Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

111. fundur
Fimmtudaginn 17. mars 1994, kl. 18:18:55 (5278)


[18:18]
     Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Hér hefur farið fram að mörgu leyti fróðleg umræða um utanríkismál og þá ekki síst Evrópumálin, enda er það svo sem að vonum þar sem ýmis tíðindi hafa verið í því efni á undanförnum dögum og vikum. Ég kvaddi mér aðallega hljóðs til þess að leggja á það áherslu að ég held að það væri afar vitlaust og með öllu ástæðulaust fyrir Íslendinga að fara á taugum þó að þar hafi orðið þeir atburðir sem hafa um nokkurra missira skeið verið fyrirsjáanlegir. Satt best að segja undrast maður þá tilhneigingu til að blása upp mikla taugaveiklum og reka hræðsluáróður fyrir því að nú séu einhver þau vatnaskil að verða eða stórtíðindi í samskiptum okkar við Evrópu vegna atburða úti í heimi sem kalli á einhver skjót viðbrögð, jafnvel hluti eins og þá sem haft var eftir einum ágætum ónefndum sendiherra og fyrrum starfsfélaga okkar hér á þingi að Íslendingar yrðu bara að taka einhverja stærstu utanríkispólitísku ákvarðanir sögu sinnar á örfáum dögum, ef ekki bara klukkutímum. Menn hefðu bara svona til klukkan hálftólf til þess að ákveða hvort þeir ætluðu að stinga sér inn í Evrópubandalagið.
    Þetta er ekki mjög uppbyggilegur málflutningur, satt best að segja. (Gripið fram í.) Þetta er að vísu mjög gáfaður maður og farsæll og duglegur en hann á auðvitað ekki að blanda sínum persónulegu skoðunum, sem kunna að vera í þessu efni, saman við hlutverk sitt sem opinber sýslunarmaður fyrir landið í útlöndum. Það er alvörumál í raun og veru. Og það er alveg nauðsynlegt að bæði sendiherrar okkar sem og aðrir sýslunarmenn okkar heima og heiman viti hver er hin formlega staðfesta stefna Íslands í þessu máli. Því mitt í öllum ruglandanum um þessi Evrópumál þá gerðist sá merkilegi atburður hér á Alþingi í fyrravor að það náðist algjör þverpólitísk samstaða um það hvert halda skyldi. Og það hefur ekkert gerst síðan, ekkert, sem kallar á endurmat á þeirri stefnumörkun, eins og hæstv. forsrh. hefur réttilega bent á ítrekað, bæði á þingi og í svörum og í fjölmiðlum undanfarna daga. Og reyndar ber að fagna því, því að það sem ég hef heyrt í umræðunni í dag, þá má fullyrða að e.t.v. með einni undantekningu hafi allir lagt áherslu á þetta sama, að ályktun Alþingis frá því í fyrravor um viðræður við Evrópusambandið um tvíhliða samning, sú ákvörðun standi og sú stefnumörkun sé í fullu gildi og rétt.
    Það eru að vísu nokkrir aðilar sem eru að skapa óróa um þetta mál einmitt núna og það er óþurftarverk, segi ég. Verslunarráðið stendur fyrir fundum og dregur þar fram þá sem þeir vita af reynslu og kynnum og að eru líklegastir til að taka undir þennan söng, hræðsluáróðurinn um einangrunina. ,,Stationistahjörðin`` í Brussel, með vaxandi stétt manna, er auðvitað að senda heim orðsendingar af því tagi að þetta sé alveg voðalegt og við verðum að drífa okkur inn í Evrópubandalagið því annars einangrumst við hér einhvers staðar úti í geimnum.
