Tekjuskattur og eignarskattur

112. fundur
Föstudaginn 18. mars 1994, kl. 15:01:41 (5345)

[15:01]

     Flm. (Tómas Ingi Olrich) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um breytingu á lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum. Meðflutningsmenn mínir að þessu frv., sem er 266. mál þingsins á þskj. 319, eru hv. þm. Einar K. Guðfinnsson Árni R. Árnason, Jóhannes Geir Sigurgeirsson og Ingi Björn Albertsson.
    Frv. er aðeins tvær greinar og tiltölulega einfalt að gerð. Það snertir 2. mgr. 112. gr. laganna og orðast svo:
    ,,Nú verður ljóst þegar álagningu skatta, annarra en tekjuskatts manna, lýkur að gjaldandi hefur greitt meira en endanlega álögðum sköttum nemur og skal þá endurgreiða það sem ofgreitt var ásamt vöxtum fyrir það tímabil sem féð var í vörslu ríkissjóðs. Skulu vextir þessir jafnháir vöxtum sem greiddir eru af almennum sparisjóðsinnstæðum í Landsbanka Íslands á hverjum tíma. Komi í ljós við endurákvörðun skatta samkvæmt úrskurði yfirskattanefndar eða samkvæmt niðurstöðu dómstóla að gjaldandi hafi greitt meira en endanlegri álagningu nemur skal endurgreiða það sem ofgreitt var ásamt vöxtum fyrir það tímabil sem féð var í vörslu ríkissjóðs. Skulu vextir þessir jafnháir vöxtum sem gjaldendum opinberra gjalda er gert að greiða skv. 3. málsl. 1. mgr. þessarar greinar. Sama gildir þegar í ljós kemur við endurákvörðun á tekjuskatti manna að um ofgreiðslu hafi verið að ræða að öðru leyti en því að inneignarvextir reiknast aldrei fyrr en frá 1. júlí á álagningarári.``
    Í greinargerð með frv. er þess getið að gjaldendum beri að greiða dráttarvexti af vangreiddum opinberum gjöldum, sbr. 1. mgr. 112. gr. laga um tekjuskatt og eignarskatt, en gjaldandi sem hefur greitt meira en sem nemur endanlega ákvörðuðum sköttum er hins vegar samkvæmt gildandi lögum bætt upp það tímabil sem fé hans var í vörslu ríkissjóðs með vöxtum sem miðaðir eru við vexti af almennum sparisjóðsinnstæðum í Landsbanka Íslands á hverjum tíma.
    Í þeim tilvikum þegar um ágreining um opinber gjöld er að ræða milli skattstjóra eða ríkisskattstjóra annars vegar og gjaldenda hins vegar má vísa honum til yfirskattanefndar eða dómstóla. Úrskurði yfirskattanefndar má einnig vísa til dómstóla. Viðbótarálagning skattstjóra eða ríkisskattstjóra á opinberum gjöldum fer þó til innheimtu áður en fjallað hefur verið um hann hjá yfirskattanefnd eða dómstólum. Getur af þessum sökum myndast verulegt misræmi í meðferð vangreiddra opinberra gjalda annars vegar og ofgreiddra opinberra gjalda hins vegar því að verði viðbótarálagning dæmd ólögmæt fær gjaldandi, sem greitt hefur álagninguna, jafnvel með dráttarvöxtum skv. 3. málsl. 1. mgr. 112. gr. ekki bætt það tjón sem hann varð fyrir vegna ólögmætrar álagningar þar sem hann fær aðeins almenna sparisjóðsvexti af því fé sem bundið hefur verið hjá ríkissjóði vegna álagningarinnar, auk þess sem hann kann að hafa orðið fyrir kostnaði af kæru málsins eða annarrar meðferðar þess.
