Verndun nytjavatns

114. fundur
Mánudaginn 21. mars 1994, kl. 15:38:16 (5384)


[15:38]
     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Í fjarveru minni flutti Auður Sveinsdóttir landslagsarkitekt fsp. til hæstv. umhvrh. um verndun nytjavatns. Fyrirspurnin er svona:
    ,,Hyggst ráðherra leggja fram frumvarp um verndun nytjavatns?``
    Á síðasta þingi var flutt frv. um þetta efni en náði þá ekki fram að ganga. Hér er talið að um sé að ræða hið þarfasta mál sem hefði auðvitað þurft að ná fram að ganga að mati fyrirspyrjanda Auðar Sveinsdóttur. Í þeim töluðum orðum að þetta mál er tekið hér á dagskrá, þá er málið flutt hér sem stjfrv. á nýjan leik sem er 512. mál þingsins á þskj. 788 og þar með má út af fyrir sig segja að svar við fsp. liggi fyrir og ég þakka fyrir það.
    Það er hins vegar dálítið sérkennilegt ef ég má bæta því þá við þessa fsp. að frv. skuli ekki koma fram fyrr úr því að það var flutt í fyrra og ég spyr hæstv. ráðherra að því af hverju það er, ef hann mundi geta svarað þeirri fsp. Í annan stað sýnist mér að hvað sem lagasetningu líður, sem er vissulega mjög mikilvæg í þessu máli af því að hún setur einkaeignarrétti á landi vissar skorður og refsiákvæðin í frv. eru mjög skýr, þá er það engu að síður svo að stjórn nytjavatnsverndar sem gert er ráð fyrir í frv. er þannig að ráðherrann gæti skipað þessa samráðsnefnd með þeim verkefnum sem gert er ráð fyrir í 6. gr. án þess að hafa til þess sérstakar og sjálfstæðar lagaheimildir.
    En erindi mitt í ræðustólinn er að flytja þessa fsp. fyrir varaþingmann minn og þakka fyrir fram fyrir það að málið skuli hafa verið flutt og um leið að spyrja hverju það sætir að það hefur ekki komið fyrr fram þessu þingi þar sem það var lagt fram á því síðasta líka.