Rannsóknarráð Íslands

112. fundur
Föstudaginn 18. mars 1994, kl. 10:34:08 (5301)


[10:34]
     Tómas Ingi Olrich :
    Virðulegi forseti. Hér er til umræðu frv. til laga um Vísinda- og tækniráð Íslands sem er hið merkasta plagg eins og fram hefur komið í ræðum þeirra þingmanna sem um þetta mál hafa fjallað.
    Það hefur verið sagt að þetta frv. kæmi nokkuð seint fram í þinginu. Ástæðan fyrir því er fyrst og fremst sú að aðdragandi málsins hefur verið með eðlilegum hætti og það hefur verið vandað til þess aðdraganda. Málið hefur fengið víðtæka umfjöllun hjá þeim fjölmennu hópum sem að málinu koma og eiga hagsmuna að gæta í tengslum við frv. Frv. er í eðli sínu stefnumarkandi og tekur á ýmsum meiri háttar vandamálum sem hafa komið í ljós við framkvæmd tækni- og vísindastefnu og sem tími var kominn til að gera. Ég hef áður í umfjöllun um önnur mál tekið fram að ég telji að eitt af því allra besta sem ríkisstjórnin hefur verið að gera er að taka upp þennan málaflokk, almennar rannsóknir, vísindastarfsemi og rannsóknir í tengslum við atvinnulífið og móta þá starfsemi í einn traustan farveg.
    Helstu annmarkarnir sem hafa komið fram á þessu máli á undanförnum áratugum eru að sjálfsögðu tengdir því að við höfum verið að byggja upp frá grunni okkar vanmáttuga rannsóknaumhverfi. Það hefur farið mikill tími í það hjá okkur að byggja upp rannsóknastofnanirnar og starfsemin hefur oft borið nokkurn keim af því að stofnanirnar hafa komið nokkuð sterkar inn í þetta.
    Eitt af þeim atriðum sem gagnrýnd voru í OECD- skýrslunni um þessi mál, sem hér hefur verið vitnað til, var að þessi áhersla á rannsóknastofnanir var talin vera óeðlilega mikil og væri í raun og veru betra að virkja atvinnulífið til þátttöku í rannsóknastarfseminni með sjálfstæðum rannsóknaframlögum þannig að þar færu saman tengd verkefni sem stofnanirnar kæmu að en atvinnulífið einnig. Þetta var eitt af því sem bent var á í skýrslunni og talið eitt af meginatriðunum.
    Annað er rétt að minnast á. Það hefur komið í ljós með mjög skýrum hætti að skilin á milli hagnýtra rannsókna og almennra grunnrannsókna eru oft á tíðum ekki mjög skýr. Þetta á ekki síst við þegar grunnrannsóknirnar hafa orðið á eftir. Þá kemur oft fram í tengslum við verkefni sem hafa hagnýtt gildi að þær rannsóknir standa ekki nógu sterkum fótum í grunnrannsóknunum.
    Um þetta er hægt að taka nokkur dæmi til þess að þingmenn átti sig á því um hvað er verið að ræða. Ég vil taka sem sérstakt dæmi um þetta þá þróun sem hefur verið í líftæknirannsóknum okkar Íslendinga nú upp á síðkastið. Það er búið að eyða þó nokkru fé í að rannsaka það hvort við getum nýtt okkar mannafla sem hefur sérþekkingu á sviði líftækni og árangurinn er sá að við eigum nú, svo ég nefni eitt dæmi, talsverðan hluta af hitakærum og kuldakærum ensímum sem eru komin á það stig að það er orðið tímabært að kanna markað fyrir þetta. Það er verið að leita núna eftir markaðsþekkingu til þess að skoða möguleika á markaðssetningu þessara hitakæru örvera.
