Hlutafélög

112. fundur
Föstudaginn 18. mars 1994, kl. 17:02:18 (5368)


[17:02]
     Viðskiptaráðherra (Sighvatur Björgvinsson) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. sem hér hafa kvatt sér hljóðs. Ég er sammála um það að lög um eignarhlutafélög munu væntanlega leysa samvinnufélög af hólmi og þá er búið að setja lagaramma um tvenns konar félagsrekstur, annars vegar eignarhlutafélög, smærri hlutafélög sem munu væntanlega leysa sameignarfélögin af hólmi og einkarekstur, og hins vegar stærri hlutafélögin. Þá vantar út af fyrir sig löggjöf um þriðja rekstrarformið sem hefur verið tíðkað án þess að það hafi nokkurs staðar stoð í lögum, en það eru svokölluð sjálfseignarfélög. Þau eru eiginlega hálfgerður bastarður í rekstri sem vantar öll lagaákvæði um, ekki bara í félagarétti heldur í skattalöggjöf líka. M.a. er algerlega óljóst hvernig ætti að leysa slík félög upp, hver ætti að hafa um það forgöngu og hvernig stjórn slíkra félaga ætti að endurnýja sig.
    Um þær spurningar sem hér hafa verið lagðar fram vil ég aðeins taka fram að verði þessi tvö frv. að lögum, þau þurfa þá að verða að lögum jafnhliða, er auðvitað gert ráð fyrir því að þau félög sem ekki ná lágmarkshlutafjárframlagi til þess að geta kallast hlutafélög en eru skráð á hlutafélagaskrá nú yrði gefinn kostur á að láta umskrá sig sem hlutafélög en þá þyrftu þau að hækka lágmarkshlutafé sitt. Verði það ekki gert, þá leiðir af sjálfu að þau yrðu skráð sem eignarhlutafélög. Að sjálfsögðu yrði slík umskráning aldrei á fullu verði eins og er við skráningu nýrra félaga. Það er alveg nauðsynlegt fyrir þá sem eiga viðskipti við þessi félög að þeir geri sér það ljóst hvort um er að ræða hlutafélög með háu lágmarkshlutafé eða lágu lágmarkshlutafé svo þessi umskráning verður að eiga sér stað. Hins vegar vildi ég beina því til nefndarinnar hvort hægt væri að finna eitthvað betra orð en eignarhlutafélög yfir það félagaform. Menn hafa hugleitt orð eins og hlutafélög um það rekstrarform en almenningshlutafélag um hið stærra rekstrarform. Það gengur þó ekki upp, en það væri mjög gott ef menn gætu fundið eitthvað snyrtilegra orð sem lýsti því betur hvað um væri að ræða.
    Hv. 6. þm. Vestf. spurði hvað átt væri við með því ákvæði í X. kafla um hluthafafundi þar sem gert er ráð fyrir því að stjórn félagsins sé skylt að gera vissar ráðstafanir þegar félagið hefur tapað helmingnum af hlutafjáreign sinni. Í því sambandi vil ég sérstaklega vísa í skýringar með --- ekki finn ég þessar skýringar, en meginatriðið er það að stjórn hlutafélags hefur ekki heimild, verði þetta frv. samþykkt, til þess að taka lán í nafni félagsins sem er umfram helminginn af hlutafjáreign þess þannig að ef til stendur að auka lántökur fyrirtækisins umfram þann hlut, þ.e. að skuldir fyrirtækisins verði meiri en helmingurinn af hlutfjáreign þess, þá verður að leita til hluthafafundar. Sama máli gegnir ef tap fyrirtækisins hefur orðið það mikið að það stefnir í að þetta lánshlutfall verði helmingur af hlutafjáreign fyrirtækisins. Þá ber að kalla til hluthafafundar og taka vandamál fyrirtækisins til meðferðar. Stjórn fyrirtækis getur sem sé ekki skuldsett fyrirtæki að eigin samþykktum fyrir meiru en nemur helmingi af hlutafé fyrirtækisins. Ef um er að ræða meiri skuldsetningu verður að leita til hluthafafundar og fá samþykki hluthafafundar fyrir slíku. Þetta er nýbreytni sem út af fyrir sig á ekkert skylt við EES heldur er til að auka rekstraröryggi slíkra félaga.