Eftirlit með fóðri, áburði og sáðvöru

115. fundur
Þriðjudaginn 22. mars 1994, kl. 13:46:32 (5408)


[13:46]
     Jóhannes Geir Sigurgeirsson :
    Virðulegur forseti. Þar sem ég skrifaði undir nefndarálit með fyrirvara, þá tel ég ástæðu til þess að gera grein fyrir þeim fyrirvara. Ég styð þær breytingartillögur sem hér eru lagðar fram og tel þær vera til bóta. Minn fyrirvari snýr hins vegar að því að ég sé ekki að það hafi verið þörf á því að stofna nýja sérstaka stofnun um þennan þátt aðfangaeftirlitsins. Það hefði verið hægt að skilgreina þetta starfssvið betur og vista það áfram sem deild innan Rannsóknastofnunar landbúnaðarins. Ég tel þetta í raun að nokkru leyti ganga þvert á þá stefnu sem við þyrftum að fylgja í dag, sem væri sú að samræma og sameina stofnanir frekar en að dreifa þeim. Ég bendi á í því sambandi að þessi stofnun, þegar þetta verður að lögum, mun verða vistuð í Rannsóknastofnun landbúnaðarins uppi á Keldnaholti, en það er hins vegar ekkert sem tryggir að svo geti orðið áfram ef ekki er um það samkomulag við þá stofnun. Ég bendi á í þessu sambandi að ef menn væru sjálfum sér samkvæmir, þá mundu menn búa til aðra stofnun sjálfstæða úr plöntueftirlitinu, sem er deild innan RALA og gegnir nákvæmlega sama hlutverki á því sviði. Þannig að minn fyrirvari í þessu máli er fyrst og fremst varnaðarorð í þá veru að á þessu sviði þurfum við frekar á því að halda að samræma og sameina heldur en að stofna nýjar stofnanir.