Rannsóknarráð Íslands

112. fundur
Föstudaginn 18. mars 1994, kl. 11:20:14 (5311)


[11:20]
     Kristín Ástgeirsdóttir (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Mér fannst hæstv. menntmrh. ekki svara þeim vangaveltum eða koma með sínar hugmyndir varðandi þessar rannsóknastöður sem getið er um í 22. gr. Hann nefndi dæmi um að fyrirtæki hefði komið slíkri stöðu á fót og í sjálfu sér er ekkert nema gott um það að segja. Það er auðvitað

gert í samstarfi við viðkomandi skóla. En það sem hér er um að ræða er að í þessum lögum er verið að gefa menntmrh. heimild í samráði við mennta- og rannsóknastofnarnir til að setja á stofn slíkar stöður. Væntanlega yrði það þannig í framkvæmdinni að menn færu þess á leit við hæstv. menntmrh. að hann kæmi slíkri stöðu á fót, þó auðvitað gæti hann líka tekið það upp hjá sjálfum sér að búa til slíka stöðu, eins og dæmi eru um frá fyrri árum og ég nefndi í umræðunni í gær.
    Ég er einfaldlega að velta því fyrir mér hvort það sé rétt að hafa þetta með þessum hætti. Hvort það væri ekki nær að háskólastofnanir hafi heimildir til að setja slíkar stöður á fót og jafnframt að skólunum sé heimil samvinna við fyrirtæki í þeim efnum. Ég sé í sjálfu sér enga ástæðu til að menntmrh. hafi þetta vald og reyndar er það spurning hvort þessi heimild eigi yfir höfuð heima í þessum lögum. Þetta kemur Vísinda- og tækniráði ekki beint við. Þarna er bara verið að veita þessa heimild til menntmrh. og ég hef vissar efasemdir um það hvort þetta fyrirkomulag sé rétt.