Hlutafélög

112. fundur
Föstudaginn 18. mars 1994, kl. 17:09:20 (5372)


[17:09]
     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Mér dettur það í hug hvort ekki sé hægt að nota bara nafn eins og a-hlutafélag og b-hlutafélag. Ég varpa því inn í nefndina til að skoða það.
    Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir þau svör sem hann gaf hér áðan. Ég vil vissulega taka undir það að ég held að það sé af hinu góða að stjórn félagsins fylgist betur með því þegar erfiðleikar koma upp í sambandi við hlutafé og sé þá ábyrg fyrir því að tekin sé ákvörðun á hluthafafundi um hvort taka skuli lán til að bjarga félaginu. Kannski er maður einnig að hugsa um þetta vegna þess að allir vita hversu erfið staða sjávarútvegshlutafélaga er og það er spurning hvort þetta mundi verða til þess að veita þar meira aðhald

þannig að fleiri verði meðvitaðir um það sem þar er að gerast og hægt sé að gera vissar ráðstafanir áður en í algert óefni er komið og ekki bara örfáir beri ábyrgð á framkvæmdum í sambandi við að afla meira fjár.
    Eins og ég sagði áðan er í raun og veru ekki hægt að ræða þetta frv. efnislega og ég hef ekki hugsað mér að gera það neitt frekar. En ég þakka hæstv. ráðherra fyrir þau svör sem hann hefur gefið.