    Ekki þykir fært að leiðrétta þetta misræmi með því að láta sömu reglur gilda almennt um vangreiðslur og ofgreiðslur á opinberum gjöldum þar sem hætta væri á að gjaldendur mynduðu hjá sér inneignir til að njóta slíkra vaxtakjara. Hins vegar er hér lagt til að sömu reglur gildi um vaxtagreiðslur af inneignum gjaldenda sem verða til við endurákvörðun áður ofálagðra gjalda vegna ólögmætrar álagningar eða viðbótarálagningar skattstjóra eða ríkisskattstjóra og vaxtatöku af vangreiddum opinberum gjöldum, en ekki í þeim tilvikum þegar inneign myndast af orsökum sem rekja má til gjaldenda sjálfra, svo sem mistaka þeirra við framtalsgerð.
    Virðulegi forseti. Hér er um að ræða mál sem er fyrst og fremst sjálfsagt réttlætismál. Ef þessi mál eru látin óhreyfð þá viðhelst óþolandi misræmi á milli vaxtagjalda sem greidd eru af vanáætluðum opinberum gjöldum og ofáætluðum opinberum gjöldum. Til að varpa nokkru ljósi á þetta mál ætla ég að vitna í raunverulegt dæmi sem er tekið úr viðskiptalífinu.
    Málavextir eru þeir í stuttu máli að við álagningu opinberra gjalda hjá ákveðnu fyrirtæki þann 31. júlí 1991 áætlaði skattstjóri í ákveðnu umdæmi á landinu gjöld á fyrirtæki sem búið var að sameina öðru og hafði ekki haft með höndum neinn rekstur á tekjuárinu 1990, enda hafði því verið slitið í byrjun þess árs. Það voru því ekki sjáanlegar neinar forsendur fyrir því að þessi álagning færi fram. Hin áætluðu gjöld námu 4.128.000 kr. Annars vegar skattar til ríkissjóðs 1.794.000 kr. og hins vegar aðstöðugjald til bæjarsjóðs 2.334.000 kr. Með því að setja tryggingar fyrir hinum áætluðu gjöldum tókst gjaldandanum að verjast innheimtuaðgerðum en dráttarvextir voru að sjálfsögðu reiknaðir í hverjum mánuði. Með úrskurði dagsettum 8. sept. 1993 komst yfirskattanefnd að þeirri niðurstöðu að álagning skattstjóra væri ekki á rökum reist og felldi hana niður með öllu og þá felldu innheimtumenn um leið niður dráttarvaxtakröfur sínar.
    Þegar úrskurðurinn féll höfðu innheimtumenn reiknað dráttarvexti á kröfuna og nam sú upphæð samtals rúmlega 1,6 millj. kr. Þá vaxtafjárhæð, 1 millj. og 600 þús. kr., hefði þessi gjaldandi þurft að greiða ef hann hefði tapað þessu máli. Ef hann hefði hins vegar greitt kröfuna á réttum tíma, eins og flestir verða að gera, þá hefði hann við úrskurð málsins verið búinn að eiga inni hjá ríkissjóði og bæjarsjóði rúmlega 4 milljónir í tvö ár en fyrir það hefðu þessir aðilar greitt honum í vexti 92.518 kr. Hér er því um vaxtamun að ræða sem er rúmlega sautjánfaldur þar sem bornar eru saman þær vaxtakröfur sem einstaklingar og lögaðilar fá vegna sinna inneigna hjá opinberum aðilum og svo hins vegar þær vaxtakröfur sem opinberir aðilar gera til einstaklinga og fyrirtækja vegna vangreiddra gjalda.
    Hér er ekki um tilbúið fræðilegt dæmi að ræða heldur raunverulegt dæmi. Þetta er ekkert einsdæmi heldur eru mörg tilvik sem varpa ljósi á það hversu óviðunandi mismunun á sér stað í þessu máli.

    Ég vil geta þess sérstaklega að þetta frv. er flutt með hliðsjón af skýrslu Félags löggiltra endurskoðenda sem var birt í nóvember 1993 en þar er sérstaklega fjallað um þetta vandamál.
    Virðulegi forseti. Ég tel að hér sé um að ræða til þess að gera einfalt leiðréttingarmál sem nauðsynlegt sé að taka á. Ég vil leggja til að að lokinni þessari umræðu verði málinu vísað til 2. umr. og hv. efh.- og viðskn.