Stækkun atvinnu- og þjónustusvæða á Vestfjörðum

115. fundur
Þriðjudaginn 22. mars 1994, kl. 14:19:51 (5411)


[14:19]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það var síður en svo ætlunin að æsa menn upp og fyrrv. ráðherra úr fyrrv. ríkisstjórnum með því að flytja þessa framsöguræðu hér. Það sem ég var eingöngu að benda á er að það að senda 300 millj. til Vestfjarða er smáræði miðað við það sem gert hefur verið á undanförnum árum þegar dælt var út milljörðum króna. Það var til að sýna stærðarmuninn og benda á það hvað þetta er lítið mál miðað við margt sem áður hefur verið gert.
    Í öðru lagi þá hefur það aldrei verið neitt felumál af hálfu þessarar ríkisstjórnar að hún vildi beita sértækum aðgerðum þegar það á við, en auðvitað í sem allra minnstum mæli. Sú ríkisstjórn sem hér situr hefur nefnilega beitt almennum aðgerðum, öðrum ríkisstjórnum fremur, sem sýnir sig í þeim mikla árangri sem náðst hefur. Árangri sem náðst hefur í verðbólgu, í viðskiptahallanum, sem er nánast enginn á þessu ári og með því að raungengi íslensku krónunnar er með þeim hætti að samkeppnisstaða fyrirtækjanna er sterk. Þetta eru allt afleiðingar þess að ríkisstjórnin hefur beitt almennum aðgerðum og það er meginstefna þessarar ríkisstjórnar. Það þýðir hins vegar ekki að ráðherrarnir í ríkisstjórninni ætli ekki undir nokkrum einustu kringumstæðum að beita sértækum aðgerðum. Þegar það er gert er það gert með ákveðnum og beinskeyttum hætti og notaðir til þess eins litlir peningar og mögulega er hægt að komast af með. Það er munurinn á stefnu og störfum þessarar ríkisstjórnar og hinna sem áður sátu.
    Það var hins vegar ekki ætlunin að hefja hér upp deilur og ég vænti þess að hv. 1. þm. Austurl. sé tilbúinn til þess að stuðla að því að þetta mál fái farsælan byr í gegnum þingið.