    Síðan eru vissar veilur í Alþfl. að því er virðist og stóð hann þó heill og óskiptur að samþykktinni á Alþingi í fyrravor og hefur ekki tilkynnt okkur um að hann hafi skipt um skoðun, hæstv. Alþfl. En ég verð að segja alveg eins og er að mér finnst hæstv. utanrrh. hafa þetta óþægilega opið í sínum málflutningi, ræðum, blaðagreinum og viðtölum við fjölmiðla undanfarna sólarhringa. Ég vona, í og með vegna hæstv. utanrrh. af því að mér er nokkuð hlýtt til mannsins, að hann fari ekki í þá eyðimerkurgöngu að ætla að gerast núna boðberi þess að við skiptum skyndilega um skoðun í brimgarðinum miðjum og gerum það sem algjör samstaða hefur verið um fram að þessu að gera ekki, þ.e. að vera að flækja málin með því að gæla við aðild að Evrópusambandinu að óbreyttu. Þá á ég við að óbreyttu hvað varðar grundvallarstefnu Evrópubandalagsins til auðlindanýtingar og sameiginlegrar stjórnunar á auðlindum þjóðanna, af því að ég held að það væri óþurftarverk, það á ekki að vera að rugla menn í ríminu, það hefur ekkert breyst í þessum efnum. Rökin eru öll hinum megin.
    Ef það er eitthvað sem hefur breyst sem mark er á takandi þá er það eitt að mínu mati og það er að samningsniðurstaða Noregs við Evrópubandalagið er verri en menn áttu von á. Hún er verri. --- Hún er víst verri, hæstv. utanrrh. Það er alveg sama hvernig hæstv. utanrrh. hristir höfuðið hér í hliðarsölum.
    Ég er hér með samninginn sem Norðmenn gerðu við Evrópubandalagið, að vísu á enskri tungu en hef farið í gegnum hann og lesið m.a. bókanir sem þessir aðilar hafa gert um Smuguveiðar. Ég fullyrði það að þessi samningsniðurstaða er lakari en Norðmenn höfðu gert sér vonir um. Það er ekki nokkur vafi á því. Andstæðingum EB-aðildar í Noregi er stórlega létt. Þeir telja að þeir hafi fengið fljúgandi byr í baráttunni með þessari samningsniðurstöðu. Sjávarútvegurinn er meira og minna allur að leggjast gegn niðurstöðunni og sjávarútvegsráðherrann, hinn borubratti, sem fram að þessu hefur talað gegn aðild, er í bullandi vörn í málinu. Vegna hvers? Fyrst og fremst vegna þess að hann fór í þessa krossferð með tvö meginmarkmið. Hver voru þau? Engan fisk, enda var hann kallaður Mr. no-fish-Olsen í Brussel. Engan fisk. Það er ekki einn einasti fiskur aflögu í Noregi, sagði hann, handa Evrópubandalaginu. Hitt var: Við stjórnum norðan við 62°. Það kemur ekki til greina að láta af fullu forræði Norðmanna yfir auðlindum norðan 62°. Hann varð að gefa eftir hvoru tveggja. Það er ljóst að það eru eingöngu fyrstu þrjú árin sem Norðmenn fara með forræði fyrir auðlindum sjávarins norðan við 62°. Það er hrein uppgjöf. Það er nær að kalla það mjög stuttan aðlögunartíma, þrjú ár, heldur en að þeir hafi haft þetta baráttumál í höfn. Hitt gaf hann líka eftir á lokasprettinum, hann varð að láta meiri fisk. Þannig að það er alveg augljóst mál að samningurinn er mjög mikil vonbrigði fyrir Norðmenn hvað þetta snertir.
