Fjáraukalög 1991

112. fundur
Föstudaginn 18. mars 1994, kl. 14:17:51 (5333)




[14:17]
     Svavar Gestsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Mér þykir vænt um að þeir, ráðuneytisstjórinn og ,,óskar nafnleyndar``, hafi komist að sameiginlegri niðurstöðu áður en þeir fara yfir í Seðlabankann þar sem þá langar til að vinna. En ég trúi hins vegar ekki, hæstv. ráðherra, að ríkisendurskoðandi hafi hvatt til lögbrota. Hæstv. ráðherra orðaði það þannig að hann ásamt ríkisendurskoðanda og ráðuneytisstjóranum í fjmrh. hefðu verið þeirrar skoðunar að best væri að Alþingi afgreiddi málið einhvern veginn. Ef það er niðurstaða þeirra og að það sé best að gera það á grundvelli þess sem meiri hlutinn leggur til er meiri hluti Alþingis að leggja blessun sína yfir lögbrot.
    Ég get svo sem trúað ýmsu upp á hæstv. fjmrh., en ég trúi því ekki að ríkisendurskoðandi leggi það til að lögin verði brotin með þeim hætti sem hann telur þessa færsluaðferð vera. Hann er þá ekki mjög sjálfum sér samkvæmur, ríkisendurskoðandi, verð ég að segja, ef þetta er rétt eftir honum haft.