Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

111. fundur
Fimmtudaginn 17. mars 1994, kl. 17:47:22 (5271)


[17:47]
     Kristín Ástgeirsdóttir (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Nú verð ég að mótmæla harðlega þessum ummælum því að eitt er að gera athugasemdir við stjórnarfar og starfshætti í ríkjum og annað að afneita öllum samskiptum við þau eða jafnvel tilverurétti þeirra. Það höfum við aldrei gert, heldur höfum við ( BBj: Það kom fram . . .  ) --- Ég get upplýst þingmanninn um það að við höfum staðið í miklum bréfaskriftum við yfirvöld í Ísrael vegna ýmissa atburða sem þar hafa átt sér stað. Við höfum margsinnis skrifað, þ.e. þingflokkur Kvennalistans, ríkisstjórn Ísraels út af atburðum sem þar hafa gerst og við höfum iðulega fengið svör. Ég hef sjálf átt samskipti bæði við konur frá kvennasamtökum í Ísrael og rætt við þingmenn frá Ísrael og átt við þá góð samskipti og ég ber virðingu fyrir því fólki, en það afsakar ekki framferði ísraelsku ríkisstjórnarinnar. En það er sjálfsagt að tala við fulltrúa Ísraels og hefðum við fengið tækifæri til þess þegar Shimon Peres kom hingað, þá hefði

það verið gert. En að vera eingöngu boðið til kvöldverðar og vera að skála fyrir þessari ríkisstjórn, sem hefði nú kannski mátt sleppa, ég segi það nú ekki, það er bara ekki í samræmi við mína lífsskoðun.