    Þriðja atriðið er það að Evrópubandalagið tekur strax í byrjun við forræði fyrir hönd Noregs til að semja við aðra aðila um fiskveiðimál að öðru leyti en því sem eru gildandi samningar við Rússa. --- En, hæstv. utanrrh., ef við náum ekki samningum við Norðmenn um loðnuna núna á þessu ári þá munum við þurfa að semja um það við Evrópubandalagið vegna þess að Norðmenn missa forræðið fyrir því í hendur EB. Sama mundi eiga við um síld og aðra slíka hluti. Ég tek það til marks um það hversu lélegur samningurinn er í raun fyrir norska sjávarútvegshagsmuni að helsta hálmstrá Jan Henry T. Olsens, skuli vera bókunin um Smuguna. Hvað ætlar hann að nota til að fá menn í Norður-Noregi og Vestur-Noregi til að reyna að kaupa þennan samning? Jú, að hann hafi fengið Evrópubandalagið í lið með sér til þess að koma Íslendingum út úr Smugunni og öðrum vondum mönnum. Og á hverju byggir það? Það byggir á þremur og hálfri línu í viðauka III í samningi Noregs við Evrópusambandið um sjávarútveg. Hvað stendur þar? Þar stendur að samningsaðilar séu sammála um að rannsaka --- ,,to examine`` --- hvernig óskráðar veiðar á fiski utan kvóta verði stöðvaðar. Það er allt og sumt. Og svo segir að sérstaklega skuli rannsaka aðferðir

sem miða að því --- parties agree to explore measures aiming at --- sem miða að því --- að koma í veg fyrir landanir á svæði sambandsins þegar um veiðar utan kvóta er að ræða. Þetta er ekki mjög mergjað orðalag, satt best að segja. Auk þess liggur það auðvitað þannig að Evrópubandalagið er ekki sá sem manni dettur fyrst í hug að fá til að hjálpa sér við að koma í veg fyrir veiðar í smugum, eða hvað? Ætli það sé ekki þannig að Spánverjar og ýmsir aðrir séu frægari fyrir flest annað heldur en það að vera að loka smugum, hvort sem það er við Kanada eða annars staðar. Nei. Það er jú auðvitað þannig að Evrópubandalagið hefur verið einhver harðdrægasti úthafsveiðihagsmunaaðili sem fyrirfinnst og ævinlega og alls staðar staðið gegn því að loka smugum undan landhelgi ríkja. Þannig að auðvitað er það næsta broslegt að sjávarútvegsráðherra Noregs skuli í kastþröng sinni hengja núna hatt sinn á það að Evrópubandalagið komi honum til hjálpar við að loka Smugunni. Ég tek það meira til marks um það að þessi klóki stjórnmálamaður veit í hvers konar bullandi vörn hann er með samninginn heima fyrir að hann skuli gera þetta Smuguákvæði upp á þrjár og hálfa línu í viðauka III með samningnum að þessu stórmáli sem hann er að reyna að gera þessa dagana. Það er vegna þess að samningurinn að öðru leyti er svo lélegur fyrir norska sjávarútvegshagsmuni. Meginkrafa Noregs um tollfrjálsan aðgang fyrir allar sjávarafurðir og eldisafurðir strax náðist ekki heldur fram því nokkrar mikilvægar útflutningstegundir Norðmanna eru fyrir utan, a.m.k. fyrsta kastið. Þar er, ef ég man rétt, bæði síld, makríll, rækja og lax. Þannig er nú staðan.
    Ég segi því: Það er síður en svo að það sé ástæða fyrir menn til þess að endurmeta stöðu Íslands í ljósi niðurstöðunnar í Noregi og þá enn vitlausara ef menn lesa það út úr að það bendi frekar en áður til þess að við eigum að skoða aðild af einhverri alvöru. Einasta ástæðan sem ég hefði getað séð til þess á sjávarútvegssviðinu að niðurstaða í samningum Noregs við Evrópubandalagið hefði gefið okkur einhver tilefni til að endurmeta stöðu okkar í þessa áttina, hún hefði verið ef Norðmenn hefðu náð fram varanlega fullu forræði á forvöltun sjávarútvegsauðlindanna, þó ekki væri nema norðan við 62°, um aldur og ævi og t.d. því að fara með samninga við önnur ríki sjálfir um deilistofna sem ganga inn og út úr norsku landhelginni. En svo er aldeilis ekki. EB-fáninn verður á samningaborðinu frá byrjun þó Norðmenn geri sér vonir um að þeir verði auðvitað fyrirferðarmiklir í samninganefndunum og þeirra sjávarútvegsstefna muni hafa talsverð áhrif á sjávarútvegsstefnu Evrópubandalagsins þegar hún kemur til endurskoðunar 2002. En fyrir því hafa þeir að sjálfsögðu enga tryggingu. Ekki neina. Og við vitum að það er við harðdræga aðila að eiga sunnar í álfunni, svo sem eins og Spánverja, Portúgali og fleiri, sem ætla sér sannarlega sinn hlut.
