Samgöngur í sameinuðum sveitarfélögum

114. fundur
Mánudaginn 21. mars 1994, kl. 16:05:47 (5401)


[16:05]
     Fyrirspyrjandi (Ingibjörg Pálmadóttir) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. félmrh. svörin. Það kom fram í máli hæstv. ráðherra að hún var undrandi yfir því að þessi fyrirspurn skyldi ekki koma til hæstv. samgrh. en hæstv. félmrh. er ráðherra sveitarstjórnarmála og mælti mjög með því að sveitarfélög skyldu sameinast og mælti einmitt með því að samgöngur yrðu bættar. Mér fannst því rétt að spyrja hæstv. félmrh. að þessari spurningu. En svörin voru afskaplega rýr, það er ekki hægt að segja annað. Það kom fram í máli hæstv. ráðherra að þingmenn munu koma saman í haust og endurskoða vegáætlun. Varla er ætlast til að þingmenn einstakra kjördæma, þar sem sameining hefur átt sér stað, rústi allri vegáætlun í öðrum sveitarfélögum? Mig langar til að spyrja hæstv. ráðherra: Er það það sem hún meinar með þessu svari? Á sem sé að færa fjármagn frá þeim sveitarfélögum, sem ekki hafa sameinast, til þeirra sveitarfélaga sem hafa sameinast? Mér finnst að hér hafi verið gefin fölsk fyrirheit ef ekki á að koma nýtt fjármagn til þeirra sveitarfélaga sem nú þegar hafa sameinast.