    Þegar litið er til baka, og það er einmitt það sem Rannsóknaráð ríkisins hefur verið að gera upp á síðkastið, og verið er að meta árangur af rannsóknum af þessu tagi og átta sig á því hver árangurinn er sem náðst hefur, hefur komið í ljós að af þeim verkefnum sem unnin hafa verið verður að flokka nokkur þeirra undir grunnrannsóknir frekar en hagnýtar rannsóknir. Með öðrum orðum er ég að reyna að segja að við framkvæmd þessarar stefnu eftir svona aðskildum sviðum, grunnrannsóknir annars vegar og hagnýtar rannsóknir hins vegar, hefur komið í ljós að þessi skil eru í mörgum tilfellum alls ekki eins glögg og ætla mætti.
    Ég vil taka annað sem gæti í framtíðinni orðið einmitt gott dæmi um þessi óljósu skil. Heilsugæslan styðst að sjálfsögðu við verulegar rannsóknir en það teljast vera grunnrannsóknir og heyra ekki undir Rannsóknaráð ríkisins. Nú er hins vegar eitt af því sem hefur verið skoðað sérstaklega í tengslum við uppbyggingu atvinnulífs á Íslandi að byggja upp svokallaða heilsuferðamennsku þar sem hugsanlega kæmi til greina nýting á heitu vatni, eins og er nú í athugun á Reykjanesi. Þá er að sjálfsögðu mjög æskilegt að nýta til þess þá heilsugæsluþjónustu sem við höfum og gæti komið til greina að verja fjármunum til þess að rannsaka, þá sem hagnýt verkefni í tengslum við atvinnulífið, möguleikana á því að nýta heilsugæsluna betur í tengslum við ferðamennsku. Að sjálfsögðu mundu þá þau rannsóknasvið sem þarna væri um að ræða skarast mjög verulega og það sem hingað til hefur heyrt undir Vísindaráð mundi flytjast að hluta til undir Rannsóknaráð.
    Þess er einnig að geta að ferðamennskan sem er vaxandi atvinnugrein hlýtur að geta stuðst við mjög margt í menningu Íslendinga. Það er mjög margt sem við getum rannsakað og skoðað í menningu Íslendinga sem að hluta til mundi falla undir Vísindaráð sem getur fundið farvegi inn í atvinnusköpun í gegnum ferðamennsku.
    Með þessu er ég að benda á það að þessi rannsóknasvið, húmanísk fræði og hagnýtar rannsóknir sem tengjast atvinnulífinu, geta orðið og eru í raun og veru mjög oft samtengd með slungnum hætti og það getur því háð rannsóknum að beina þeim mjög í tvær áttir í staðinn fyrir að hafa heildarsýn yfir þær.

    Frv. markar þá meginstefnu að sett er á stofn Vísinda- og tækniráð sem á að hafa heildaryfirsýn yfir þessum málaflokki en síðan er gert ráð fyrir því að tveir sjóðir, Vísindasjóður og Tæknisjóður, starfi og að í tengslum við þá verði úthlutunarnefndir og fagráð sem sérhæfa sig hvor á sínu sviði. Í gær var talað um það, ég man ekki betur en það hafi verið hv. 15. þm. Reykv. sem gagnrýndi það að sjóðirnir væru ekki sameinaðir sem átti þá að hans mati að vera nánast útfærsla á því að sett væri á laggirnar Vísinda- og tækniráð. En þarna er um misskilning að ræða. Það er mjög brýnt að sjóðirnir séu aðskildir og fagvinnan sé aðskilin en Vísinda- og tækniráð hafi yfirsýn yfir allan málaflokkinn. ( KÁ: Af hverju er það svona mikilvægt?) Það er mikilvægt vegna þess að þessi rannsóknasvið eru aðgreind í raun og veru, en það er jafnframt nauðsynlegt að sá sem stýrir þessu í heild geti veitt stjórnvöldum ráðleggingar um það hvorn þáttinn, hvora sjóðstarfsemina, er rétt að efla hverju sinni því það getur verið mjög misjafnt eftir verkefnum. Þetta er einnig í tengslum við það að fagráðin þurfa að hafa einhvern fræðilegan grundvöll og þar af leiðandi tel ég einsýnt að það sé skynsamlegri lausn að fara þá leið að hafa sjóðina tvo með sín fagráð og úthlutunarnefndir en eitt Vísinda- og tækniráð yfir sjóðunum í heild. Að sjálfsögðu kæmi hitt til greina líka en ég held að það sé ekki eins góð hugmynd.
