Rannsóknarráð Íslands

112. fundur
Föstudaginn 18. mars 1994, kl. 11:38:29 (5318)


[11:38]
     Svavar Gestsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Varðandi sjóðina fjóra þá ætla ég ekkert að segja meira en það að ég mun fara fram á það við formann menntmn. að Ríkisendurskoðun verði kölluð á vettvang til að fara yfir þetta mál eins og það lítur út. Athugasemd mín laut bara að því að ég vil að það sé tryggilega um hnútana búið varðandi mál af þessu tagi, að lagareglur séu skýrar og framkvæmd sé skýr.
    Varðandi 22. gr. þá stendur hér:
    ,,Menntamálaráðherra er heimilt í samráði við mennta- og rannsóknastofnanir að setja á stofn tímabundnar stöður prófessora sem sinni rannsóknum á sviðum sem eru talin sérstaklega mikilvæg.``
    Ég sé ekki betur en að samkvæmt orðanna hljóðan hér þá geti menntmrh. nánast valið hvern sem er. ( Gripið fram í: Í samráði við . . .  ) Í samráði við stofnanirnar. En það stendur ekki hér að hann þurfi að hlíta samráðinu. Það er ástæðulaust að nefna jafnvilltar fantasíur og þær að ég stundi rannsóknir í læknisfræði. Það er jafnvel hægt að finna eitthvað sem er nær veruleikanum en það. Ég spyr: Er hugsunin sú t.d. að þessir prófessorar hljóti hæfnismat eftir hinu venjulega háskólakerfi? ( Menntmrh.: Já.) Ætti þá ekki að segja það, eða hvað, hæstv. ráðherra?