Landsbókasafn Íslands Háskólabókasafn

112. fundur
Föstudaginn 18. mars 1994, kl. 13:03:49 (5326)


[13:03]
     Menntamálaráðherra (Ólafur G. Einarsson) :
    Hæstv. forseti. Ég þakka fyrir mjög jákvæðar undirtektir við þetta frv. Ræður hv. þm. hafa sannfært mig um að frv. mun hljóta afgreiðslu á vorþinginu sem nauðsynlegt líka er.
    Aðeins örfá atriði sem ég þarf að nefna og komið hafa fram í máli hv. þm. sem hér hafa talað, sumt beinar fyrirspurnir til mín sem ég skal reyna að svara.
    Hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir talaði um varðveislusöfn og hvort varðveislueintökin eigi að fara í Þjóðarbókhlöðuna. Í því samhengi talaði hv. þm. um að það væri kannski vafasamt að setja allar bækur í eina byggingu. Nú eru þessi skyldueintök auðvitað í söfnunum sjálfum og stendur svo sem ekki til að breyta neinu þar um. Ég veit ekki hvort hv. þm. er kannski að hugsa um nýtingu Safnahússins sem þingmaðurinn hefur borið fram fyrirspurn um og við komum til með að ræða síðar.
    Hv. þm. Svavar Gestsson kom aðeins inn á hinn sérstaka eignarskatt sem rennur nú í endurbótasjóð og var að velta fyrir sér hvaða forgangsröð skyldi gilda þegar þessir fjármunir renna ekki lengur til Þjóðarbókhlöðu. Að vísu er það svo að nokkur hluti teknanna í endurbótasjóð sem falla til á næsta ári, 1995, fara til þess að greiða síðustu greiðslurnar vegna Þjóðarbókhlöðunnar en síðan er það stjórnar endurbótasjóðs að koma með tillögur um það hvernig fjármunum skuli varið. Þar er vissulega margt verkið óunnið og ég ætla ekki á þessu stigi að fara að velta vöngum yfir því hvernig þeim peningum verður varið. Hugmyndir hv. þm. um að tekjur endurbótasjóðs rynnu á næsta ári, 1995, til þess að bæta gagnagrunn hljóðbókasafnsins og bókaeign er út af fyrir sig athyglisverð en kallar þá á lagabreytingu ef inn á þá braut ætti að fara.
    Hér hefur nafnið þjóðarbókhlaða nokkuð borið á góma og sýnist sitt hverjum eins og við mátti búast. Ég ætla ekki að ræða það neitt frekar. Ef mönnum sýnist ástæða til að breyta þessu frá því sem er í frv., þá tek ég undir með hv. þm. Svavari Gestssyni að það þarf að ræða það við þá aðila sem hafa komið þarna að verki. Ég veit að þeir eru ekki allir sammála því sem hér er sett fram. Ég hef fengið aðrar hugmyndir en þær sem komu frá samstarfsnefndinni og þeim sem sömdu frv., þar á meðal frá einum ágætum manni sem leggur áherslu á að þetta safn skuli heita Landsbókasafn áfram. Menn verða trúlega aldrei á eitt sáttir um þetta en sjálfsagt er að kanna það betur.
    Ég ætla ekki að fara í gegnum alla þá þætti sem hv. þm. Svavar Gestsson nefndi. Það voru mörg atriði sem gefa svo sem ekki sérstaklega tilefni til athugasemda. Það er sjálfsagt að nefndin taki þó það til athugunar sem hv. þm. kom inn á eins og í 2. gr. hvort til greina komi að stjórnin kjósi sér formann en ekki að ráðherra skipi hann. Það kemur að sjálfsögðu til greina og er í sumum lagabálkum þannig kveðið á um að stjórnir eða nefndir kjósi sér sjálfar formann þótt ráðherra tilnefni kannski einhverja í viðkomandi stjórnir. Ég nefni þar t.d. skólanefndirnar sem kjósa sér sjálfar formenn.
