Kostnaður atvinnufyrirtækja af ákvæðum mengunarvarnareglugerðar

114. fundur
Mánudaginn 21. mars 1994, kl. 15:35:21 (5383)


[15:35]
     Umhverfisráðherra (Össur Skarphéðinsson) :
    Virðulegi forseti. Það er hárrétt hjá hv. þm. að það er talsvert erfitt að meta sérstaklega þann kostnað sem fellur til vegna atvinnustarfsemi í framhaldi af þeirri reglugerð sem sett var 27. jan. sl. og ég vil taka undir með honum að það er ekki óeðlilegt. Hér er um að ræða nýjung hjá okkur. Hér er um að ræða hertar kröfur og ég fagna því að hann hefur skilning á því að það er nauðsynlegt að setja strangar kröfur á þessu sviði og fylgja þeim fast eftir.
    Vegna þess að óvissan ríkir nú fyrst og fremst í tengslum við fyrirtæki og atvinnustarfsemi, þá er rétt að geta þess líka að í reglugerðinni sem hv. þm. byggir fyrirspurn sína á er gert ráð fyrir því að fyrirtæki geti einnig komið sér upp innra eftirliti og munu þau þá í framhaldi greiða lægri eftirlitsgjöld og þá er gert ráð fyrir því að mestur eftirlitskostnaðurinn muni tengjast útgjöldum vegna innra eftirlitskerfis. Það tel ég að sé mjög mikilvægt.
    Það er líka rétt hjá hv. þm. að kostnaðurinn verður mikill fyrir einstök sveitarfélög. Sum þeirra eru þannig í sveit sett að það verður erfitt og kostnaðarsamt fyrir þau að fylgja eftir þeim kröfum sem settar eru. Hv. þm. hefur áður bent á nauðsyn þess að þessum sveitarfélögum verði með einhverjum hætti tryggðir tekjustofnar til þess að standa undir þessum útgjöldum. Þess vegna vil ég minna á það að í nýbirtri skýrslu fráveitunefndar eru einmitt lagðar fram tillögur sem framkvæmdarvaldið á eftir að taka afstöðu til um hvernig eigi að hjálpa þessum sveitarfélögum.
    Mig langar líka að geta þess, virðulegi forseti, að útfærsla leiðbeininga og ákvæða í mengunarvarnareglugerðinni að því er varðar atvinnustarfsemi og fyrirtæki í landinu hefur verið gerð í nokkuð góðri samvinnu við atvinnulífið og ég vil sérstaklega geta þess að það hefur verið mjög gott samstarf af hálfu ráðuneytisins og Vinnuveitendasambands Íslands. Ég geri það, virðulegi forseti, vegna þess að það er ekki oft sem ég sé ástæðu til þess að hrósa VSÍ úr þessum ræðustól.