Rannsóknarráð Íslands

112. fundur
Föstudaginn 18. mars 1994, kl. 10:53:42 (5302)


[10:53]
     Jóhannes Geir Sigurgeirsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Ég tel að í lokaorðum hv. 5. þm. Norðurl. e. hafi gætt nokkurs misskilnings. Það hefur engin gagnrýni komið á það frá þeim sem hér hafa talað, m.a. mér, og lagt áherslu á mikilvægi þessa máls, á að það sé vel unnið og það hefði átt að koma í einhverju flausturslegu formi inn í þingið. Gagnrýnin beinist að því að fyrir svona stórt mál er eðlilegt að Alþingi hafi góðan tíma til að fjalla um til þess að það fái góða meðferð. Eins og ég sagði í minni ræðu eru ekki nema örfáir dagar eftir af þinghaldi í vor og það eru ekki góð vinnubrögð að leggja fram svona stórt mál á síðustu dögum þingsins ef menn ætlast til að það sé afgreitt.
    Hins vegar ítreka ég það sem ég sagði í minni ræðu að þrátt fyrir að málið komi svona seint fram, þá legg ég áherslu á að menntmn. taki tíma til að skoða málið þannig að hægt verði að afgreiða það fyrir vorið því að ég tel það afar mikivægt einmitt á grunni þeirrar vinnu sem þarna hefur verið unnin að samfellan haldist.
    Það eru hins vegar ekki góð vinnubrögð að svona þurfi að gera og það hlýtur óhjákvæmilega að koma niður á öðru starfi hv. menntmn. ef hún ætlar sér á þeim fáu dögum sem eftir eru að taka þetta mál fyrir og afgreiða. En ég vil leggja á það áherslu að það verði reynt að vinna svo í þessu máli að hægt verði að afgreiða það.