Kostnaður atvinnufyrirtækja af ákvæðum mengunarvarnareglugerðar

114. fundur
Mánudaginn 21. mars 1994, kl. 15:32:50 (5382)


[15:32]
     Fyrirspyrjandi (Sturla Böðvarsson) :
    Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. umhvrh. fyrir það svar sem hann veitti hér við fyrirspurnum mínum. Það er alveg ljóst af svari hæstv. ráðherra að það er mjög erfitt að meta þann kostnað sem fylgir hertum kröfum samkvæmt reglugerðarákvæðum, hertum kröfum um varnir gegn mengun og það er út af fyrir sig ekki óeðlilegt. Það ber hins vegar að fagna því að settar skuli vera strangar reglur um mengandi starfsemi og afar mikilvægt að því sé fylgt eftir og að það sé gott eftirlit með því að ákvæðum reglugerða sé fylgt til hins ýtrasta.
    Það var hins vegar tilgangur minn með þessari fsp. að fá upplýsingar frá hæstv. umhvrh. með hvaða hætti umhvrn. metur þennan kostnað og af svari hæstv. ráðherra er alveg ljóst að þessi kostnaður verður mjög mikill. Það verður verulega mikill kostnaður af því að koma upp nýjum búnaði, bæta með

ýmsum hætti t.d. eins og útrásir frá skolpveitum og þvílíku og undir þetta þurfum við að búa þá aðila sem reglugerðin nær til.
    Ég held að það sé afar mikilvægt fyrir okkur Íslendinga að standa vel að mengunarvörnum á öllum sviðum og sjá svo til að við séum fremst í flokki varðandi mengunarvarnir. Ég treysti því að hæstv. umhvrh. láti sitt ráðuneyti fylgja þessari reglugerð rækilega fram en legg þó áherslu á að það verður að gera öllum ljóst sem þetta varðar að þetta er mikill kostnaður og að þeim aðilum sé gert kleift að afla sér tekna til þess að uppfylla þær auknu kröfur sem mengunarvarnareglugerðin felur í sér.