði hér fram um það hvaða stöðu Íslendingar ætluðu sér að taka í Evrópusamstarfinu, hún snýst ekki bara um viðskipti. Hún snýst líka um það í hvaða samfélagi við viljum lifa. Hvers konar samfélag viljum við móta hér á okkar landi? Viljum við ráða eigin för eða ætlum við að taka við tilskipunum um það hvernig okkur beri að hátta okkar þjóðfélagi? Ég þarf vart að minna á þá þætti sem snúa að Evrópusambandinu og þeirri miðstýringu og því takmarkaða lýðræði sem þar er að finna og því mikla skriffinnskubákni sem það einkennist af og ég tel að við mundum harla lítil áhrif hafa á.
    Ég ætla einmmitt að velta þeirri spurningu fyrir mér sem hæstv. utanrrh. varpaði hér fram, hvaða stöðu við ætlum að taka okkur og ekki bara í Evrópu heldur í heiminum öllum. Að mínum dómi eigum við eitt erindi umfram önnur á vettvangi þjóðanna og það er það erindi að tala máli mannréttinda í heiminum. Það vill svo til að við Íslendingar erum meðal örfárra þjóða sem með einhverjum rétti getum talað um mannréttindi og getum gagnrýnt aðrar þjóðir fyrir meðferð á fólki og það eigum við að gera, ekki síst þegar litlar þjóðir eiga í hlut og við getum beitt okkur og við eigum að beita okkur.
    Því miður er það svo að í flestum ríkjum heims eru mannréttindi fótum troðin og ég er þar með komin að meginerindi mínu í þennan ræðustól því að mig langar sérstaklega til að vekja athygli hæstv. utanrrh. á tillögu sem við þingkonur Kvennalistans höfum lagt fram á þingi og ég á því miður ekki von á að takist að mæla fyrir áður en þingi lýkur. Það snertir ástand lítillar þjóðar austur í Asíu, þ.e. íbúa Austur-Tímor, og mig langar að beina því til hæstv. utanrrh. að hann kynni sér þessa tillögu og kynni sér ástand á eynni Tímor því að ég hygg að á fáum stöðum í veröldinni sé að finna annan eins harmleik og þar hefur átt sér stað þar sem Indónesíuher hefur verið að murka þessa litlu þjóð niður, ýmist í sérstökum aðgerðum eða árásum. Þeir hafa iðkað það að ráðast inn í þorp og drepa karlmenn en skilja konurnar og börnin eftir, þó að reyndar sé þar líka að finna dæmi um fjöldamorð á börnum. Við þetta ástand hefur þessi litla þjóð búið í 19 ár, en nú er ýmislegt sem bendir til þess að athygli heimsins sé að vakna gagnvart þessu ástandi og það eru hópar starfandi víða um heim sem eru að reyna að vekja athygli á örlögum þessarar litlu þjóðar og þeirri harðstjórn sem ræður ríkjum í Indónesíu. Indónesía er afar ríkt land. Þar eru miklar auðlindir og vaxandi iðnaður. Þar er vaxandi markaður fyrir fjárfestingar og jafnvel ríki eins og Svíþjóð og Finnland hafa látið sér í léttu rúmi liggja þær hörmungar sem Tímorbúar hafa orðið að þola. Ef þingmenn vilja fræðast nánar um þetta, þá bendi ég á greinargerðina sem fylgir þessari tillögu þar sem þetta ástand er rakið. En þarna er dæmi um mál sem við getum beitt okkur í eins og ýmsu öðru.
    Þá langar mig líka að nefna annað dæmi, svæði sem er okkur nær eða þjóð sem er okkur nær og það eru Kúrdar. Kúrdar hafa gengið í gegnum miklar hremmingar á undanförnum árum og áratugum, ef ekki öldum reyndar, og það vill svo til að akkúrat þessa dagana eru sérkennilegir atburðir að eiga sér stað í Tyrklandi þar sem hluti Kúrda býr. Þar hefur það gerst að tyrkneska þingið ætlar að aflétta þinghelgi þannig að hægt verði að sækja nokkra kúrdíska þingmenn til saka þar sem þeir eru taldir vera hluti af hryðjuverkasamtökum, en tyrknesk yfirvöld skilgreina baráttu Kúrda í Tyrklandi sem hryðjuverkastarfsemi og kalla nánast öll þeirra samtök hryðjuverkasamtök. Þetta mál verður rætt á næsta þingi Evrópuráðsins og verður fróðlegt að sjá hver viðbrögðin verða þar, en það hefur verið reynt að vekja athygli þingmanna á þessu máli og þetta hefur verið í fréttum og við þurfum svo sannarlega að gefa þessu gaum. Ég skora á hæstv. utanrrh. að kynna sér þetta mál og reyna það sem hann getur til að koma í veg fyrir að það sé verið að níðast á Kúrdum.
    Mig langar líka að víkja nokkrum orðum að ástandinu í Palestínu. Menn minnast þess að Shimon Peres kom hér í heimsókn sl. sumar og við utanrrh. voru sammála um það að heiðra hann ekki með nærveru okkar í kokteilboðum. ( Gripið fram í: Í kokteilboðum?) Í boðum já, okkur gafst ekki tækifæri til að ræða við ráðherrann. En einmitt þá daga virtist vera svo að það væri . . .  (Gripið fram í.) Nei, ég kærði mig ekki um það, það er rétt hjá þingmanninum, fyrst og fremst vegna þess hvernig hann og hans ríkisstjórn hafa gengið fram gagnvart Palestínumönnum og þverbrotið mannréttindi á þeim, eins og lesa má um m.a í skýrslu Amnesty International. (Forseti hringir.) --- Er ég búinn með tíma minn, virðulegi forseti?
    ( Forseti (GHelg) : Forseti mun leyfa hv. þm. að ljúka setningunni.)
    Það sem ég ætlaði að segja var fyrst og fremst það að vekja athygli á því ástandi þarna. En það kann svo að fara að ég setji mig aftur á mælendaskrá, virðulegi forseti. Það fór fyrir mér eins og þeim forseta sem hér situr að mér tókst ekki að ljúka því sem ég ætlaði að segja.