    Um hæfiskröfurnar ætla ég ekki að ræða sérstaklega. Mér finnst það liggja í augum uppi að stjórn Þjóðarbókhlöðunnar muni gera ákveðnar kröfur og tillögur til menntmrh. um hver skuli skipaður þjóðbókavörður þurfa að vera rökstuddar frá stjórninni. Mér finnst það liggja í augum uppi að þar verði gerðar ákveðnar kröfur þótt þeirra sé ekki getið í frv.
    Um samspil deildanna í bókasafninu get ég svo sem ekki sagt mikið. Ég vísa til umsagnar um 5. gr en þar segir um deildaskiptinguna að hún skuli frekar ákveðin í reglugerð.
    Um upptalninguna í 7. gr. sem er í 18 liðum. Um það var vissulega rætt við endanlega gerð frv. hvort upptalningin ætti að vera svo ítarleg og þó tekið fram að hún væri ekki endanleg. Þess vegna endar greinin á þessum orðum: ,,Kveðið skal nánar á um hlutverk bókasafnsins í reglugerð``. Ég held að það skaði ekki út af fyrir sig að hafa upptalninguna þó þetta ítarlega.

    Um þjónustugjöldin sem hv. þm. nefndi hef ég svo sem heldur ekkert að segja. Þau eru eðlileg þykir mér. Það segir svo í umsögn um 10. gr. að bókasafninu sé veitt heimild til að taka þjónustugjöld fyrir ákveðna þætti þeirrar þjónustu sem veitt er, svo sem millisafnalán, tölvuleitir, sérfræðilega heimildaþjónustu, fjölföldun, úttak tölvugagna og fleira. Um þetta yrði svo sett gjaldskrá sem stjórn safnsins mundi samþykkja og þar yrði kveðið á um fjárhæð þjónustugjaldanna sem greiða skal fyrir veitta þjónustu. Mér þykir þetta eðlilegt.
    Um það hvort 6% af rekstrarkostnaði háskólans féllu til Þjóðbókasafnsins frá háskólanum er það að segja að á einu stigi málsins var það sett inn í greinina en fallið frá því. Hins vegar hefur háskólinn sjálfur sett sér það markmið að 6% skuli renna til Háskólabókasafns og um þetta verður einfaldlega að semja við háskólann og ég held að það sé réttara en að vera að festa einhverja ákveðna prósentu í lög.
    Varðandi sérsöfnin sem hér var sérstaklega spurt um þá liggur í augum uppi að handritasafn Halldórs Laxness, sem gefið var Landsbókasafninu, flyst auðvitað til þjóðbókasafnsins og ég þykist vita það með fullri vissu að þegar hefur verið gengið frá því að kvennasögusafnið, sem var spurt um, fari til þjóðbókasafnsins.
    Hv. þm. Svavar Gestsson spurði hvort ekki væri unnt að aðstoða Amtsbókasafnið á Akureyri sérstaklega vegna þess að Amtsbókasafnið tekur við skilaeintökum og er, eins og hv. þm. sagði, í orðsins fyllstu merkingu að sligast undan bókakostinum. Það er einmitt svo. Þar eru gólfin farin að síga. Menntmrn. hefur veitt Amtsbókasafninu sérstaka fjárveitingu, það er ekki á sérstöku fjárlaganúmeri. Á síðasta ári voru það 1,2 millj. og ég geri ráð fyrir að það verði framhald á því að menntmrn. veiti Amtsbókasafninu stuðning.