    Ég ætla að fara aðeins örfáum orðum við 1. umr. um fáein atriði þessa máls sem ég tel að mættu betur fara í frv. og þyrfti að skoða nánar.
    Fyrir það fyrsta þá er það meginatriði í öllu þessu máli að treysta samstarf stjórnvalda annars vegar, vísindamanna hins vegar og atvinnulífsins. Með þetta í huga held ég að sé rétt að líta á skipan Vísinda- og tækniráðs Íslands. Þar er gert ráð fyrir því að tillögur komi frá stofnunum á háskólastigi þar sem rannsóknir eru stundaðar, frá rannsóknastofnunum atvinnuveganna og í þriðja lagi tilnefnir ríkisstjórn fulltrúa í Vísinda- og tækniráð samkvæmt tillögu menntmrh., en menntmrh. skipar alla þá níu einstaklinga sem skipa eiga Vísinda- og tækniráð Íslands.
    Ég velti því fyrir mér hvort ekki sé skynsamlegt að íhuga gaumgæfilega hvort aðgangur atvinnulífsins að Vísinda- og tækniráði er nógu vel tryggður með þeim hætti sem hér er gert ráð fyrir. Auðvitað má segja sem svo að ríkisstjórnin hafi það í hendi sér að nota tilnefningar sínar til þess að styrkja tengsl atvinnulífsins við Vísinda- og tækniráð en ég verð þó að segja eins og er að við fyrstu sýn þá finnst mér að þarna sé hugsanlegt að aðgangur atvinnulífsins, sem á að vera eitt af grundvallaratriðunum í frv., sé ekki nógu augljós og það komi til greina að endurskoða þetta og vil vekja þá umræðu í þingsalnum við hæstv. menntmrh. hvort honum þætti ekki athugandi að hv. menntmn. skoðaði þetta alveg sérstaklega.
    Það mun einnig hafa komið fram í máli hv. 15. þm. Reykv. að hann spurðist fyrir um það hvort það væri mögulegt að tilnefningar ríkisstjórnar samkvæmt tillögum menntmrh. gerðu ráð fyrir því að nokkrir af þeim sem tilnefndir væru af háskólastiginu eða rannsóknastofnunum yrðu útilokaðir. Það er mér ekki áhyggjumál. Ég tel miklu eðlilegra að hafa áhyggjur af því með hvaða hætti atvinnulífið finnur sér farveg inn í Vísinda- og tækniráð.
    Þetta er eitt af aðalmálunum sem mig langaði til að impra á og vissulega undirstöðuatriði. En ég ætla að stikla á örfáum öðrum atriðum og eitt af þeim er grundvallaratriði. Ef litið er hér á III. kafla frv. um sjóðina í vörslu Vísinda- og tækniráðs og sérstaklega á Tæknisjóðinn, þá stendur þar í 11. gr., með leyfi virðulegs forseta:
    ,,Hlutverk Tæknisjóðs er að styrkja nýsköpun í íslensku atvinnulífi með því að efla tækniþekkingu, rannsóknir og þróunarstarf.``
    Ég lít ég svo á að þetta sé allt of þröngt vegna þess að hlutverk Tæknisjóðs er miklu víðtækara en að styrkja nýsköpun. Nýsköpun er aðeins hluti af því sem við getum kallað þróunarstarf. Hlutverk Tæknisjóðs er ekki síður að taka á málefnum þess atvinnulífs sem fyrir er og ýta undir þróunarstarf í því atvinnulífi án þess kannski að um beina nýsköpun sé að ræða heldur aðlögun að nýjum aðstæðum, og ýta undir að atvinnulífið taki breytingum miðað við ný viðhorf. Við skulum bara taka sem dæmi að sú breyting sem hefur orðið á umhverfi og kröfum til atvinnulífsins í tengslum við umhverfismál hefur kallað á heilmikið þróunarstarf sem er eðlilegt að Tæknisjóður styrki án þess að beinlínis sé um nýsköpun í atvinnulífinu að ræða.
