Rannsóknarráð Íslands

112. fundur
Föstudaginn 18. mars 1994, kl. 11:01:59 (5309)


[11:01]
     Menntamálaráðherra (Ólafur G. Einarsson) :
    Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að þakka fyrir málefnalegar umræður og góðan stuðning við meginefni frv. og vilja hv. þm. sem hér hafa talað til þess að greiða fyrir framgangi málsins.
    Fyrst örfá orð um það hversu seint þetta mál er fram komið sem margir þingmenn hafa gert að umtalsefni. Það er vissulega rétt, eins og ég raunar sagði í stuttu andsvari í gær, en ég legg áherslu á það að þessi tími hefur verið notaður til þess að undirbúa málið rækilega. Og ég læt enn í ljós þá von að það nýtist í nefndarstarfi þingsins hversu vandlega málið hefur verið undirbúið. Það er vissulega rétt að það eru kannski ekki nema 20 vinnudagar eftir í þinginu en 6 vikur lifa til þingfrestunar og ég vona að þær verði nýttar vel.
    Mér er að að vísu ekki kunnugt um hversu mörg mál eru til meðferðar í hv. menntmn. en ekki hef ég íþyngt nefndinni með of mikilli vinnu. Þar eru ekki mörg frumvörp frá mér en nokkur eru að vísu í vændum.
    Hv. þm. Svavar Gestsson sagð í ræðu sinni í gær að það væri ekki til fyrirmyndar að ný ríkisstjórn hafnaði yfirleitt stefnumótun fyrri ríkisstjórnar og nefndi vísindamálin sem dæmi. Það kann að virðast svo að því ágæta starfi sem unnið var af Vísindaráði og Rannsóknaráði að stefnumótun í tíð fyrrv. menntmrh. hafi verið varpað fyrir róða, en við nánari athugun er þó augljóst að svo er alls ekki. Það er

jafnan samfella í starfi ráðuneytisins að þessum málum sem mörgum öðrum og þó einhverjar áherslubreytingar verði í útfærslum, þá skilar þetta starf sér beint inn í starfsemi þeirra stofnana sem í hlut eiga. Það er mikilvægt að byggja á þeim verkum sem unnin hafa verið.
    Hv. 9. þm. Reykv. benti á það í umræðum um frv. í gær að rauði þráðurinn í þeirri stefnumótun sem unnin var í hans tíð í menntmrn. hafi verið að það skyldi auka fjárveitingar til vísinda- og tæknistarfseminnar og mér er ljúft að staðfesta að þessari stefnu hefur einmitt verið fylgt áfram. Ég rakti það raunar í nokkrum liðum í framsöguræðu minni í gær og vænti þess að hv. þm. geti einnig fallist á það að aukið fjármagn eitt og sér er svo sem ekki lausn allra mála. Það skiptir verulegu máli að nýta sem best það takmarkaða fjármagn sem unnt er að veita til þessarar starfsemi. Einn rauðu þráðanna í þessu frv. er einmitt að vanda enn betur en áður til ákvarðana um hvernig þessu fé skuli varið. Ég er honum hjartanlega sammála um að það þurfi að auka það fjármagn sem varið er til þessarar starfsemi.
    Í máli nokkurra þingmanna í gær komu fram efasemdir um það að hlutur grunnrannsókna væri nægilega tryggður. Þessu svaraði raunar hv. 6. þm. Norðurl. e., Jóhannes Geir Sigurgeirsson, í umræðunum í gær. Það skiptir mestu máli að aðgreiningin milli grunnrannsókna og hagnýtra rannsókna á ekki lengur við í þeim mæli sem fyrr var álitið. Áhersla á hagnýtingu felur jafnframt í sér að grunnvísindum er sinnt vegna þess að í sífellt vaxandi mæli háttar þannig til að ný þekking er tekin til hagnýtingar.
    Nokkrir hv. þm. töldu að það vantaði stefnumörkun í þetta frv. um fjármögnunina. Ég tel það ekki réttmæta gagnrýni. Í stefnumótun ríkisstjórnarinnar um vísindastefnu er einmitt lögð höfuðáhersla á það að aukið fjármagn verði veitt til vísindastarfseminnar. En það fer að sjálfsögðu eftir fjárlögum hverju sinni og ákvörðun þingsins árlega hvaða fé er veitt til þessara málaflokka. Ég bendi á í þessu samhengi að í frv. er gert ráð fyrir þriggja ára áætlunum um fjárframlög.
