Sala notaðra ökutækja

112. fundur
Föstudaginn 18. mars 1994, kl. 16:12:14 (5357)


[16:12]
     Viðskiptaráðherra (Sighvatur Björgvinsson) :
    Virðulegi forseti. Ég leyfi mér að mæla fyrir máli á þskj. 587 sem er frv. til laga um sölu notaðra ökutækja.
    Verslun með bifreiðar er þýðingarmikill þáttur í lífi þeirra sem nú byggja þetta land. Kostnaður við kaup og rekstur bifreiða er stór þáttur í útgjöldum þeirra þjóða sem hafa vélvætt samgöngur sínar í jafnríkum mæli og við höfum gert á Íslandi. Nú er talið að fimmtungur af útgjöldum íslensks meðalheimilis fari til þessara þarfa.
    Þegar menn eiga viðskipti með notaða bíla koma mjög oft upp deilumál eftir á. Iðulega telur kaupandi sig hlunnfarinn sökum þess að bíllinn sé ekki í því ástandi sem hann hefði mátt ætla þegar hann keypti hann. Dæmi eru um að slík mál endi hjá dómstólum en miklu oftar treystir kaupandinn sér ekki til slíkra aðgerða og situr eftir með sárt ennið.
    Það er því skiljanlegt að samtök neytenda og bifreiðaeigenda hafi lagt á það áherslu að settur verði öruggari lagarammi um viðskipti með bifreiðar hér á landi. Í viðskrn. hefur það mál verið til athugunar og liggur fyrir í frv. því sem hér er flutt.
    Við kaup á notuðum bílum þarf að huga að miklu fleira en bara verði. Það þarf að huga að væntanlegri endingu og rekstrarkostnaði, öryggisbúnaður allur þarf að standast kröfur og bifreiðin þarf að duga til þeirra nota sem hún er fyrst og fremst ætluð til. Bifreiðar byggja á flóknum tæknibúnaði og er því erfitt að meta gæði og ástand þeirra án sérfræðiþekkingar sérstaklega eftir að þær hafa verið í notkun í lengri eða skemmri tíma. Venjulegur neytandi býr ekki yfir slíkri sérfræðiþekkingu að geta dæmt um ástand bifreiðar. Þess vegna eru kaup á notuðum bíl áhættuviðskipti fyrir okkur flest. Einmitt þess vegna er mikilvægt að tryggja að kaupandi fái nauðsynlegar og réttar upplýsingar frá seljanda og þeim sem kemur fram sem meðalgöngumaður milli hans og kaupanda. Fyrir þurfa að liggja upplýsingar um ástand og fyrir notkun bifreiðarinnar, hvort hún hafi lent í alvarlegum umferðaróhöppum eða hvort búnaður hennar hefur á einhvern hátt verið vanræktur. Liggi slíkar upplýsingar ekki fyrir ber að geta þess sérstaklega við kaupin enda ætti það þá að endurspeglast í verði bifreiðarinnar.
    Kaupandinn verður að sjálfsögðu að kynna sér ástand bifreiðarinnar en andvirðið er vandasamt að meta án sérfræðiþekkingar, sérstaklega þegar upplýsingar, sem ég hef þegar nefnt, skortir.
    Í íslenskri löggjöf hefur lítið verið fjallað um starfsemi þeirra sem stunda viðskipti með notaðar bifreiðar. Í lögum um sölu notaðra lausafjármuna er þó að finna ákvæði um sölu notaðra bifreiða en þau eru mjög ófullkomin. Almenn ákvæði kaupalaga eiga að sjálfsögðu við um þessi viðskipti en meginvandi kaupandans er yfirleitt fólgin í sönnunarbyrðinni, þ.e. hvaða upplýsingar voru gefnar þegar kaupin áttu sér stað. Oft hefur verið rætt um það á undanförnum árum að besta lausnin væri að setja sérstök lög um viðskipti með bifreiðar sem gætu orðið bæði bifreiðasölum og viðskiptamönnum þeirra til hagsbóta og hefur sú lausn verið valin. Það er þó ekki í samræmi við það sem gert hefur verið á hinum Norðurlöndunum því yfirleitt er fjallað um réttindi og skyldur í bifreiðaviðskiptum í almennum lögum um neytendakaup fremur en í sérlögum um sölu bifreiða. Okkur þótti þó rétt að fara þá leiðina að þessu sinni að setja sérlög um verslun með notaðar bifreiðar.
