Hlutafélög

112. fundur
Föstudaginn 18. mars 1994, kl. 16:43:56 (5364)


[16:43]
     Jóhannes Geir Sigurgeirsson :
    Virðulegur forseti. Hér kemur á borð okkar mikill lagabálkur og mér þykir vænt um að heyra frá hæstv. ráðherra að hann lætur sér ekki detta í hug að það verði hægt að afgreiða þetta á þeim fáu dögum sem eftir eru til vorsins og beindi málinu til fulltrúa í efh.- og viðskn. Þeir eru orðnir fáir í þingsölum undir kvöld á föstudegi. Sá sem hér stendur er nú sá eini úr þeirri nefnd. ( Viðskrh.: Það er spurning um magn en ekki gæði.) Já, en ég verð nú að segja það, virðulegi forseti, við hæstv. ráðherra að ég held að við hefðum verið alveg til með það í nefndinni að fá þetta frv. fram fyrir svona eins og tveim mánuðum eða svo þannig að við hefðum þá haft eitthvað að gera, en það hefur einhvern veginn farið þannig hjá þeirri blessaðri nefnd í vetur sem vann nánast alla daga í fyrravetur að það hefur ekkert verið fyrir okkur í vetur. Þess vegna finnst mér að tímanum sé illa varið að við skyldum ekki vera búnir að fá eitthvað af þessum málum í hendurnar.
    Ég ætla ekki að fara mikið efnislega ofan í þetta mál. Þetta er mikill lagabálkur og þarfnast að mínu mati góðrar yfirferðar af hálfu Alþingis. Þó ég efi ekkert að þetta sé vel unnið af hálfu ráðuneytisins þá er hér um að ræða það stórt mál að bara það eitt fyrir þingmenn í þingnefnd að fara svo í gegnum þetta að þeir átti sig almennilega á hvað við erum að samþykkja getur tekið ærinn tíma. En ég get tekið undir það sem kom fram hjá ráðherra og í andsvari að það er nauðsynlegt að breyta íslenskum lögum um hlutafélög, ekki eingöngu vega EES og ég vil, virðulegi forseti, ef ég má víkja að því frv. sem er ekki komið til umræðu um eignarhlutafélög sem er hér á dagskránni á eftir, þetta tel ég vera til mikilla bóta og hef reyndar spurt eftir því þráfaldlega þegar ég hef haft tækifæri til þess og embættismenn viðskrn. hafa verið inni í nefnd hjá okkur. Þetta held ég að sé mjög til bóta varðandi allan minni atvinnurekstur, að einyrkjar fái félagsform þannig að þeir geti takmarkað sína ábyrgð við það sem þeir eru tilbúnir til að leggja í þá atvinnustarfsemi sem þeir eru að fara í án þess að þurfa að ganga í gegnum allt hið flókna ferli sem er í kringum hlutafélögin.
    Þetta hefur gert það að verkum, að þetta form er ekki til, að töluverður hluti af þeim hlutafélögum sem nú eru á skrá eru í raun að þjóna sama hlutverki og þessi eignarhlutafélög eiga að gera og gefa hvorki út hlutabréf né halda hluthafafundi eða aðalfundi þannig að þarna er um að ræða að mínu mati aðlögun að raunveruleikanum eins og hann er í dag að nokkru leyti og á auk þess að geta orðið hvati til þeirra sem hafa hugmyndir, orku og tíma til þess að koma því í framkvæmd og geti fengið til þess einfalt félagsform án þess að þurfa að setja allar eigur sínar að veði eins og væri ef þeir rækju viðkomandi rekstur í eigin nafni. Og ef ég hugsa upphátt í ræðustól, þá veltir maður því fyrir sér hvort þetta form gæti ekki til að mynda hentað í atvinnugreinum eins og landbúnaði. Ef svona form hefði verið til staðar þegar menn voru að fikra sig áfram með loðdýraræktina og loðdýrabúskapinn. Að vísu voru menn á þeim tíma ekki farnir að átta sig eins á þeim skuldbindingum sem þeir voru almennt að takast á herðar. Gamli verðbólguhugsunarhátturinn var kannski enn þá allt of mikið við lýði þá en ég sé ýmsa kosti við þetta form.
    Ég get líka tekið undir að það þarf að reisa skorður við því að menn geti hoppað á milli félaga með því að láta eitt fara á hausinn og annað taka við. En þá að vísu vaknar sú spurning hvað eignarhlutafélögin geta verið um stóran rekstur og hvort það getur verið leiðin sem þeir aðilar hefðu eftir að stærri hlutafélög væru orðin þeim lokuð.
    Að lokum ein spurning til hæstv. ráðherra. Hér er talað um helstu breytingar á lögum um hlutafélög. Það er I. kafli, almenn ákvæði, með leyfi forseta:
    ,,Lágmarkshlutafé þeirra hlutafélaga, sem verða áfram hlutafélög en eru ekki umskráð sem eignarhlutafélög, svo og nýrra hlutafélaga, tífaldast, skal vera minnst fjórar millj. kr. í stað 400 þús. kr.``
    Ef maður les þetta alveg eftir orðanna hljóðan, þá virðist þurfa eftir að þetta er samþykkt að umskrá öll hlutafélög sem ekki ná því að vera með 4 millj. í hlutafé og ég sé að ráðherra kinkar kolli þannig að ég er sem sé búinn að fá svar við þessari spurningu.