Fjáraukalög 1992

112. fundur
Föstudaginn 18. mars 1994, kl. 14:26:20 (5338)


[14:26]
     Frsm. minni hluta fjárln. (Jóna Valgerður Kristjánsdóttir) :
    Virðulegi forseti. Þetta frv. til fjáraukalaga fyrir árið 1992 endurspeglar áfram sama ágreiningsmálið sem hér hefur verið uppi. Ég geri hér grein fyrir nál. minni hluta fjárln. um frv. á þskj. 706.
    Frv. þetta er annað fjáraukalagafrumvarpið fyrir árið 1992 sem lagt er fyrir Alþingi til samþykktar á umframgreiðslum úr ríkissjóði frá heimildum fjárlaga 1992. Alþingi samþykkti fyrri fjáraukalög í desember 1992, lög nr. 118/1992, sem fólu í sér auknar greiðsluheimildir. Þar var gert ráð fyrir að halli fjárlaga 1992 yrði alls 10,058 milljarðar kr. Með þessu frv. er sótt um endanlegar greiðsluheimildir ríkissjóðs á árinu 1992.
    Það kemur í ljós í þessu frv. að það frv. til fjáraukalaga 1992, sem samþykkt var í desember 1992, er talsvert langt frá raunveruleikanum. Þannig eru greiðslur nú tæpum 2,5 milljörðum kr. lægri en lög nr. 118/1992 gerðu ráð fyrir og tekjur, sem höfðu verið lækkaðar um 2,4 milljarða kr. með þeim sömu lögum, eru nú hækkaðar um 400 millj. kr. Rekstrarhalli ríkissjóðs var því aukinn með fyrri fjáraukalögum 1992 um tæpa 6 milljarða kr. en er nú lækkaður aftur um tæpa 3 milljarða kr. Er það vægast sagt lítt traustvekjandi að svo miklu geti munað á fjáraukalögum sem samþykkt eru í desember 1992 og raunverulegu uppgjöri nokkrum dögum síðar.
    Minni hlutinn telur að með þessu frv. sé það staðfest að ríkisstjórnin hefur engan veginn náð þeim markmiðum sem hún setti sér við gerð fjárlaga 1992. Halli ríkissjóðs árið 1992 tvöfaldast frá því sem fjárlög gerðu ráð fyrir. Minni hlutinn vísar til nál. síns með fyrra fjáraukalagafrumvarpi fyrir árið 1992 á þskj. 407 á 116. löggjafarþingi því til staðfestingar.
    Enn er uppi sama staða og var um afgreiðslu fjáraukalaga 1991, þ.e. hvernig færa skuli skuldbindingar ríkissjóðs fyrir árið 1992. Ríkisreikningsnefnd, sem hefur á síðustu missirum verið að endurskoða lög um ríkisbókhald og gerð fjárlaga, hefur ekki enn skilað áliti þegar þetta er ritað.
    Samkvæmt framansögðu mun minni hlutinn sitja hjá við lokaafgreiðslu frv.
    Undir þetta rita ásamt mér hv. þm. Guðmundur Bjarnason, Guðrún Helgadóttir, Margrét Frímannsdóttir og Jón Kristjánsson.
    Um þetta frv. ætla ég ekki að fara mörgum orðum frekar en hið fyrra. Ég tel að hér sé búið að ræða mjög mikið um þetta mál og ekki ástæða til að lengja það mikið. Mér finnst þó ástæða til að nefna eitt atriði til viðbótar því sem áður hefur komið fram. Í sambandi við skýrslu Ríkisendurskoðunar um framkvæmd fjárlaga frá 1992 var gerð grein fyrir því þegar farið var yfir fjármagnsstreymi í A-hluta ríkissjóðs að í febrúar 1992 tók ríkissjóður erlent lán að fjárhæð 5,6 milljarðar kr. sem var ráðstafað til greiðslu á yfirdráttarskuld ríkissjóðs í Seðlabankanum frá árinu 1991. Þessi lántaka er hins vegar ekki meðtalin í erlendum lántökum ríkissjóðs í yfirlitinu sem fylgir með fjárlögum og fjáraukalögum fyrir þetta ár. Má segja að það sé dálítið sérkennilegt hvernig yfirdráttarskuldin í Seðlabanka Íslands verður upp sett. Vextir af henni koma að fullu inn á árið 1991 sem viðbótargjöld á því ári en síðan er þetta lán tekið í febrúar 1992 og vextir af því koma að sjálfsögðu ekki inn á því ári. Þeir greiðast eftir á. Þannig er hægt að sýna fram á að vaxtagreiðslur til Seðlabanka Íslands vegna yfirdráttar á hlaupareikningi árið 1991, þegar stjórnarskipti voru eins og menn vita, hafi farið mjög úr böndunum eða orðið sem sagt 1,5 milljarðar kr. En á árinu 1992 lækka þessar vaxtagreiðslur mikið vegna þess að í febrúar er tekið lán til að standa straum af þessari yfirdráttarheimild og raunar setur ríkisstjórnin sér það markmið að vera ekki með yfirdráttarlán í Seðlabankanum heldur selja víxla fyrir því sem þarf að nota umfram það sem til er. Þar af leiðandi verða vaxtagreiðslur ríkissjóðs miklum mun lægri með þessari aðferð á árinu 1992 en þær voru á árinu 1991.
    Ég tel rétt að vekja hér athygli á þessu vegna þess að þetta er eitt atriði í því að lækka halla fjárlaga árið 1992 og er hann þó ærinn fyrir þar sem hann tvöfaldast frá fjárlögum.
    Eins og ég sagði áðan, þá sýnist okkur að hér sé enn verið að reyna að ljúka fjáraukalagafrumvörpum án þess að menn séu sammála um hvernig það skuli gert. Jafnframt er verið ýmist að taka inn ýmsar skuldbindingar og lán eða gera það ekki. Við viljum ekki vinna að því að slíkt sé gert og munum þar af leiðandi sitja hjá við afgreiðslu þessa frv.