    Þannig að svona lít ég á þetta. Ef það er eitthvað þá er þessi niðurstaða í þá átt að hún sannfærir okkur Íslendinga um að það er borin von fyrir okkur að láta í hendur Evrópubandalaginu auðlindir okkar með þeim hætti sem Norðmenn virðast ætla að gera, enda er auðvitað ólíku saman að jafna þar sem sjávarútvegur er um 10% útflutningsgrein í Noregi en 80% hjá okkur. ( Utanrrh.: 6%.) 6% hjá Norðmönnum. Þess þá heldur, hæstv. utanrrh., og ég þakka hjálpina. Þess þá heldur. Það er auðvitað svo gjörsamlega ólíku saman að jafna og ljóst t.d. að iðnaðarhagsmunir Noregs, olíuhagsmunir og annað því um líkt, skiptir þarna miklu meira máli. Hitt er svo annað mál að pólitískt, sögulega og menningarlega liggur það þannig í Noregi að sjávarútvegurinn vigtar þungt. Og það skyldi nú ekki fara svo að þessi lélega niðurstaða Norðmanna í samningunum verði það sem ráði úrslitum um að norska þjóðin felli þennan samning? Og það ættu menn að hafa í huga að hann er ekki beinlínis orðinn að samþykktum lögum í Noregi.
    Ég held að staða Íslands sé í raun og veru ágæt í þessu sambandi og við þurfum ekki að kvíða því að það sem þarna hafi verið að gerast eða gerist sé neitt sem við þurfum að hafa sérstakar áhyggjur af. Það er engin ástæða til taugaveiklunar að mínu mati, þvert á móti eru að mörgu leyti spennandi möguleikar í stöðunni fyrir Ísland. Við eigum þann möguleika að sjálfsögðu og í hann eigum við að fara að þróa okkar samskipti yfir í tvíhliða form við Evrópusambandið, sem er það form sem ég held að eðli málsins samkvæmt henti okkur best og sé viðráðanlegast fyrir okkur smáþjóðina í samskiptum við þennan mikla risa. Það er sem allra einfaldastur tvíhliða viðskiptasamningur og samvinnusamningur við Evrópusambandið, með sem minnstri stofnanayfirbyggingu og einföldustum framkvæmdamáta. Það mundi henta okkur best og vera viðráðanlegast fyrir okkur. Þess vegna eigum við að setja aukinn kraft í það að skoða möguleika okkar í aðrar áttir með samningum við Ameríku og NAFTA-svæðið og Asíu og fleiri þjóðir.
    Það sem ég tel að muni verða mest spennandi viðfangsefni fyrir Ísland á komandi árum, ég tala ekki um ef Noregur fer líka inn í EB, það er sú einstaka staða sem við fáum þá í hendur að verða eina algjörlega sjálfstæða og fullvalda þjóðríkið í vestanverðri Evrópu. Hvaða möguleika býður það okkur upp á? Það kann að bjóða okkur upp á mikla möguleika sem tengipunktur og samskiptamiðstöð þeirra stóru aðila sem liggja báðum megin við okkur, í raun og veru í allar áttir ef við tökum samgöngur yfir pólinn með í reikninginn. Skyldi það ekki fara svo að það sem hefur pólitískt og efnislega nýst mörgum þjóðum vel í gegnum tíðina, eins og Svisslendingum, Svíum og öðrum slíkum, (Forseti hringir.) gæti átt eftir að verða ein af mikilvægum auðlindum Íslands? Það er sjálfstæðið og fullveldið og möguleikinn á því að vinna úr þeirri stöðu. Það held ég, hæstv. forseti, og hef nú lokið máli mínu, sem rétt og skylt er þar sem tíminn er búinn.