    Ég rifja einnig upp hvað gert hefur verið án þess að ég ætli að fara út í það í smáatriðum á tíma þessarar ríkisstjórnar. Ég rifja það enn upp að Rannsóknasjóður hefur verið nær tvöfaldaður frá árinu 1992. Rannsóknanámssjóður hefur verið stofnaður og varið til hans 33 millj. kr. og fleira mætti nefna. Í vændum er frv. sem kveður á um hækkun framlaga til Vísindasjóðs og ég trúi því að það muni ná fram að ganga.
    Nokkrir þingmenn hafa einnig gert að umtalsefni 3. gr. frv. þar sem kveðið er á um hvernig skipa skuli í Vísinda- og tækniráð. Mönnum þykir það nokkuð flókið. Einnig nefndi hv. þm. Svavar Gestsson að það ætti ekki við það sem segir í c-liðnum að þrír skuli tilnefndir af ríkisstjórn samkvæmt tillögum menntmrh. Hv. þm. tiltók þar að ríkisstjórn væri ekki fjölskipað stjórnvald. Það er vissulega rétt. Ríkisstjórnin er ekki fjölskipað stjórnvald en þarna er ekki verið að gera annað en leita staðfestingar ríkisstjórnar á tillögu menntmrh.
    Það má vissulega til sanns vegar færa að val ráðherra sé ekki létt að velja úr þeim hópi sem tilnefndur er, en ég held að það megi fullyrða að ráðherra standi eingöngu frammi fyrir góðum kostum þegar hann er að velja úr hópi þeirra sem tilnefndir eru. Ég held að sú aðferð sem þarna er lögð til veki meiri athygli og umræðu um hæfni einstaklinganna. Þetta skýrði raunar hv. þm. Jóhannes Geir Sigurgeirsson ágætlega í athyglisverðri ræðu sinni í gær.
    Þá var spurt í umræðunum í gær, ég held af hv. þm. Svavari Gestssyni, hvað yrði um núv. starfsmenn Rannsóknaráðs og Vísindaráðs, en um það er ekki sérstaklega getið í frv. Í frv. er gert ráð fyrir að viðfangsefnum hins nýja ráðs fjölgi ef eitthvað er og í umsögn fjárlagaskrifstofu, sem er fylgiskjal með frv., segir svo, með leyfi hæstv. forseta: ,,Í greinargerð frumvarpsins er ekki gert ráð fyrir að starfsmönnum fækki heldur að þeim fjölgi og er þar tekið mið af hlutverki ráðsins samkvæmt þessu frumvarpi.``
    Það hefur glögglega komið fram í umræðunum hér að verkefnin sem hinu nýja ráði eru ætluð eru ærin og má ljóst vera að það verður ekki hægt að vinna þau verk með færri starfsmönnum heldur en nú eru í þjónustu ráðanna beggja. Hins vegar hefur svo sem heldur ekki verið tekin nein ákvörðun um fjölgun þeirra. Óskir þar að lútandi hlytu að koma frá ráðinu sjálfu þegar nánar hefur verið ráðið um innra skipulag í starfsemi þess.
    Sannleikurinn er nú sá að það eru ekki margir starfsmenn hjá þessum tveimur ráðum. Ef ég man rétt þá eru þeir sjö hjá Rannsóknaráði og tveir hjá Vísindaráði. Nokkuð hefur verið rætt líka um nafnið á hinu nýja ráði, Vísinda- og tækniráð Íslands. Ég legg áherslu á að nafnið er í sjálfu sér ekki aðalatriði í mínum huga og sjálfsagt að athuga hvort eitthvað annað nafn kunni að henta betur. Þar hafa menn nefnt bæði Vísindaráð og Rannsóknaráð og mér finnst eðlilegt að hv. menntmn. athugi það sérstaklega.
    Sameining sjóðanna kom einnig til umræðu hér í gær, a.m.k. tveir hv. þm. nefndu hvort ekki hefði verið réttara að sameina sjóðina líka. Í undirbúningi að þessu frv. kom sú hugmynd vissulega fram, að það ætti að sameina Vísindasjóð og Rannsóknasjóð, en þetta varð nú ofan á að láta duga í þessum áfanga að sameina ráðin tvö, en sameina ekki sjóðina að svo komnu máli. Vel má vera að mönnum sýnist rök síðar hníga í þá átt að þá eigi að sameina.
