Hlutafélög

112. fundur
Föstudaginn 18. mars 1994, kl. 17:00:57 (5367)


[17:00]
     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég get tekið undir það með hv. 6. þm. Norðurl. e. að ég tel að sameignarfélögin hafi alls ekki verið æskilegt form einmitt vegna þess að þar er fullkomin ábyrgð beggja eigenda fyrir öllu en í hlutafélögum skiptist ábyrgðin meira. Ég held því að einmitt það að skipta þessu upp í stór hlutafélög og minni sem eru eignarhlutafélög sé einmitt af hinu góða og ég hygg að þeir sem í dag eru með sameignarfélög muni velja það form sem eignarhlutafélögin bjóða upp á.
    Hvað varðar félagsbú og annað hjá bændum hætti ég mér ekki inn í þá umræðu. Ég þekki það ekki nægilega vel. Þó ég þekki eitthvað til þeirra sem segjast reka félagsbú, m.a. á svæði hv. þm., þá þekki ég það mál ekki nægilega vel en mér datt í hug að það gæti e.t.v. leyst þeirra vanda að einhverju leyti líka. En ég þakka hv. þm. fyrir svörin.