Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

111. fundur
Fimmtudaginn 17. mars 1994, kl. 19:49:00 (5298)


[19:49]
     Ólafur Ragnar Grímsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Tvisvar á þessu kjörtímabili hefur hæstv. utanrrh., Jón Baldvin Hannibalsson, gert tilraun til þess á Alþingi í umræðum um skýrslu utanrrh. að fá stuðning fyrir því á þinginu að það myndist pólitískur vilji til að kanna hugsanlega aðild að Evrópubandalaginu eins og það var í fyrra skiptið og Evrópusambandinu nú. Fyrra skiptið var í umræðunum 1992 um skýrslu utanrrh., ef ég man þetta rétt, þar sem hægt var að lesa mikla texta í fyrsta hluta þeirrar skýrslu, mjög svipaða texta og lesa mátti í ræðu hæstv. ráðherra í dag. Ráðherrann hefur síðustu daga og hér í dag í annað sinn á þessu kjörtímabili verið að gera tilraun til þess að koma í gang pólitískri atburðarás sem leiddi til aðildarumsóknar Íslands að Evrópusambandinu. Í bæði þessi skipti hafa þessar tilraunir verið stöðvaðar, hæstv. utanrrh. Það er hinn pólitíski veruleiki. Þær voru stöðvaðar í umræðum á Alþingi í fyrra skiptið sérstaklega af hæstv. forsrh. Þær hafa verið stöðvaðar með þessari umræðu í dag. Það er alveg ljóst.
    Svo má ræða fram og aftur um EES-samninginn. En ég minni bara hæstv. utanrrh. á að lesa þá afstöðu sem Alþb. mótaði í júní 1992. Grundvallarafstaðan var sú að ljóst væri í ljósi þeirrar stefnu sem Evrópubandalagið hafði þegar tekið upp og flest EFTA-ríkin að Ísland ætti bara tvo kosti varðandi framtíðarskipan samskipta sinna við EB, eins og stendur í samþykkt Alþb. Annaðhvort aðild eða tvíhliða samning. Þessi umræða í dag sýnir að þetta mat var alveg hárrétt. Að EES var skammtímafyrirbæri, mjög flókið skammtímafyrirbæri. Það er misskilningur hjá hæstv. ráðherra að það verði mjög einfalt að breyta EES í tvíhliða samning vegna þess að stór þáttur í EES er stofnanavirkið.