Sveitarstjórnarlög

112. fundur
Föstudaginn 18. mars 1994, kl. 14:45:27 (5341)

[14:45]
     Frsm. félmn. (Rannveig Guðmundsdóttir) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nál. á þskj. 768 frá félmn. um frv. til laga um breytingar á sveitarstjórnarlögum.
    Nefndin hefur fjallað um málið á tveimur þingum. Á 116. löggjafarþingi fékk nefndin á fund sinn Vilhjálm Vilhjálmsson, formann Sambands íslenskra sveitarfélaga. Þá bárust henni umsagnir frá hreppsnefndum Öxnadalshrepps, Tjörneshrepps, Hraungerðishrepps, Fellahrepps, Hofshrepps, Borgarhrepps, Stöðvarhrepps og Miklaholtshrepps, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, héraðsnefnd Mýrasýslu og héraðsnefnd Múlasýslna.
    Nefndin fellst á það meginatriði frv. að sveitarfélag verði ekki sameinað öðrum sveitarfélögum nema meiri hluti þeirra sem taka afstöðu til sameiningarinnar í atkvæðagreiðslu sé því samþykkur. Á hinn bóginn þykir rétt að fella brott þann þátt frv. sem gerir ráð fyrir að meiri hluti atkvæðisbærra íbúa þurfi að taka þátt í atkvæðagreiðslunni svo að hún sé gild, enda eru slík ákvæði ekki í lögum um kosningar til sveitarstjórna. Er þessi afgreiðsla í samræmi við álit Sambands íslenskra sveitarfélaga.
    Ákvæði núgildandi laga eru þannig að meiri hluti kjósenda á kjörskrá þarf að greiða atkvæði gegn tillögu um sameiningu til þess að hún teljist felld. Nefndin leggur til að frv. verði samþykkt með eftirfarandi breytingu: Orðin ,,enda hafi meiri hluti atkvæðisbærra íbúa tekið þátt í atkvæðagreiðslunni`` í 1. gr. falli brott.
    Lagagreinin eftir tillögu félmn. hljóðar þá svo:
    ,,Sveitarfélag verður eigi sameinað öðrum sveitarfélögum nema fleiri kjósendur í atkvæðagreiðslu skv. 108. gr. séu fylgjandi sameiningu en andvígir.``
    Undir nál. þetta rita allir fulltrúar félmn., Rannveig Guðmundsdóttir, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, Gísli S. Einarsson, Ingibjörg Pálmadóttir, Eggert Haukdal, Guðjón Guðmundsson, Einar K. Guðfinnsson, Kristinn H. Gunnarsson og Jón Kristjánsson.