Kílóagjald á bíla

114. fundur
Mánudaginn 21. mars 1994, kl. 16:18:45 (5405)


[16:18]
     Fyrirspyrjandi (Jóhannes Geir Sigurgeirsson) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið þó að ég verði því miður að segja að mér fannst ekkert óskaplega mikið á því að græða. Ég verð að segja það að mér líst ekki vel á þá hugmynd

sem hér er sett fram um það ef menn leggja bílnum í hálft ár, þá fái þeir ekki nema þrjá mánuði endurgreidda. Svo ég taki dæmi þá nefni ég þetta út frá hagsmunum tveggja hópa. Annars vegar húsbílaeigenda sem ég nefndi áðan. Þetta mundi væntanlega þýða að þeir væru yfirleitt með í mesta lagi þriggja mánaða endurgreiðslu eða eitthvað slíkt og sú endurgreiðsla mundi ekki einu sinni vega upp þá hækkun sem varð á gjaldinu um síðustu áramót og fannst mönnum þó gjaldið nógu hátt fyrir. Ég nefni hins vegar vörubílstjóra víða um land sem stunda sumarvinnu og leggja sínum bílum yfir veturinn og hefur þótt þetta afar óréttlát gjaldtaka.
    Það er eitt, virðulegi forseti, í þessu máli sem ég vil leggja áherslu á því svo ótal margir hafa haft samband við mig út af þessu máli, kannski fleiri en nokkru öðru máli eftir að ég hóf mína þingmennsku. Það er ekki eingöngu út af gjaldtökunni sem slíkri heldur vegna þess hvað mönnum finnst þetta kílóagjald óhemju óréttlátur skattur. Ég hef sagt áður við hæstv. fjmrh. að þetta er álíka og ákveðið væri að leggja á nefskatt og hann væri lagður á eftir þunga einstaklinganna. Það er engin lógík á bak við þetta nema sú að þarna fann ríkið skattlagningaraðferð sem var þægileg. Það er aðgengilegt bæði hverjir eiga bíla og hvað þeir eru þungir. Það virðist hafa verið ákveðið einhvern tíma þegar verið var að loka fjárlagagati að skella skatti þarna á sem hefur síðan stöðugt verið hækkaður.