    Um Safnahúsið sjálft ætla ég ekki að ræða núna. Við fáum tækifæri til þess vonandi fyrr en síðar. Hér hafa komið bæði fyrirspurnir í þinginu og tillaga um nýtingu þess. Það er mál sem ég er alveg sammála að þarf að taka ákvörðun um fyrr en síðar og mjög eðlilegt að sú ákvörðun verði samhliða því að Landsbókasafnið flytji þaðan út. Það eru margar tillögur á lofti og í menntmrn. eru til ýmis gögn varðandi framtíðarnotkun Safnahússins og hugmyndir um notkun þess. Þar hafa ýmsir ágætir menn komið að verki á undangengnum árum þannig að menn eru svo sem ekkert að vakna upp núna við það hvað eigi að gera við Safnahúsið en endanleg ákvörðun hefur ekki verið tekin og mér þykir líklegt og raunar víst að það mál verði tekið til sérstakrar athugunar alveg á næstunni.
    Ég hef áður og á öðrum vettvangi tjáð mig um og ég held að það mál sé endanlega úr sögunni að Hæstiréttur fari þarna inn. Það var sett í það sérstök nefnd ráðuneytisstjóra fyrir tveimur árum að kanna hvort svo gæti orðið. Fulltrúi minn í þeirri nefnd lagðist gegn því og það var að sjálfsögðu með mínum vilja og ég tel og vona að það mál sé endanlega afgreitt.
    Hv. þm. Kristín Ástgeirsdóttir velti því nokkuð fyrir sér hvers konar stofnun yrði hér um að ræða. Þetta er jú háskólastofnun eins og segir í frv. en hún er þó með nokkuð sérstökum hætti og það er ástæðan fyrir því að um skipan þjóðbókavarðar fer líka með nokkuð öðrum hætti en starfsmenn háskólans. Þó þetta sé háskólastofnun þá er þetta ekki nein einkaeign háskólans, ef ég má svo að orði kveða. Það er því rétt hjá hv. þm. að þetta er með nokkuð sérstökum brag.
    Það má líka vissulega orða það eins og hv. þm. Kristín Ástgeirsdóttir gerði að það er ósamræmi í reglum um skipan í ýmsar stöður og embætti. Ég er ekki viss um að það sé rétt eða eðlilegt að setja einhverja eina reglu um það að embættismenn í einstaka stofnunum skuli skipaðir til jafnlangs tíma. Mér heyrðist hv. þm. velta því líka fyrir sér að það væri svo sem ekki víst að það væri rétt. Ég veit t.d. að við undirbúning nýrra laga um framhaldsskóla hefur það komið upp að skólameistarar skuli skipaðir til takmarkaðs tíma. Ég hef ákveðnar efasemdir um að það sé rétt en ég hef ekki efasemdir um að það sé rétt að skipa t.d. þjóðleikhússtjóra, sem var nefnt hér, til takmarkaðs tíma. En eins og ég segi er sjálfsagt að ræða þetta og alltaf spurning til hve langs tíma eigi að skipa.
    Það hefur verið nefnt hvort geyma eigi í þjóðbókasafni hljóðrit. Það er gert ráð fyrir því einmitt í 7. gr. að svo verði gert.
    Hv. þm. Guðrún Helgadóttir nefndi hvort ekki mætti fella brott úr 4. gr. þar sem talað er um að heimilt sé að endurskipa aðstoðarþjóðbókavörð og þjóðbókavörð einu sinni án þess að staðan sé auglýst. Það skiptir kannski ekki máli hvort þetta stendur þarna inni. Það hefur verið svo í einstaka stöðum þar sem ráðið er til takmarkaðs tíma að ef stjórnin hefur ekki óskað eftir að starfið yrði auglýst þá hefur verið endurskipað og talið heimilt. Ég nefni þar t.d. forstöðumann Listasafns Íslands sem er ráðinn til takmarkaðs tíma.
    Mér er ekki kunnugt um að það hafi orðið sérstakur dráttur á útboðum varðandi hillubúnað í Þjóðarbókhlöðuna nema þá vegna þess að ég hef lagt sérstaka áherslu á að innlendir framleiðendur komi þar að verki ef mögulegt er. Það kostaði sérstakan undirbúning sem ég veit ekki betur en hafi þó ekki tafið málið meira en svo að ekki sé hætta á að það verk dragist úr hömlu.