Stækkun atvinnu- og þjónustusvæða á Vestfjörðum

115. fundur
Þriðjudaginn 22. mars 1994, kl. 14:23:46 (5413)


[14:23]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Hér sagði hv. 1. þm. Austurl. að ríkisstjórnin --- eða það mátti skilja að hann ætti við þetta sérstaka mál hér --- hefði vaðið áfram með málið, vaðið áfram og ætlað að keyra í gegn þetta mál. En í lok ræðu sinnar sagði hann hins vegar að það væri allt of seint brugðist við. Hefur hann þar með svarað sjálfur þeirri ásökun.
    Það er alveg hárrétt að það hafa orðið gjaldþrot hér að undanförnu. Hv. þm. veit líka að það hafa verið efnahagserfiðleikar að undanförnu. Ég vona að það hafi ekki farið fram hjá hv. þm. að afli hefur verið minni að undanförnu heldur en á mörgum árum þar á undan. Það veit hv. þm. auðvitað. Og hv. þm. hlýtur að gera sér grein fyrir því, ég trúi ekki öðru, heldur en að mikill hluti þeirra fjármuna, þeirra milljarða, sem fóru út m.a. í gegnum Atvinnutryggingarsjóð hafa síðan verið færðir yfir á ríkissjóð. Af þeim þarf að borga afborganir og vexti núna sem takmarkar möguleika okkar, sem stórkostlega takmarkar möguleika okkar, til þess að nota þá peninga í annað. Því þessir peningar verða ekki notaðir tvisvar. Með þessu hefur þó aldrei verið sagt og ég hef aldrei haldið því fram að forverar þessarar ríkisstjórnar hafi gert eintóma vitleysu eins og hv. þm. kom hér upp og sagði að við héldum fram. Því hefur aldrei verið haldið fram. ( HÁ: Víst hefur því verið haldið fram.) Og ég ætla bara að segja það enn og einu sinni, ef það er til þess að róa hv. þm. niður, og taka það sérstaklega fram að ríkisstjórn hv. þm. Steingríms Hermannssonar og hv. þm. Halldórs Ásgrímssonar gerði ekki eintóma vitleysu þegar hún sat hér. Því skal vera lýst yfir. Það var ekki allt eintóm vitleysa sem hún gerði. Sumt var gott, annað verra.