    Þetta held ég að ætti að hafa í huga til þess að orðalagið í þessari grein sé í fullu samræmi við hlutverk sjóðsins og setji honum ekki þrengri skorður en ástæður eru til.
    Það sama kemur að sjálfsögðu fram í 13. gr. Þeir sem í úthlutunarnefnd eiga að sitja eiga að hafa víðtæka reynslu af rannsóknum og þróunarstarfi og þekkingu á nýsköpun í atvinnulífi. Þessir aðilar þurfa að sjálfsögðu að hafa þekkingu á nýsköpun í atvinnulífi en þeir þurfa fyrst og fremst að hafa grundvallarþekkingu á atvinnulífinu. Þetta tengist því fyrri athugasemd minni.
    Það er ein stutt athugasemd sem snertir ekki efnisatriði frv. en í 2. gr. er tekið fram í 7. tölul. að rannsóknir séu ekki gerðar af Vísinda- og tækniráði Íslands. Ég hefði álitið að svona setning ætti ekki þarna heima. Auðvitað er það augljóst mál að Vísinda- og tækniráð stundar ekki rannsóknir en það er svo augljóst atriði að það á ekki að standa í lögum. Ef farið er yfir hlutverk Vísinda- og tækniráðs, þá liggur í augum uppi að ráðið sjálft stundar ekki vísindastarfsemi og ekki ástæða til að telja upp í smáatriðum hverju það á ekki að sinna. Þar á meðal eru þessi verkefni sem eru rannsóknir. Þetta er það sem ég vildi flokka undir hortitti en þeir eru oft í frumvörpum en óvenjufáir í þessu frv.
    Ég vil sérstaklega fagna ákvæðinu í 16. gr., III. kafla, um rannsóknarnámssjóðinn. Sá sjóður, ef

hann nær að vinna samkvæmt eðlilegum lögmálum, getur orðið rannsóknastarfi á Íslandi mjög mikil lyftistöng. Það er svo að slíkir sjóðir gegna mjög mikilvægu hlutverki í rannsóknastarfi erlendis og sú skoðun hefur oft heyrst að mesta gerjunin í rannsóknastarfi víða erlendis sé einmitt í tengslum við sjóði af þessu tagi sem skila miklu inn í hið akademíska umhverfi og það næst oft með starfsemi svona sjóða ótrúlega mikill árangur fyrir lítinn tilkostnað. Þetta er því mjög gott ákvæði og eitt af því jákvæða sem hægt er að finna í frv.
    Ég ætla ekki að hafa þessi orð mín mikið lengri. Ég fagna því að þetta frv. er fram komið. Ég tel þá gagnrýni að frv. komi seint fram óréttmæta því að aðdragandi þess máls hefur verið langur og eðlilegur. Það grípur menn oft einhver óþolinmæði þegar um þetta er rætt. Menn gera sér ekki grein fyrir því hvert eðli málsins er og átta sig ekki á því hversu margra ráðlegginga þarf að leita víða. Ég held að þetta frv. hafi komið fram í eðlilegum farvegi. Ég minnist þess í þessu sambandi að sú nefnd sem ég hef veitt forstöðu, útvarpslaganefnd, hefur verið gagnrýnd fyrir það að gefa sér góðan tíma til að skoða sín mál. Það var að sjálfsögðu gert vegna þess að það þurfti að fara rækilega yfir málin. Það er miklu algengara hér að það sé flaustrað að málum en hitt að þau hafi eðlilegan og góðan aðdraganda.