Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

111. fundur
Fimmtudaginn 17. mars 1994, kl. 19:40:38 (5293)


[19:40]
     Björn Bjarnason (andsvar) :
    Frú forseti. Ég vil mótmæla þeirri ályktun hv. 8. þm. Reykn. að hér hafi myndast einhvers konar bandalag fjögurra flokka gegn einum við túlkun á ályktun Alþingis frá 5. maí 1993. Það er ekki rétt. Það hefur komið fram í ræðum allra ræðumanna að það er samhuga afstaða manna að það beri að framfylgja þessari ályktun. Hér hafa talað hæstv. utanrrh. og hv. formaður þingflokks Alþfl. og það er algerlega rangt að draga þá ályktun af þeirra ræðum að þau mótmæli þeirri niðurstöðu sem Alþingi komst að í ályktun sinni í fyrra.
    Ég vil einnig láta þess getið, vegna þeirra ummæla sem komu fram í máli hv. þm., að ég og hæstv. utanrrh. vorum saman á fundi í gærmorgun sem haldinn var á vegum Verslunarráðs Íslands. Þar flutti ég mál mitt með svipuðum hætti og hér í dag og í pallborðsumræðum sem fram fóru á eftir tók utanrrh. og við báðir það fram að við værum að sjálfsögðu sammála um meginstefnu Íslands í þessu máli við núverandi aðstæður. Ég tel að sá áherslumunur og sá ágreiningur sem hefur komið fram hér í dag, og menn eru að gera of mikið úr finnst mér, sé varðandi samningana sem Norðmenn hafa gert. Að sjálfsögðu geta menn haft mismunandi skoðanir á samningum sem Norðmenn hafa gert um sjávarútvegsmál við Evrópusambandið. Ég hef ekki blandað mér í þær deilur. Ég sagði í minni ræðu að ég teldi að við ættum að ýta því til hliðar. Þegar við værum að ræða um íslenska hagsmuni ættum við að líta á okkar hagsmuni. Hvað Norðmönnum kæmi best að semja um fyrir sig væri að sjálfsögðu þeirra mál. Ég tók það einnig þannig hjá hæstv. utanrrh. áðan þegar hann vitnaði í ræðu hæstv. forsætisráðherra Noregs að hann væri að leggja áherslu á að hann væri að skoða málið frá norskum sjónarhóli og með hliðsjón af því sem Norðmenn hafa samið um en að sjálfsögðu kann annað að gilda þegar við ræðum um málið frá íslensku sjónarhorni.