Eftirlit með fóðri, áburði og sáðvöru

115. fundur
Þriðjudaginn 22. mars 1994, kl. 13:41:34 (5407)

[13:41]
     Frsm. landbn. (Egill Jónsson) :
    Virðulegi forseti. Hér hefur áður farið fram umræða um þetta mál í þinginu þegar það var lagt fram og skýrt og þess vegna vitna ég í þeim efnum til framsöguræðu landbrh. og athugasemda og skýringa við lagafrv. sjálft. Það er hins vegar vert að minna á það að þetta mál var lagt fyrir þingið í fyrra, sent til umsagna, en hlaut ekki afgreiðslu að öðru leyti. Það var afgreitt frá landbn. til landbrn. með umsögnum og

ábendingum um að eðlilegt væri að fara yfir þær og skoða málið út frá því þegar það yrði lagt aftur fyrir Alþingi. Þetta var raunar gert en ekki gerðar á því breytingar af hendi ráðuneytisins, enda voru umsagnirnar með þeim hætti að í þeim fólust ekki efnislegar ábendingar að neinu marki.
    Það er líka vert að geta þess að hér er verið að koma á fót sjálfstæðu aðfangaeftirliti og það held ég að sé mikið til bóta. Áður hafði Rannsóknastofnun landbúnaðarins þessi verkefni með höndum en með nýjum og breyttum tímum, sem m.a. koma til af alþjóðlegu samstarfi sem við tökum þátt í, er eðlilegt að aðfangaeftirlitið fái meira sjálfstæði og hafi einungis að húsbónda landbrh. Þetta er sem sagt grundvallaratriðið í þessu máli.
    Að þessu sinni hefur landbn. hins vegar gert ofurlitlar breytingar á frv. eða gert tillögur til breytinga og þær eru einkum til komnar vegna ábendinga búnaðarþings um málið. Þær fela í sér að þær nefndir sem eiga að vera til staðar þegar samdir eru m.a. staðlar eiga samkvæmt tillögu nefndarinnar einungis að vera tvær, þ.e. fóðurnefnd og síðar sáðvöru- og áburðarnefnd og er þar um að ræða breytingu úr þremur nefndum í tvær. Auk þess er kveðið á um það að aðfangaeftirlitið fái skýrari heimildir til þess að stöðva vörur sem eru í umferð eða kæmust í umferð, en uppfylla ekki þá staðla og þau skilyrði sem krafist er.
    Ég sé ekki ástæðu til þess, virðulegi forseti, með tilliti til þessara skýringa um forsögu málsins að orðlengja þetta frekar og geri tillögu um að málinu verði vísað til 3. umr. að þessari umræðu lokinni.