    Um úthlutunarnefndirnar skal ég ekki hafa mörg orð. Það var spurt hvaða sjónarmið ættu að ráða við úthlutunina. Í frv. er gert ráð fyrir að úthlutunarnefndir hafi það verkefni að velja milli umsókna sem uppfylla skilyrði sem gerð eru til styrkhæfra verkefna að mati fagráðanna. Ég veit að það hafa komið fram athugasemdir um úthlutunarnefndirnar og ég tel mjög eðlilegt að hv. mennrmn. athugi þetta mál einnig þótt ég telji að þarna sé um góða skipan og skynsamlega að ræða.

    Þá var einnig spurt í gær, ég held að það hafi verið hv. þm. Kristín Ástgeirsdóttir sem var að tala um stöðu rannsóknaprófessoranna, hvort ekki væri nær að háskólinn eða háskólarnir hefðu þessar stöður og sæju alfarið um þær. Eins og segir í greinargerð með frv. þá er þeim sem skipa stöðu rannsóknaprófessora einungis ætlað að sinna rannsóknum. Þeim er ætlað að byggja upp starfsemi á mikilvægum sviðum. Sum þessara sviða hljóta að vera háskólasvið í hefðbundnum skilningi, en önnur kunna að falla betur að verkefnum sem unnin eru af öðrum, annaðhvort á stofnunum eða jafnvel hjá fyrirtækjum. Fyrir nokkrum árum veitti Íslenska járnblendifélagið Háskóla Íslands styrk, ef svo má segja, til tímabundinnar prófessorsstöðu í efnistækni. Þetta starf hefur áreiðanlega skilað háskólanum miklum árangri ekki síður en fyrirtækinu sem lagði fjármunina fram. Þetta dæmi sýnir okkur að viðfangsefni rannsóknaprófessora geta ekki síður orðið til í atvinnulífinu en í háskólaumhverfinu.
    Hv. þm. Kristín Ástgeirsdóttir nefndi líka í þessu samhengi að ekkert styrkjakerfi væri hjá okkur og nefndi þar Lánasjóð íslenskra námsmanna til sögunnar. Hér er vissulega stigið fyrsta skrefið, en ég vil geta þess að það hefur verið rætt á vettvangi lánasjóðsins að taka þar upp styrkjakerfi. Í eina tíð ræddu menn að það kynni að eiga heima hjá Vísindasjóði, en úr því hefur ekki orðið.
    Hv. þm. Jóhannes Geir Sigurgeirsson spurði hvaða eftirlit hefði verið haft með nýtingu fjármagns sem farið hefur til rannsókna. Því er til að svara að til skamms tíma hefur það eftirlit verið næsta lítið, en sl. áratug hefur þetta þó verið að færast í betra horf. Það er eðlilegt að þeir sem njóta styrkja af opinberu fé finni að það sé fylgst með því hvernig það fé nýtist. Sú breyting er einnig að verða að nú er lögð meiri áhersla á að spyrja þess hvað kemur út úr því sem unnið er fyrir fjármagn sem varið er til rannsókna. Þetta er breyting frá því sem var þegar öll áhersla var lögð á að skoða og meta hvað þyrfti til að vinna það verkefni sem sótt var um fjármuni til að vinna.
    Hv. þm. Kristín Einarsdóttir spurði hvort menntmrh. gæti tilnefnt í ráðið einhvern þeirra sem tilnefndir hefðu verið af öðrum. Því er til að svara að að sjálfsögðu getur ráðherra valið úr þeim hópi þá sem honum ber að tilnefna. En ég geri ráð fyrir að hann muni gæta þess sem best hann getur að jafnvægis sé gætt milli greina og að atvinnulífið eigi fulltrúa í Vísindaráði.
    Ég sé að tími minn er að hlaupa frá mér. Hv. þm. Svavar Gestsson spurði hver væru forgangsmál mín nú á þessu þingi. Því er til að svara að það er að sjálfsögðu þetta frv., það er frv. um Þjóðarbókhlöðu og fleiri mál. Á dagskrá í dag er Þjóðminjasafnið sem ég legg auðvitað áherslu á að nái fram að ganga, en fleiri mál eru svo í meðförum. Kennaraháskólinn er í meðförum hv. þingnefndar og nokkur fleiri mál munu verða lögð fyrir sem ég geri mér þó ekki sérstakar vonir um að nái fram að ganga núna.