    Þetta frv. sem hér er lagt fram skiptist í fjóra kafla. Í fyrsta lagi er það I. kafli þar sem rætt er um heimild til að hafa með höndum sölu á notuðum ökutækjum. Þar er rætt um að lögin taki til sölu á öllum notuðum skráningarskyldum ökutækjum öðrum en nauðungarsölu á notuðum bifreiðum.
    Í 2. og 3. gr. eru ákvæði um hvaða skilyrði sá sem reka vill verslun eða umboðssölu með notuð ökutæki skuli uppfylla.
    Í 3. gr. eru talin upp fimm skilyrði þar sem m.a. er gert ráð fyrir að bifreiðasali taki ábyrgðartryggingu frá viðurkenndu vátryggingafélagi, afli sér bankatryggingar og leggi fram aðrar tryggingar sem sýslumaður metur gildar þannig að hann geti bætt viðskiptamönnum tjón er kunna að verða af ásetningi eða gáleysi í reglum við sölu notaðra ökutækja.
    Einnig er í 5. tölul. 3. gr. gert ráð fyrir því að ökutækjasali þurfi að sækja námskeið og ljúka prófi samkvæmt prófkröfum sem settar verða í reglugerð sem ráðherra ákveði. Kostnaðinn skuli viðkomandi nemendur greiða með kennslu og prófgjöldum.
    Í II. kafla er rætt um réttindi og skyldur bifreiðasala sem fengið hefur til þess leyfi að stunda sölumennsku með notaðar bifreiðar og notuð ökutæki. Hann skal gæta þess að viðskiptamenn njóti jafnræðis um upplýsingar, verð og viðskiptakjör. Einnig skal hann gæta þess að aðila séu eigi settir ólögmætir, ósanngjarnir eða óeðlilegir skilmálar í samningum.
    Bifreiðasalinn eða sá sem með leyfið fer ber ábyrgð á verkum starfsmanna sinna við sölu ökutækja eins og hefði hann sjálfur framkvæmt þau. Bifreiðasali skal m.a. áður en kaupin eru gerð ganga frá afsali notaðs ökutækis, greina kaupanda frá þeim rétti hans að láta óháðan aðila meta ástand ökutækis, svo sem faggilta skoðunarstofu eða faggilt endurskoðunarverkstæði, en undir þeim kringumstæðum er að sjálfsögðu gert ráð fyrir því að bifreiðakaupin greiði þann kostnað sem af hlýst.
    Þá skal bifreiðasali annast gerð kaupsamnings, afsals og frágang annarra pappírsgagna, svo og ábyrgjast að tilkynning um eigendaskipti séu send ökutækjaskrá. Ef bifreiðasali, fyrirtæki sem hann starfar við eða aðrir starfsmenn hans hafa til sölu notað ökutæki sem þeir eiga sjálfir eða er í eigu náinna ættingja þá skal það ávallt koma fram í viðskiptunum þannig að það liggi ljóst fyrir hvort sá sem kaupir er að kaupa eign bifreiðasalans, starfsmanna hans eða venslamanna eða eign þriðja aðila.
    Þá er gert ráð fyrir því í ákvæði til bráðabirgða að þeir sem stunda sölu notaðra ökutækja við gildistöku laga þessara, ef samþykkt verða, skuli sækja um leyfi til sýslumanns innan sex mánaða frá gildistöku laganna en að níu mánuðum liðnum frá gildistöku laganna sé þeim óheimilt að stunda sölu notaðra ökutækja í atvinnuskyni hafi þeir ekki aflað sér tilskilinna leyfa og þar á meðal gengið undir þau próf sem lögin gera ráð fyrir að fyrir þá verði lögð.
    Um þetta mál hefur verið fjallað mjög víða. Flestir aðilar sem koma að viðskiptum með bifreiðar hafa um þau vélað á einn eða annan hátt. Þó skal tekið fram að bifreiðasalar hafa ekki með sér samtök þannig að ekki var hægt að leita til bifreiðasala sem samtaka heldur varð að fá upplýsingar og álit einstakra stórra bifreiðasala sem var gert. Niðurstaðan er frv. það sem hér liggur fyrir og veit ég ekki betur en það njóti almenns stuðnings og skilnings hjá þeim sem hagsmuna hafa að gæta í sölu notaðra bifreiða.
    Virðulegi forseti. Ég legg til að að lokinni þessari umræðu verði frv. vísað til 2. umr. og hv. efh.- og viðskn.